Nota sólina til þess að kæla mjólkina
Í mörgum löndum víða um heim spillist mjólk vegna þess að hún er ekki kæld nógu hratt eftir mjaltir en til að varðveita gæði mjólkurinnar, svo hún nýtist sem best og minnst fari til spillis, er mælt með því að kæling fari fram á fyrstu tveimur klukkustundunum eftir mjaltir.
Skortur á innviðum, skortur á köldu vatni, lélegt eða ekkert aðgengi að rafmagni er staðreynd sem margir bændur búa við og sérstaklega í þróunarlöndunum. Þetta takmarkar möguleika margra bænda til að kæla mjólkina niður skömmu eftir mjaltir og er ein megin ástæða þess að um allan heim spillast hundruð milljóna lítra af mjólk á hverju ári.
Mjólkurframleiðslan í Nígeríu
Ársframleiðsla mjólkur í Nígeríu er óvenju lítil miðað við stærð og mannfjölda landsins, en hún er ekki nema um fjórföld íslenska mjólkurframleiðslan. Um það bil 95% af mjólkinni, sem framleidd er í Nígeríu, kemur frá hirðingjum sem fara um með nautgripi sína eftir veðri og aðgengilegum gróðri. Þessir hirðingjar nota aðallega hvíta Fulani nautgripakynið, sem er aðalkynið ekki aðeins í Nígeríu heldur einnig í Tsjad, Gana, Níger og Tógó. Þetta nautgripakyn er einstaklega seigt og vel aðlagað að erfiðu umhverfi í hinu svokallaða Sahel belti suður af Sahara eyðimörkinni. Þetta svæði er alþekkt fyrir mikla þurrka og hitasveiflur, sem geta vissulega verið stórt vandamál fyrir kúabændur sem aðra bændur.
Hvítu Fulani nautgripirnir hafa aðlagast þessum aðstæðum á mörg hundruð árum og geta vel lifað af við þessar aðstæður en gallinn við gripina er aftur á móti afar slök afurðasemi. Algeng dagleg mjólkurframleiðsla kúa af þessu kyni er ekki nema 1,5-2,5 lítrar af mjólk og við kjöraðstæður, á tilraunabúum, gefa kýrnar ekki af sér nema þetta 5-7 lítra á dag! Vegna lítillar framleiðslu hvers grips er algengt að hirðingjarnir séu með margar kýr en oft er þó innlegg í afurðastöð ekki nema í kringum 10 lítrar af mjólk á dag.
Mjólkursöfnunin er áskorun
Ekki nóg með að hver kúabóndi sé að leggja inn lítið magn á hverjum degi þá fylgja því ýmis vandamál að kaupa mjólk af hirðingjum.
Eitt þeirra er að vegna eðli framleiðslunnar, þar sem þeir flakka um með gripi sína og fara um stórt landsvæði í leit að góðri beit og drykkjarvatni, þá er oft ekki beint einfalt að senda mjólkurbíla af stað að sækja mjólk.
Þetta hefur leitt til söfnunarkerfis þar sem litlu magni af mjólk er safnað saman á nokkrum stöðum og mjólk frá mismunandi bændum er blandað saman við aðra mjólk.
Þessi mjólk er síðan flutt, oft á mótorhjólum, að sérstökum móttökustöðvum mjólkur.
Uppbygging á svona móttökustöðvum mjólkur hefur svo skapað ákveðið tækifæri til þess að kæla mjólkina, sem er annars alltaf afhent volg frá hverjum bónda. Fyrir okkur Íslendinga virkar það líklega frekar framandi að hægt sé að starfrækja móttökustöðvar mjólkur án þess að þar sé t.d. rafmagn en það er tilfellið í Nígeríu og langflestar móttökustöðvar eru einfaldlega staðsettar svo langt í burtu frá þéttbýli, að engin leið er að tengja þær við raflagnakerfi landsins.
Nota orku sólarinnar
Þrátt fyrir að reknar séu svona móttökustöðvar mjólkur er mjólkurmagnið í hverri stöð allt frá því að vera einungis nokkrir tugir lítra og upp í nokkur hundruð lítra. Að setja upp fullkomin kælikerfi fyrir mjólk hefur því reynst vandamál vegna orkuþarfar við kælinguna en með því að nota sólarorku til að knýja kælikerfi hefur tekist að búa til sveigjanleg kælikerfi þ.e. kerfi sem virka allt frá því að kæla lítið magn mjólkur upp í töluvert meira magn. Auk þess eru þessi kerfi nokkuð auðfæranleg og því hægt að fylgja hirðingjunum eftir, ef svo má að orði komast, og verða með einskonar færanlegar móttökustöðvar fyrir mjólk.
Í Nígeríu hefur því í tilraunaskyni verið komið upp þrenns konar kerfum sem nýta sólina við kælingu á mjólk. Það minnsta kælir einungis einn 40 lítra mjólkurbrúsa í einu! Næsta stærð fyrir ofan getur tekið 3-4 brúsa í einu og það umfangsmesta ræður við 7-8 brúsa í einu.
Með þessu móti hefur tekist að draga verulega úr magni ónýtanlegrar mjólkur og reyndar nánast eytt þessu vandamáli á söfnunarsvæðinu þar sem tilraunin fer fram!
Fyrir vikið hafa tekjur bændanna aukist, þar sem þeir fá eðlilega ekki greitt fyrir ónýtanlega mjólk, og um leið hefur matarsóunin snarminnkað þar sem vörurnar sem unnar eru úr mjólkinni hafa enn betra geymsluþol en áður.