Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Riddarastjarnan – hin tignarlega amaryllis
Á faglegum nótum 20. nóvember 2014

Riddarastjarnan – hin tignarlega amaryllis

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Riddarastjarnan, eða Amaryllis eins og plantan er oftast kölluð, á sér um þriggja alda þróunarsögu. Hún er manngerður blendingur milli nokkurra náskyldra tegunda sem vaxa í fjallahlíðum Mið- og Suður-Ameríku.+

Til ættkvíslarinnar teljast um 90 tegundir sem dreifast vítt um svæðið. Aðeins nokkrar þeirra koma við sögu þeirra rúmlega 600 riddarastjörnutilbrigða sem við þekkjum og ræktum almennt. Þótt amaryllis sé það nafn sem oftast er notað um þessar laukjurtir, þá stafar það af ruglingi við hina eiginlegu „Amaryllis“-ættkvísl sem á heima í Suður-Afríku. Á tímum hins sænska Carls von Linné, föður grasafræðinnar, voru menn ekki alveg með þetta á hreinu! Hin suður-afríska ættkvísl Amaryllis er tegundafærri en hin suður-ameríska Hippeastrum.

Heitið Amaryllis er dregið af sögu samnefndrar stelpu úr grísku goðafræðinni. Hún varð afar skotin í smalanum Alteó. En sú ást var ekki endurgoldin. Eftir fyrirsögn véfréttarinnar í Delfí klæddi hún sig þá í hvítt frá toppi til táar og stóð við dyrnar á kofa Alteós á hverju kvöldi í heilan mánuð. Öll þessi kvöld stakk hún sig í hjartastað með gullinni ör. Þegar Alteó, seint og um síðir, leit út um dyr sínar til að ganga úr skugga um hvað ylli þessari ásókn, var þar aðeins að sjá blóðrautt liljublóm, sprottið upp af hjartablóði Amaryllisar. Rómantíkin er ekki alltaf réttlát! Heitið Hippeastrum er hins vegar dregið af grískunnar hippos sem þýðir hross og astra sem þýðir stjarna.

Barst til Evrópu frá Vestur-Indíum

Fyrstu tegundirnar af riddarastjörnum sem bárust til Evrópu komu frá Vestur-Indíum. Undanfarinn var Hippeastrum equestre (riddarastjarna) um 1630 og svo Hippeastrum reginae (riddarastjarna drottningar) árið 1728. Þær þóttu skara öllu öðru framar vegna þess hve blómin voru stór og eldrauð. Þessar riddarastjörnur nautu mikilla vinsælda og voru á skömmum tíma komnar í söfn helstu heldri heimila víðs vegar um Evrópu þegar önnur tegund barst frá Suður-Ameríku. Sú hafði enn stærri blóm – en þau voru bleik með rauðum langröndum eftir krónublöðunum. Þessi tegund fékk nafnið Hippeastrum vittatum (riddarastjarna með rönd). Og um nokkurra áratuga skeið voru þessar tegundir ræktaðar hlið við hlið.

Fiktinn járnsmiður með græna fingur

Svo var það árið 1799 að skósmiður nokkur í enska bænum Prescot í Lancashire á Englandi, Johnson að nafni, fiktaði við það að æxla saman tegundunum H. reginae og H. vittatum með þeim árangri að afkomendurnir fengu mun stærri blóm í ýmsum litbrigðum sem hvorugt foreldranna hafði. Þessir blendingar voru allsráðandi í blómagluggunum hjá ömmum okkar og langömmum á öldinni sem leið. Hin fræga Amaryllis-mynd Ásgríms Jónssonar sýnir einmitt einn af þessum Johnsons-blendingum.

