Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Verð á mjólkurafurðum er nú um stundir mjög hátt og fátt bendir til þess að það sé á niðurleið skv. skýrslu Rabobank.
Verð á mjólkurafurðum er nú um stundir mjög hátt og fátt bendir til þess að það sé á niðurleið skv. skýrslu Rabobank.
Á faglegum nótum 29. nóvember 2022

Samvinnufélög bænda að gefa eftir á heimsmarkaði

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Hollenski landbúnaðarbankinn Rabobank gefur árlega út lista yfir stærstu afurðafyrirtæki heims í mjólkuriðnaði, byggt á veltu þeirra af sölu mjólkurafurða.

Í fyrra gerðist það í fyrsta skipti síðan listinn hefur verið gerður, sem eru áratugir, að hinu heimsfræga fyrirtæki Nestlé var velt úr toppsætinu af hinu franska Lactalis, sem er fyrirtæki í einkaeigu. Þetta voru hrein stórtíðindi og í ár sýnir uppgjör Rabobank að Lactalis hefur síður en svo slegið af og jók veltuna á milli ára um hvorki meira né minna en 3,7 milljarða bandaríkjadala, eða 545 milljarða íslenskra króna! Á sama tíma jókst velta Nestlé ekki „nema“ um 74 milljarða íslenskra króna.

Kínverska afurðafyrirtækið Yili keypti á árinu hollenska Ausnutria, sem er sérhæft í framleiðslu á mjólkurdufti fyrir ungbörn.

Evrópsku samvinnufélögin að gefa eftir

Samkvæmt listanum frá Rabobank þá virðast stóru evrópsku samvinnufélögin gefa eftir í samkeppninni við hin fyrirtækin. Þannig lækka á listanum bæði hið bandaríska Dairy Farmers of America, hollenska FrieslandCampina, norður evrópska Arla Foods og hið þýska DMK. Á sama tíma halda frönsku fyrirtækin fjögur að stækka á miklum hraða, en auk Lactalis juku bæði Danone, Savencia og Sodiaal veltu sína töluvert mikið milli samanburðartímabila. Þá vekur athygli að Amul, sem er indverskt samvinnufélag með fyrirtækjaheitið Gujarat, heldur áfram að stækka ört og stekkur úr 18. sæti listans í það 13. á einungis einu ári. Amul er þó fyrst og fremst með starfsemi á indverska markaðinum svo áhugavert verður að fylgjast með því á komandi árum.

Skýringin á hægari vexti evrópsku samvinnufélaganna segja skýrsluhöfundar liggja í hinum sterka heimamarkaði sem þau búa við, en evrópski markaðurinn hefur staðið nokkuð í stað undanfarin misseri en þar eru þessi fjögur félög með allra mestu umsvif sín. Þá er útlit fyrir að hollenska Friesland Campina muni falla um einhver sæti á listanum á komandi árum vegna nýrrar stefnu félagsins þar sem það horfir nú fyrst og fremst til kjarnastarfsemi þess í Hollandi og hefur t.d. nýverið selt frá sér vinnslustöðvar í bæði Belgíu og
Þýskalandi. 

Merki Nestlé
Heildarveltan jókst um 9,3%

Þrátt fyrir heimsfaraldurinn náðu 20 stærstu fyrirtækin á markaðinum að auka heildarveltuna umtalsvert, eða um 9,3%. Munar þar vissulega mikið um hraðan vöxt Lactalis en mörg önnur fyrirtæki héldu stöðugum vexti sem vottar um sterka stöðu flestra þeirra eftir erfitt ár þar á undan, en þá varð 0,1% heildarsamdráttur á veltu 20 stærstu afurðafyrirtækjanna í mjólkuriðnaði enda fyrsta árið þegar heimsfaraldur geisaði og mörg fyrirtæki áttu í upphafi erfitt með að aðlaga sölu- og markaðskerfi sín að
breyttum aðstæðum.

Eitt nýtt fyrirtæki á listanum

Einungis eitt nýtt fyrirtæki er á listanum en það er hið breska Froneri. Froneri er sérhæft afurðafyrirtæki í ísgerð og er samstarfsfyrirtæki Nestlé og PAI Partners. Þetta fyrirtæki hefur vaxið mikið á undanförnum árum, sem skýrir að hluta til af hverju Nestlé hefur ekki tekist að halda fyrsta sætinu á listanum enda tók Froneri yfir starfsemi Nestlé innan ísgerðar á heimsvísu. Froneri komst þó í raun einungis inn á listann vegna hvarfs hins bandaríska Kraft Heinz af listanum, sem skýrist af því að ostavinnsla þess fyrirtækis í Bandaríkjunum var seld til Lactalis á árinu.

