Nýjungar í skýrsluhaldi í hrossarækt
Höfundur: Halla Eygló Sveinsdóttir, ráðunautur í hrossarækt hjá RML
Þátttaka í skýrsluhaldi er algjört lykilatriði fyrir kynbótastarfið. Í gegnum árin hefur verið reynt að auðvelda ræktendum og hesteigendum að sinna því sem best.
Árið 1991 var tekið upp tölvukerfi í hrossarækt sem fékk nafnið Fengur og var bylting á þeim tíma. Tíu árum síðar tók WorldFengur (WF) við og hefur verið í sífelldri þróun síðan.
Vorið 2009 var svokölluð „Heimarétt“ opnuð í WF en hún gerði áskrifendum kleift að skila skýrslum á rafrænan hátt, ganga frá eigendaskiptum o.fl. Fram að því var þessum upplýsingum skilað inn á pappír.
Haustið 2010 var því hætt að senda út skýrsluhaldspappír nema sérstaklega væri óskað eftir því. Það leiddi því miður til þess að margir hættu að standa árlega skil á skýrslum.
Vissulega var ætlast til þess að ræktendur gerðu folaldaskýrslur á hverju ári en margir gerðu það ekki og skiluðu skráningum á folöldum inn á örmerkjablöðum.
Hvað varðar afdrifaskráningar gerðist lítið í þeim þar til sláturhúsin fóru að skila inn þessum upplýsingum. Það er því enn eitthvað af hrossum skráð lifandi í WF sem eru það ekki lengur.
Nú stendur til að reyna að koma þessu í betra horf með þeim breytingum sem hér verða kynntar og er von okkar að sem flestir taki til í sínu skýrsluhaldi og standi árlega skil á þeim breytingum sem verða á hverju ári.
Hvað er heimarétt?
Heimaréttin heldur til haga þeim hrossum sem eru í eigu áskrifanda (tengd kennitölu) að WorldFeng, þess vegna koma ekki fram hross sem eru í eigu maka eða barna. Hins vegar er hægt að veita öðrum umboð til að sjá um skýrsluhald.
Eyðublað „umboð heimaréttar“
Til þess að gera það þarf að senda inn eyðublað sem kallast „umboð heimaréttar“ og skila því inn á næstu starfsstöð RML. Þetta eyðublað má finna á heimasíðu okkar www.rml.is undir búfjárrækt.
Til þess að áskrifandi að WF geti skráð folöld sem honum fæðast þarf hann að vera skráður fyrir ræktunarnúmerum í WF.
Til að fá úthlutað númerum er best að setja sig í samband við starfsmenn á sviði hrossaræktar hjá RML í síma 516-5000 eða senda vefpóst á netfangið halla@rml.is.
Hér að neðan er farið yfir hvað hægt er að gera í heimaréttinni.
Heimarétt
Hér á eftir verður farið yfir hvað hægt er að gera í heimaréttinni.
Í heimaréttinni eru eftirfarandi flipar:
<Hrossin mín>, undir þeim flipa eru öll hross listuð upp sem eru í heimaréttinni. Þar er hægt að breyta lit, fæðingardagsetningu, afdrifum, setja inn nafn, skrá geldingu, skrá sölu og setja inn mynd af viðkomandi hrossi. Nauðsynlegt er að yfirfara allar upplýsingar um hrossin árlega, svo WF gefi sem raunsannasta mynd af stofninum á hverjum tíma.
<Fyljanaskráning>, þar er listi yfir allar hryssur í eigu ræktanda. Hér þarf að gera grein fyrir því hvort hryssu var haldið eða ekki. Ef hryssunni hefur verið haldið þarf að gera grein fyrir því hjá hvaða stóðhesti hún var, hvenær hún var hjá honum og árangri fyljunar (sjá mynd hér fyrir neðan).
Hér er líka listi yfir stóðhesta tveggja vetra og eldri. Hafi þeir verið notaðir þarf að skrá inn hvaða hryssur voru hjá þeim (sjá mynd hér fyrir neðan).
Ef hryssueigandi hefur þegar skráð fyljun á sína hryssu kemur hún sjálfkrafa hér inn og eigandi stóðhestsins þarf einungis að staðfesta að upplýsingarnar séu réttar og getur staðfest komu hennar. Geri hann það getur eigandi hryssunnar skráð folaldið að ári í heimaréttinni.
<Fang- og folaldaskýrsla>, hér fer fram skráning á folöldunum og hvað um þau verður. Ef hryssan var geld er gerð grein fyrir því. Í raun ekkert nýtt þarna nema hægt er að velja um eftirfarandi þegar folald er skráð undir: „Afrakstur“; eitt folald, tvö folöld, dauðfætt, hryssan lést. Ef merkt er við tvö folöld koma upp tveir gluggar svo hægt sé að skrá bæði folöldin.
Fliparnir sem koma næst: Fargað, Selt og Útflutt gefa upplýsingar um þessi atriði á völdu tímabili. Þarna getur ræktandinn ekki skráð neitt sjálfur.
Undir flipanum <umráðamaður> er að finna lista yfir umráðamenn hrossa, ef enginn er skráður umráðamaður þarf að setja hann inn (sjá mynd hér fyrir neðan).
Þá er það síðasti flipinn <skýrsluhaldsskil> . Hér fara fram árleg skil á skýrslum þegar búið er að skrá allar nauðsynlegar upplýsingar í fyrri flipum. Þessi skil þarf að framkvæma fyrir 30. desember í ár. Framvegis verður síðan miðað við 20. nóvember en það er sama dagsetning og Matvælastofnun, MAST, er með á skil á haustskýrslu.
Ekki er hægt að skila skýrsluhaldinu nema búið sé að gera grein fyrir fyljanaskráningu ársins og ástæðum förgunar fyrir þau hross sem voru felld/slátrað á árinu.
Til hagræðis fyrir hesteigendur er hér einnig yfirlit yfir fullorðin hross sem ekki eru örmerkt og listi yfir þau hross sem búið er að taka DNA-sýni úr en hafa ekki fengið staðfestingu á ætterni. Þar sem ekki fæst staðfesting á ætterni ættu menn að skoða hvers vegna svo er. Oft eru eðlilegar skýringar á því, s.s. að ekki sé til DNA-sýni úr móður eða föður. Mistök geta líka hafa átt sér stað við sýnatöku eða greiningu og því full ástæða til að fylgja þeim málum eftir.
Þessar breytingar sem hér hefur verið farið yfir eru gerðar til þess að safna verðmætum upplýsingum fyrir ræktunarstarfið og til hagræðis fyrir ræktendur og hesteigendur. Það er von okkar að þessum breytingum verði vel tekið og að lokum er rétt að minna aftur á að skýrsluhaldsskil þarf að framkvæma fyrir 30. desember í ár.