Upp úr 1960 hófust svo nýjar kynbætur og kynblandanir með riddarastjörnur. Farið var að blanda saman fleiri tegundum fram og aftur til að fá fram ný blómform og blómliti, en ekki síst þá eiginleika sem helst hentuðu til blómaframleiðslu í stórum stíl og svöruðu kröfu tímans um sterka stilka og lengri blómgunartíma en áður var þekktur. Jafnframt ganga allir hinir nýju blendingar undir nafninu Hippeastrum × hortorum (margföldunarmerkið stendur fyrir að um blending er að ræða og hortorum vísar til garðyrkjunnar) og til viðbótar því fylgir venjulega eitthvert yrkisheiti sem er eins konar vörumerki sem aðgreinir viðkomandi blendingsplöntu, s.k. yrki eða sort, frá öðrum blendingum af sama tagi.

Riddarastjarna sem pottablóm um jólin

Ef við viljum fá riddarastjörnulauka í blóma um jólin, þá er það núna í byrjun nóvember sem er rétti tíminn til að koma þeim af stað. Riddarastjörnulaukar fást í garðyrkjuvöruverslununum á haustin og aftur á vorin. Laukarnir eru nokkuð stórir og þeim er komið fyrir í hlutfallslega smáum pottum. Tólf til fjórtán sentimetra pottar eru mátulegir. Laukarnir eru skorðaðir þannig að þeir standi u.þ.b. hálfir upp úr moldinni. Í fyrstu er vökvað varlega, ekki rennbleytt fyrr en blómspíran er komin upp úr lauknum. Fyrstu dagana er gott að hafa pottana á hlýjum stað, t.d. við miðstöðvarofn, til að koma rótarvextinum á stað. Síðan á eins björtum stað og býðst við venjulegan stofuhita. Það tekur sex til átta vikur frá gróðursetningu laukanna þar til þeir sýna blómin. Blómin standa lengur ef frjóhnapparnir eru klipnir burt. Blómin eru dæmigerð fyrir þau blóm sem frjóvgast af kólibrífuglum. Riddarastjarnan er fáanleg í ýmsum hreinum litum. Rautt er vinsælast um jólaleytið en þegar á líður veturinn fara ýmsir aðrir litir að gera sig gildandi, s.s. hvítt, bleikt, laxableikt og jafnvel órans.

Riddarastjörnublóm á markaðinum

Afskornar riddarastjörnur eru fáanlegar frá því nóvember og langt fram eftir vetri og njóta líklegast þannig mestrar hylli við margskonar aðstæður og tækifæri. Sem afskurðarblóm er Riddarastjarnan afar góð kaup. Blómin standa um það bil tvær vikur í vasa. Þau eru stórar klukkur, 12-15cm í þvermál, oftast fjórar á hverjum legg. Þegar líður nær jólum fer að bera á forræktuðum riddarastjörnum í blómabúðunum. Plönturnar eru þá alveg komnar að því að blómgast og tilbúnar sem híbýlaprýði.

Endurræktun riddarastjörnulauka

Þegar Riddarastjörnulaukarnir hafa lokið blómguninni og blöðin orðin fullvaxta, þarf að stækka pottana fyrir hvern lauk. Setja þá rótarhnausinn í fjögurra til fimm lítra pott með góðri pottamold og hafa á björtum og hlýjum stað, helst í gróðurhúsi, og vakta með vökvun og vikulegri áburðargjöf út septembermánuð. Þá er hætt að vökva og moldin látin þorna hægt. Gjarnan má setja pottana á hliðina undir borð eða inn í skáp, þannig að plönturnar búi sig undir þurrkatímabil og felli allt lauf og falli í eins konar dvala. Þannig þurfa þær að vera við 10–12°C hita í svo sem 20–24 vikur. Eftir þann tíma er þurra moldin hrist af laukunum. Ræturnar snyrtar og skertar eftir þörfum og síðan er lauknum aftur komið fyrir í potti í sömu hlutfallsstærð og byrjað var með þegar laukurinn var nýr. Eftir það er farið með plöntuna eins og lýst er hér að ofan. Þessi leikur getur endurtekið sig í mörg ár.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...