Sauðburður og COVID-19
Höfundur: Unnsteinn Snorri Snorrason
Útbreiðsla COVID-19 faraldursins hefur haft mikil áhrif á íslenskt samfélag. Það er ánægjulegt að sjá að viðbrögð hér á landi hafa verið árangursrík og nú er svo komið að smitum fer ört fækkandi. Hins vegar er þessu verkefni ekki lokið og mikilvægt að við höldum áfram að fylgja tilmælum frá yfirvöldum.
Sauðfjárbændur eru nú í óða önn að skipuleggja starfið á sauðburði í skugga COVID-19 útbreiðslunnar. Ljóst er að það verður veruleg áskorun að takast á við sauðburð í þessu ástandi og mikilvægt að hver og einn bóndi reyni að undirbúa verkefnið sem best.
Hafið allt tilbúið fyrir sauðburð
Mikilvægt er að viða að sér tímanlega öllum aðföngum þannig að sem minnst þurfi að hafa samskipti út fyrir búið á sauðburði. Sauðburðaraðstaðan þarf að vera tilbúin áður en sauðburðurinn hefst. Rétt er að huga vel að því að hægt sé að viðhafa smitvarnir þegar komið er inn á búið. Til staðar þarf að vera góð aðstaða til handþvotta, sótthreinsunar og aðgengi að einnota hönskum. Hingað til hefur áhersla varðandi smitvarnir snúið að búfjársjúkdómum en sömu lögmál gilda varðandi smitvarnir milli manna.
Að forðast smit
Það er nokkuð misjafnt milli búa hvernig smitvörnum er háttað. Almennt hafa margir bændur nú þegar takmarkað mjög samskipti inn á sín bú og munu verða strangari með það þegar nær dregur sauðburði. Bent er á að á vefsíðu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins er að finna góðar leiðbeiningar til bænda meðal annars varðandi smitvarnir og hugmynd af viðbragsáætlun sem mælt er með að sé til staðar á hverju búi.
Til að lágmarka áhættu eru margir bændur að finna lausnir sem henta hverjum og einum. Sem dæmi um það er að bændur láti auka vinnuafl vera í sjálfskipaðri sóttkví í 1–2 vikur áður en komið er inn á búið og ætla sér síðan að loka fyrir allar heimsóknir inn á búin eftir að auka starfskrafturinn er kominn.
Þá hafa einhverjir bændur skipulagt sig þannig að aðstoðarfólk kemur ekki inn á heimilið á sauðburði. Þannig er starfsmönnum á sauðburði skipt á vaktir og reynt að forðast bein samskipti milli vakta.
Margir sauðfjárbændur sem eiga börn á grunnskólaaldri eða starfa við grunnskólana sjálfir, hafa áhyggjur af því að þeir séu útsettari fyrir smiti og geti þannig borið smit með sér inn á búin. Í einhverjum tilfellum hafa bændur velt upp þeim möguleika að halda börnunum heima. Um slíkar lausnir þarf hver og einn að ræða við sína skólastofnun.
Aðstoðarfólk
Þeir sem eiga eftir að ná sér í vinnuafl á sauðburði geta leitað til búnaðarsambandanna og sett sig í samband við þá aðila sem hafa skráð sig tilbúna til að koma inn á bú til afleysingar þegar upp koma COVID-19 veikindi. Í ljósi þess að lítið hefur þurft að nota þetta úrræði getur verið hægt að nýta þessa aðila. Það er síðan samkomulagsatriði bónda og afleysingafólks hvernig kaupi og kjörum verður háttað. Þar má vísa til viðmiða BÍ varðandi launakjör starfsfólks í landbúnaði.
Þá hefur Vinnumálastofnun úrræði þar sem hægt er að nýta fólk á atvinnuleysisskrá. Um það gilda ákveðnar reglur og er bændum bent á að hafa beint samskipti við Vinnumálastofnun ef þeir vilja nýta sér þetta úrræði.
Hugum vel hvert að öðru
Þetta eru erfiðir tímar eftir harðan vetur. Aukið vinnuálag og óvissa eru óhjákvæmilega fylgifiskur þessa ástands. Við þurfum að huga vel að eigin heilsu og þá ekki síður andlegri líðan. Verum dugleg að heyra í okkar nágrönnum, sérstaklega þeim sem búa einir. Leitum okkur aðstoðar tímanlega, hvort sem það er varðandi eigin líðan en ekki síður við bústörfin. Það er mikilvægt að bændur nýti sér þá aðstoð sem völ er á í sínu baklandi. Leitið til ykkar búnaðarsambanda, Bændasamtaka eða búgreinafélaga með þau vandamál sem upp munu koma og ekki verður við ráðið. Við verðum að takast á við þetta verkefni með samstöðu – þannig náum við árangri.
Unnsteinn Snorri Snorrason