Skýrsluhald í jarðrækt í Jörð.is
Höfundur: Borgar Páll Bragason
Eins og áður hefur komið fram er nú í fyrsta skipti gerð sú krafa að bændur skili skýrsluhaldi í jarðrækt til að fá jarðræktarstyrki. Þá er það einnig nýtt fyrir bændum að greiddir eru styrkir vegna þeirra túna sem eru uppskorin. Í stuttu máli sagt þurfa bændur að skrá eða fá RML til að skrá upplýsingar um ræktun og uppskeru í Jörð.is og skila skýrsluhaldinu í kjölfarið. Þá fyrst geta þeir sótt um jarðræktarstyrki og landgreiðslur í Bændatorginu.
Umsóknarfrestur um jarðræktarstyrki og landgreiðslur er 20. október samkvæmt reglugerð og því þurfa bændur að hafa skilað skýrsluhaldi í jarðrækt fyrir þann tíma. Mikilvægt er að hafa í huga að allar spildur þurfa að vera hnitsettar til að komast á jarðræktarskýrslu.
RML tekur að sér að skrá skýrsluhaldið fyrir þá sem þess óska og aðstoða við þá skráningu eftir því sem þarf. Innheimt er fyrir þá þjónustu samkvæmt tímaskráningu og gildandi gjaldskrá. Þeir sem óska eftir þjónustu RML í þessum efnum ættu að huga að því fyrr en seinna svo raunhæft verði að sækja um jarðræktarstyrki og landgreiðslur innan tilsetts tíma.