Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Speslúði vorið 2020, hugsanlega þrílitur því að örlítið er af rauðgulum/mórauðum hárum, einkum ofan við hægri nös.
Speslúði vorið 2020, hugsanlega þrílitur því að örlítið er af rauðgulum/mórauðum hárum, einkum ofan við hægri nös.
Mynd / Bríet Anja Birgisdóttir
Á faglegum nótum 7. desember 2020

Sjaldgæfur sauðfjárlitur

Höfundur: Dr. Ólafur R. Dýrmundsson

Á bls. 18 í Bændablaðinu 18. júní síðastliðinn  var stutt frétt með mynd undir fyrirsögninni „Lúðóttur hrútur á bænum Sporði“. Sagt var að þetta óvenjulega litalamb héti Speslúði og var talið að þarna væri á ferðinni sami litur og á lúðóttum hrossum með dökkan haus og háls en ljósan skrokk. Þarna er þó sennilega ekki um sambærilegan lit að ræða.

Skrauti í Bæ

Í stuttri grein í Frey í mars 1983 sagði dr. Stefán Aðalsteinsson, heimsþekktur fyrir rannsóknir sínar á litum sauðfjár og fleiri búfjártegunda, frá þrílitum, kollóttum lambhrút á Bæ í Reykhólasveit fæddum vorið 1982 (1). Hann var mjög skrautlegur þar sem saman fór hvítt, svart og mórautt, enda kallaður Skrauti; foreldrar mislitir og ættaður í bæði föður og móðurætt frá Reykhólum. Þetta kemur vel fram á mynd með greininni sem Stefán tók 14. nóvember 1982 og er litarlýsingin mjög  skýr. Í lok greinarinnar segir Stefán að hrúturinn hafi verið notaður  á fengitíma 1982 fyrir mórauðar og móflekkóttar ær til að kanna litaerfðirnar. Niðurstöður þeirrar rannsóknar fékk Stefán síðan birtar í ritrýndri grein, ásamt myndinni sem var í Frey, í virtu vísindariti (2).

 Í sem stystu máli sagt taldi Stefán að um mósaík litaafbrigði væri að ræða sem mætti rekja til stökkbreytts erfðavísis. Ég veit ekki til þess að þetta fyrirbrigði hafi verið rannsakað frekar hérlendis.

Skrauti í Bandaríkjunum

Haustið 1990, fyrir réttum 30 árum, flutti Stefanía Sveinbjarnardóttir Dignum í Kanada fé þangað úr Öræfasveit, en það myndaði stofn íslensks fjár í NorðurAmeríku. Í tímariti ISBONA, ræktenda íslenska sauðfjárins í Bandaríkjunum og Kanada, birtist sumarið 2012 grein eftir Laurie BallGisch um hyrndan lambhrút undan móbotnóttri á og hvítum hrút í eigu hennar sem sýndi a.m.k. þrjá liti; hvítt, svart og mórautt og jafnvel líka grátt (3).  Laurie hafði lesið grein Stefáns sem ég vísaði í hér að framan (2) og taldi að þarna væri einnig um mósaík litafbrigði að ræða þótt litamynstrið á lambinu væri töluvert frábrugðið því sem prýddi Skrauta í Bæ. Til heiðurs honum var sá bandaríski líka nefndur Skrauti enda gullfallegur af myndum í ritinu að dæma. Fékk ég leyfi til að nota litmyndina af honum, sem var á baksíðu ISBONAritsins 2012, í grein sem ég skrifaði í minningu Stefáns og birt var í bók um mislitt sauðfé í heiminum vorið 2014 (4). Reyndar var öll sú bók tileinkuð minningu Stefáns en hann lést 2009. 

Einn þeirra sem kynnst hafði Stefáni og unnið nokkuð að litarannsóknum á búfé með honum  var dr. Phillip Sponenberg. Phillip hefur verið þekktasti Bandaríkjamaðurinn á því sviði um áratuga skeið og hefur m.a. skrifað mikið um búfjárkyn í útrýmingarhættu (5). Laurie leitaði álits hans á Skrauta sínum og birti það í greininni. Phillip taldi líklegt, eins og Stefán, að um mósaík litaafbrigði tengt stökkbreytingu væri að ræða, sambærilegt bröndóttum lit kúa og fleiri dýrategunda. Einnig gæti hugsanlega verið um að ræða  svokallað chimera fyrirbrigði þar sem fósturvísar hefðu sameinast. Rétt er að geta þess ég átti  þátt í því að fá Phillip til að flytja erindi hér á landi um verndun erfðaefnis búfjár haustið 2014, bæði á alþjóðlegri sauðfjár og ullarráðstefnu á Blönduósi og í Norræna húsinu í Reykjavík.

