Nýting lífrænna áburðarefna
Notkun á lífrænum áburðargjöfum ásamt jarðvegsbætandi efnum kemur til með að aukast með hækkandi áburðarverði og aukinni umhverfisvitund. Einnig er ljóst að lífræn aðföng koma til með að berast eftir ýmsum leiðum inn í næringarefnahringrás ræktarlands á komandi árum.
Til að mynda verður óheimilt að urða lífrænan úrgang á næsta ári. Í samtölum við bændur hafa einnig komið fram áhugaverðar hugmyndir varðandi notkun á efnivið sem vert væri að prófa.
Gerður er greinarmunur á lífrænum áburði og jarðvegsbætandi efnum. Þannig hefur lífrænn áburður beint áburðargildi umfram önnur jákvæð áhrif sem hann kann að skapa fyrir plöntur. Jarðvegsbætandi efni hafa ekki bein áburðaráhrif, heldur aðallega jákvæð áhrif á ástand jarðvegs og á þann hátt aðeins óbein áhrif á vöxt plantna.
Búfjáráburð hafa bændur nýtt með ýmsum hætti og þekkja leiðir til að nýting hans verði sem best, en þær geta verið ólíkar eftir því á hvaða formi hann er. Þegar áburðaráætlanir eru gerðar er horft til áætlaðrar nýtingar á næringarefnum búfjáráburðar ásamt töflugildum um efnainnihald hans ef ekki eru til mæld gildi um það á viðkomandi búi.
Mælingar sýna að talsverður munur getur verið á þurrefni hans og innhaldi áburðarefni á milli búa. Köfnunarefni í búfjáráburði má skipta í lífrænt bundið köfnunarefni og ammoníum (ólífræna hluta köfnunarefnisins). Í áburðaráætlunum er mest horft á ammoníumhluta áburðarins til þess að áætla hve mikið af köfnunarefninu verði aðgengilegt fyrir plöntur fljótlega eftir dreifingu.
Lífrænt bundni hluti köfnunarefnisins verður hins vegar aðgengilegur samhliða því að búfjáráburðurinn brotnar niður í jarðvegi og því er erfiðara að meta ávinning þess hluta. Niðurbrotshraði lífrænna efna í jarðvegi er að hluta háður hitastigi jarðvegs og í köldu loftslagi líkt og á Íslandi má gera ráð fyrir að niðurbrotið gerist hægar og uppsöfnun næringarefna sé því nokkur.
Þannig eru langtímaáhrif af notkun búfjáráburðar ekki metin að fullu inn í áætlanagerð enda eru upplýsingar um niðurbrotshraða ólíkra lífrænna efna í íslenskum jarðvegi takmarkaðar. Við mat á áburðarþörfum er þó tekið mið af uppsöfnun vegna notkunar búfjáráburðar.
Sýnataka bænda úr búfjáráburði hefur aukist á undanförnum árum. Smá safn er komið upp af sýnum teknum úr haugum sem voru nokkurra ára gamlir og höfðu haft tíma til þess að brjóta sig. Það vekur athygli hve há gildi fyrir köfnunarefni eru í veðruðum haugum.
Gildi fyrir ammoníum virðast hins vegar lækka hratt og með tímanum er það fyrst og fremst lífrænt bundið köfnunarefni sem er eftir.
Notkun á sagi og hálmi til undirburðar bindur þvag og eykur þar með varðveislu á köfnunarefni, niðurbrotshraði verður hins vegar hægari enda þarf undirburðurinn lengri tíma til að brotna niður.
Þar sem mikið er af undirburði í búfjáráburði getur það tímabundið aukið þörf á köfnunarefnisgjöf fái hann ekki tíma til þess að brotna nægjanlega niður í haug.
Á næstunni verða haldnir kynningarfundir víða um land á vegum RML. Þar mun ráðunauturinn Cornelis Aart Meijlessem fjalla um ýmsar leiðir til nýtingar á lífrænum úrgangi og jarðræktarráðunautar RML fara yfir þætti sem tengjast m.a. notkun og nýtingu á búfjáráburði sem og öðrum lífrænum áburðarefnum. Skráning á fundina fer fram á heimasíðu RML.