Skoðanakannanir og haustfundir
Það eru ýmis verkefni fram undan hjá búgreinadeild nautgripabænda þetta haustið, líkt og önnur haust.
Á næstu vikum verða tvær skoðanakannanir settar í loftið, önnur fyrir mjólkurframleiðendur og hin fyrir nautakjötsframleiðendur. Þeir bændur sem stunda bæði mjólkur- og nautakjötsframleiðslu eru beðnir um að svara báðum könnunum en tilgangur þeirra er að gefa stjórn og starfsfólki NautBÍ betri innsýn í stöðu greinarinnar.
Sömuleiðis koma niðurstöðurnar til með að vera leiðbeinandi fyrir starfs- og stjórnarfólk samtakanna í fyrstu skrefum endurskoðunar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar, samhliða ályktunum búgreinaþings.
Hvetjum við því nautgripabændur til þess að taka þátt og svara eftir bestu getu en nánari upplýsingar um kannanirnar verða birtar á vef okkar, www.bondi.is/naut.
Þann 14. október standa Bændasamtökin fyrir málþingi sem ber titilinn „Græn framtíð“ og fjallar um áskoranir og framtíðarverkefnin í landbúnaði á Íslandi. Málþingið verður haldið á degi landbúnaðarins á Hótel Nordica en síðar sama dag opnar Landbúnaðarsýningin í Laugardalshöll. Bændasamtökin bjóða félagsmönnum sínum á sýninguna. Hvetjum við öll, fagfólk og áhugafólk um landbúnað, til að kíkja á sýninguna og taka spjallið við stjórnir og starfsfólk samtakanna en okkur má finna í sameiginlegum bás BÍ og RML, bás b14.
Haustfundir búgreinadeildar nautgripabænda BÍ eru fram undan en þeir verða með örlítið breyttu sniði þetta árið. Í stað þessa að fara yfir öll málefni nautgripabænda á landsvæðaskiptum fundum ætlum við að halda stærri fundi (fyrir allt landið) með afmarkaðra efni.
Haldnir verða a.m.k. tveir fundir með mismunandi áherslum, á fyrri fundinum förum við yfir stöðuna í mjólkurframleiðslunni, störf verðlagsnefndar og endurskoðun á verðlagsgrundvellinum. Á þeim fundi verður sömuleiðis farið yfir fyrirkomulag kvótamarkaða og jafnvægisverð. Á seinni fundinum verður farið yfir niðurstöður skoðanakannananna og rætt um hvaða stefnu bændur vilja taka í endurskoðun búvörusamninganna. Fundirnir fara fram í gegnum Teams og verða nánari upplýsingar um fundina birtar á vef okkar.