Bröndótti hesturinn 

Áður en lengra er haldið er vert að geta þess að sama árið og Skrauti í Bæ fæddist var Stefán m.a. að skoða bröndótta litinn og erfðir hans. Hann hafði frétt af uppstoppuðum bröndóttum hesti á Náttúrugripasafninu í Leningrad, þá í Sovétríkjunum ( nú Sankti Pétursborg), þeim eina í heiminum þannig litum, eftir því sem best var vitað. Þegar við vorum staddir þar á ráðstefnu Búfjárræktarsambands Evrópu um miðjan ágúst 1982 bað Stefán mig að koma með sér á safnið. Það var mjög minnisstæð heimsókn því að eftir nokkra leit, en þarna var mjög þröngt um alla safnmuni, fundum við bröndótta hestinn, stóran og stæðilegan fyrrverandi námuhest. Safnvörður leyfði myndatöku eftir að við höfðum gert grein fyrir vísindalegum áhuga okkar. Stefán skrifaði lýsingu í litla minnisbók, tók myndir og í a.m.k. einu skotinu lét hann mig standa fast við glerbúrið sem mælikvarða á stærð hestsins. Ég samgladdist Stefáni innilega og við nutum þess að skoða safnið. Trúlega hefur honum verið hugsað til bröndótta hestsins þegar hann skoðað Skrauta í Bæ um haustið.

Speslúði haustið 2020, óljóst hvort hann er tví- eða þrílitur. Sjaldgæft litamynstur. Mynd / Oddný Jósefsdóttir

Speslúði á  Sporði

Svo sem um var getið í upphafi greinarinnar fæddist kollótt hrútlamb með sérkennilegan lit á Sporði í Húnaþingi vestra í vor og hlaut nafnið Speslúði. Þegar ég sá myndina af honum í Bændablaðinu 18. júní fór ég að hugsa um Skrauta í Bæ sem Stefán rannsakaði  fyrir nær 40 árum og Skrauta í Bandaríkjunum sem fæddur var fyrir tæpum áratug og einnig var fjallað um hér að framan.  

Þau Oddný Jósefsdóttir og Þorbjörn Ágústsson, bændur á Sporði, brugðust vel við í sumar þegar ég óskaði eftir nánari upplýsingum um Speslúða, gjarnan með mynd af honum að hausti ef hægt væri að koma því við.  Myndirnar komu strax eftir réttir. Skemmst er frá að segja að foreldrar Speslúða eru hvítir, móðir frá Árbæ í Reykhólasveit og faðir af Ströndum. Hann var tvílembingur á móti hvítu lambi, reyndist ágætlega vænn í haust en sagður fremur styggur. Með fylgja þrjár myndir af Speslúða, annars vegar mynd tekin í vor, nokkuð greinilegri en sú sem birtist í Bændablaðinu þá, og hins vegar tvær haustmyndir af honum. 

Frá mínum sjónarhóli séð leyfi ég mér að setja fram þá tilgátu að um sé að ræða litarafbrigði á Speslúða sem gæti flokkast með þeim sem einkenndu Skrautana báða og fjallað var um hér að framan, annaðhvort mósaík eða chimera. Ég tel ólíklegt að þessi litur sé sambærilegur þeim lúðótta á hrossum.

Mikið litaskrúð

Hvað sem líður tilgátu minni um litinn á Speslúða vil ég taka undir það álit Laurie í greininni frá 2012, að svo mikið er litaskrúðið íslenska fjárins, að í þessu eina og sama fjárkyni er hægt að finna alla sauðfjárliti og afbrigði þeirra. Nú á tímum mikilla umræðna um líffræðilegan fjölbreytileika þurfum við að gæta þess vel að varðveita m.a. þá erfðaauðlind sem felst í litunum. Erfðaauðlindir af ýmsu tagi eru reyndar margar í öllum gömlu íslensku búfjárkynjunum sem við kölluð gjarnan landnámskyn. Jafnframt er um menningarverðmæti að ræða.

Tilvísanir

Stefán Aðalsteinsson (1983). Þrílitur lambhrútur. Freyr, 79. árg., 5.tbl., bls. 197.

Stefán Aðalsteinsson (1984).  A blackmoorit mosaiccolored Icelandic ram. The Journal of Heredity, 75, bls. 8384.

Laurie BallGisch (2012). BlackMoorit „Mosaic Ram born March 2011 at The Lavender Fleece. ISBONA NEWSLETTER, Icelandic Sheep Breeders of North America. Summer 2012, Volume 16, Issue 3, bls. 5,7 og  36.

Ólafur R. Dýrmundsson (2014). The colourful sheep of Iceland. Bls. 1823 í bókinni Timeless Coloured Sheep, 272 bls., ritstj. Dawie du Toit, útg. Imhof Verlag, Þýskalandi, ISBN 9783865689603.

D. Phillip Sponenberg, Jeannette Beranger &  Alison Martin,The Livestock Conservancy (2014).  An Introduction to Heritage Breeds, 240 bls. , útg. Storey Publishing, Bandaríkjunum, ISBN 9781612121253.

Dr. Ólafur R. Dýrmundssson. 

Höfundur, er sjálfstætt starfandi búvísindamaður og m.a.  félagi í Slow Food, Rare Breeds International og Búfjárræktarsambandi Evrópu sem vinna að verndun erfðaefnis  á alþjóðlegum grundvelli.

Netfang: oldyrm@gmail.com

Skylt efni: sauðfjárlitir

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...