Saga skógræktar á Íslandi
Fyrir langa löngu uxu alls konar plöntutegundir á Íslandi, sem nú þykja framandi, svo sem risavaxinn mammútviður, degli, beyki og eik. En svo kom ísöld.
Þegar Norðmenn gáfu Íslandi fyrst auga var landið þakið þokkafullum birki- og reynitrjám, alla leið frá fjöru til jökla. Landið var svo búsældarlegt að þeir hófu landnám.
Fyrir öld síðan hafði fólk áhyggjur af jarðvegi sem fyki á haf út. Það þótti augljóst að svörðurinn var að gefa eftir og yfirborðsgróðurinn var mjög viðkvæmur.
Skógrækt og landgræðsla á vegum ríkisins rekja upphaf sitt til laga um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands sem sett voru árið 1907. Samkvæmt þeim átti hvort tveggja að vera verkefni embættis skógræktarstjóra, og svo var til ársins 1914 þegar umsjón með landgræðslu var flutt til Búnaðarfélags Íslands. Eftir það þróuðust verkefni í skógrækt og landgræðslu í sitt hvoru lagi í 110 ár. Nú er nýtt upphaf og erfitt að segja til hvers það leiðir eða hversu lengi það stendur.
Þökk sé Dönum, snemma á tuttugustu öldinni, barst nægileg þekking til Íslendinga til að reyna notadrjúgar trjátegundir til ræktunar. Fjölmargar tegundir og ýmiss konar tilbrigði við ræktunina voru prófaðar. Árangurinn var upp og niður, en þó kom það oftar en ekki á óvart hvað hrjóstrugt landið okkar gat gert til að fóstra þessar litlu plöntur.
Skógrækt ríkisins, sem áður og eftir hét Skógræktin, hélt ræktuninni til streitu í öllum landsfjórðungum, á landi sem nú gegnir hlutverki þjóðskóga. Í þjóðskógunum eru nú okkar stærstu og tignarlegustu tré, þar sem mörg vaxa með sama þrótti og þau gera í Skandinavíu.
Áhugi meðal almennings óx og í ungmannafélagsanda voru gróðursettir enn fleiri skógar undir merkjum Skógræktarfélags Íslands. Skógarauðlind Íslendinga var að vaxa úr grasi. Seint á öldinni sem leið hófst skógrækt á bújörðum. Ríkið hvatti bændur til nytjaskógræktar og fjármagnaði að mestu nýskógrækt á þeirra landi. Bændur fengu fyrir vikið uppvaxandi skóg og allar þær nytjar sem af þeim hlutust, skuldlaust.
Nú hefur Landgræðslan, Skógræktin og skógrækt á bújörðum verið sameinuð undir einn hatt, sem heitir Land og skógur. Sú stofnun mun vera þekkingar og rannsóknarbrunnur inn í komandi framtíð. Skógarbændur, sem áður stóðu saman undir flaggi „Landssamtaka skógareigenda“, eru nú vaxandi búgrein innan Bændasamtaka Íslands.
Ávinningur skógræktar er ótvíræður. Hann er raunverulegur. Á Íslandi ræktum við margar álitlegar trjátegundir. Búpeningur nýtur skjóls í boði trjánna. Almenningur nýtur útivistar. Uppskera er tryggari og meiri með skjólbeltum. Og ótal margt fleira.
En tímarnir breytast á meðan skógurinn vex. Meginbyggingarefni trjánna, kolefnið sem fyrirfinnst í andrúmsloftinu, er nú einnig orðið meginfjármögnun nýskógræktar víða um veröld. Sjónarmið nytjanna, landbótanna, skjólsins, viðarins og útivistarinnar er nú komið í önnur sæti.
Er markaður kolefnisbindingar að taka yfir? Hvernig lítur framtíð skógræktar út fyrir næstu kynslóðir Íslands? Sagan segir okkur að þótt ný tegund skógarnytja líti dagsins ljós hverfa þær gömlu ekki þar með. Timburframleiðsla, útivist, jarðvegsvernd o.m.fl. hætta ekki að vera mikilvæg hlutverk skóga þó að kolefnisbinding bætist við.
Kúnstin mun felast í því að láta öll hlutverkin vinna saman á sem hagfelldastan hátt fyrir skógareigendur og samfélagið allt.