Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Á faglegum nótum 28. nóvember 2018
Sauðfjársæðingar og hrútafundir
Höfundur: Eyþór Einarsson ábyrgðarmaður í sauðfjárrækt, ee@rml.is
Ný hrútaskrá mun brátt líta dagsins ljós. Það rit hefur að geyma upplýsingar um þann hrútaflota sem sæðingastöðvarnar bjóða í vetur. Þar er að finna öflugt lið úrvalshrúta, gamlar hetjur í bland við framtíðar stjörnur. Á stöðvunum verða í vetur 44 hrútar. Af þeim eru 28 hyrndir, 12 kollóttir, 2 feldfjárhrútar og 2 forystuhrútar. Í heildina komu inn 16 nýir hrútar í haust.
Kynbótamat það sem fylgir hrútunum er byggt á nýjustu gögnum fyrir hvern eiginleika. Mat á mjólkurlagni er því byggt á uppgjöri skýrslurhaldsins frá haustinu 2017. Frjósemismatið byggir á niðurstöðum frá því í vor og skrokkgæðamatið er glóðvolgt en það tekur tillit til gagna frá nýliðnu hausti. Þeir stöðvahrútar sem nú standa efstir í kynbótamati fyrir holdfyllingarmat með 123 stig eru þeir Durtur 16-994 frá Hesti og Dúlli 17-813 frá Miðdalsgröf sem er nýr hrútur á stöð. Ef horft er til einkunnar fyrir skrokkgæði, þar sem gerð og fita hafa jafnt vægi eru þrír hrútar sem eru efstir með 117 stig. Það eru Fáfnir 16-995 frá Mýrum 2, Mávur 15-990 frá Mávahlíð og Tvistur 14-988 frá Hríshóli. Fyrir frjósemi dætra stendur Klettur 13-962 frá Borgarfelli á toppnum með 120 stig og fyrir mjólkurlagni er Blær 11-979 frá Kambi/Gróustöðum hæstur með 123 stig. Nánar má skoða þetta í hrútaskrá eða inn í Fjárvís.is.
Hrútaskrá og hrútafundir
Útgáfu hrútaskrár verður að vanda fylgt eftir með hrútafundum búnaðarsambandanna um allt land. Þeir fundir hafa verið fjölsóttir og vonandi verða þeir það áfram. Yfirlit yfir fundina má sjá í meðfylgjandi töflu. Áætlað er að fyrstu fundir verði haldnir miðvikudaginn 21. nóvember. Hvet ég sauðfjárbændur til að gefa ekkert eftir í kynbótastarfinu þótt á móti blási í greininni.
Bændur verði duglegir að prófa
Það er ekki síður áríðandi nú en stundum áður, að framleiðslugripirnir hafi virkilega getu til að skila miklum og verðmætum afurðum. Mælt er með að bændur noti í bland gömlu höfðingja stöðvanna, sem flestir eru mikið reyndir úrvalsgripir og þá nýju spennandi hrúta sem nú hafa bæst við. En mikilvægt er fyrir ræktunarstarfið að bændur séu duglegir að prófa sem flesta af nýju hrútunum þannig að þeir fái sem jafnasta og besta notkun.