Fyrir um tveimur áratugum, þegar greinarhöfundur fór að fylgjast nokkuð náið með þessu árlega uppgjöri Rabobank, mátti oft sjá miklar sveiflur á þessum lista og oftar en ekki voru mörg ný fyrirtæki á listanum og þá að sama skapi mörg sem hurfu af honum. Undanfarin ár hefur þessu ekki verið að skipta og nokkuð mikill stöðugleiki verið á meðal stærstu fyrirtækjanna. Þetta sýnir líklega vel að það er ekki auðvelt fyrir ný fyrirtæki að vaxa verulega vegna fyrirferðar annarra á markaðinum.

Það sést líka vel þegar skoðaðar eru upplýsingar um samruna eða uppkaup á fyrirtækjum í afurðavinnslu mjólkur en oftast eru það þá stóru fyrirtækin sem kaupa upp þau smærri. Gott dæmi um það eru framangreind kaup Lactalis núna og í fyrra þegar það keypti Siggi‘s skyr.

Merki Lactalis
Lactalis hvergi hætt

Þó svo að Lactalis hafi keypt ostavinnslu Kraft Heinz í Bandaríkjunum virðist fyrirtækið vera með mjög skýra stefnu varðandi uppkaup og vöxt enda hefur það einnig eignast á árinu smærri afurðafyrirtæki í Ítalíu, Þýskalandi, Úkraínu og Ástralíu. Verður fróðlegt að fylgjast með frekari vexti þess á komandi árum. Annað fyrirtæki hefur einnig verið umsvifamikið í uppkaupum en það er hið kínverska Yili sem jók veltuna um 31,7% á milli ára með uppkaupum á hollenska Ausnutria, sem er sérhæft í vinnslu á mjólkurdufti fyrir ungbörn.
Eftir þessi kaup er Yili að vísu enn í fimmta sæti listans en hefur snarminnkað bilið í næsta fyrirtæki og kæmi ekki á óvart að Yili hefði sætaskipti við eitt eða jafnvel tvö fyrirtæki þegar Rabobank birtir næst lista að ári liðnu.

Afurðir unnar úr plöntum hluti vöruúrvalsins

Undanfarin ár hafa flest afurðafyrirtæki í mjólkuriðnaði fetað sig inn á framleiðslu á vörum sem ekki eru unnar úr mjólk heldur úr plöntuafurðum. Fyrir vikið segja skýrsluhöfundar Rabobank að það sé orðið erfitt í dag að áætla mjólkurtengda veltu fyrirtækjanna á listanum.

Á það er þó bent að aukning í sölu á vörum, sem unnar eru úr plöntum, sé mun minni en aukning í sölu mjólkurafurða og vegi því ekki mjög þungt í ársuppgjöri þessara 20 stærstu fyrirtækja heims í mjólkuriðnaði. Flest þeirra bjóði þó í dag upp á valkosti sem byggja á plöntuafurðum.

Horft í árið 2022

Í lokaorðum skýrslunnar horfa höfundar til ársins í ár, en skýrslan er byggð á veltutölum fyrir árið 2021. Þar telja þeir sig sjá margt bæði gott og síður gott.
Þannig sé verð á afurðum nú um stundir mjög hátt í flestum löndum heimsins og fátt bendi til þess að það sé á niðurleið á árinu. Þá séu flest fyrirtækin með skýra stefnu varðandi umhverfismál og markmið varðandi sótspor, sem gagnist þeim í markaðsmálum. Á móti kemur að stríðið í Úkraínu, ásamt eftirstöðvum heimsfaraldursins, hafi haft mikil áhrif á heimsviðskiptin og verðbólgu ásamt því að gengi á evru gagnvart dollar hafi breyst töluvert undanfarið.

Allt þetta gæti leitt til breytinga á gengi fyrirtækjanna á listanum og eftir því hvernig þau bregðast við ástandinu, þá gæti staða þeirra á uppgjörslista Rabobank breyst töluvert á næsta ári.

Heimild: Rabobank, 2022. Global Dairy Top 20.

Skylt efni: sala mjólkurvara

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...