Starfsemi RML - Þriðji hluti
Í þessum þriðja hluta greina um starfsemi RML mun ég gera rekstrar- og umhverfissviði skil.
Fagsviðið er annað tveggja fagsviða RML, en eins og kom fram í síðustu grein þá er það einungis til hagræðingar stjórnunarlega séð, verkefnin eru iðulega unnin þvert á svið.
Á rekstrar- og umhverfissviði snúa stærstu verkefnin að margvíslegum sviðum landbúnaðar sem tengjast landinu og rekstrarumhverfi búsins. Þar má nefna jarðrækt, garðyrkju, loftslagsmál, landnýtingu hvers konar, fóðrun, skipulagsmál, bútækni, rekstur og umhverfismál.
Rekstrarráðgjöf RML byggir á áætlanagerð vegna jarðakaupa, framkvæmda, og ættliðaskipta. Á hverju ári eru gerðar á þriðja hundrað áætlana sem nýtast til að mynda inn í fjármálastofnanir eða vegna umsókna um verkefnastyrki eða fjárfestingarstuðning. Þessi vinna byggir á þeirri víðtæku þekkingu og reynslu á landbúnaði sem ráðunautar RML búa yfir.
Frá árinu 2016 hefur starfsfólk RML unnið að verkefnum tengdum afkomu bænda, fyrst í sauðfjárrækt en nú einnig í mjólkurframleiðslu og nautakjötseldi og sambærilegt verkefni í garðyrkju er að hefjast. Verkefnin byggja á bókhaldsgögnum bænda og gefa því góða mynd af stöðu einstakra búa en einnig verður til rekstrargrunnur sem nýtist við afkomuvöktun og hagsmunagæslu fyrir viðkomandi búgrein. Verkefnin hafa margsannað gildi sitt varðandi upplýsingagjöf vegna stöðu einstaka greinar en ekki síður til þess að bæta rekstrarvitund bænda. Verkefnin hafa verið rekin af RML með styrk frá þróunarsjóðum viðkomandi greina fyrir utan sauðfjárræktina en á síðasta ári var gert samkomulag um rekstur verkefnisins til þriggja ára við matvælaráðueytið. Sífellt er leitað eftir því að fá fleiri bændur til þess að taka þátt. Ég hvet því áhugasama um þátttöku til að hafa samband við RML eða skrá sig á rml@rml.is
Áherslur stjórnvalda í loftslagsmálum og alþjóðlegar skuldbindingar gera þær kröfur til landbúnaðarins að losun minnki á næstu árum en ekki er gert ráð fyrir minnkun framleiðslu. Einstaka búgreinar hafa sett sér markmið um kolefnishlutleysi.
Til að þessum markmiðum verði náð þarf að vinna markvisst að bættri skráningu, auka þekkingu og setja upp aðgerðaráætlanir sem byggja á aðstæðum hvers bús. Á síðustu árum hefur markvisst verið unnið að þekkingaröflun innan RML á þessum málaflokki. Í dag rekur RML í samvinnu við Landgræðsluna og Skógræktina verkefnið Loftslagsvænan landbúnað. Verkefnið hófst árið 2020 í sauðfjárrækt en 2021 komu nautgripabændur einnig inn. Markmiðið með Loftslagsvænum landbúnaði er að þátttakendur fái heildstæða ráðgjöf og fræðslu um það hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og vegna landnýtingar og vinna að þeim markmiðum með áætlanagerð og eftirfylgni með henni. Fyrir liggur að stækka þarf verkefnið verulega eða sambærilegt ráðgjafarverkefni til allra búgreina eigi markmið um losun að nást.
Jarðræktarráðgjöfin snýst að mestu um áburðarráðgjöf/áætlanir og greiningu á fóðuröflunarkostnaði en einnig skipulag endurræktunar og jarðvinnslu, val á tækjum, tegundum og yrkjum og jarðvinnslutækni. Ráðgjöfin byggir á einstaklingsráðgjöf en í nokkur ár hefur verið boðið upp á verkefnið Sprotann.
Í Sprotanum er boðið upp á heildstæða jarðræktarráðgjöf og hefur þátttaka vaxið jafnt og þétt í gegnum árin en nánar má sjá HÉR
Undirstaða jarðræktarráðgjafar og hvers konar áætlanagerðar í jarðrækt er í gegnum Jörð.is sem er forrit í eigu Bændasamtakanna en RML rekur og hefur umsjón með. Á þessu ári var gerður samningur á milli RML og matvælaráðuneytisins um eflingu jarðræktarráðgjafar. Markmið verkefnis er að hvetja til aukinnar sýnatöku á jaðvegi, heyi og búfjáráburði ásamt því að auka verulega áburðaráætlanagerð.
Við höfum einnig verið að styrkja ráðgjöf í jarðrækt á grundvelli þessa samnings með því að ráða inn starfsfólk til að sinna verkefnum á sviðið jarðræktar, ásamt því að innleiða nýja aðferðarfræði við ráðgjöf í samstarfi við finnska sérfræðinga. Garðyrkjan hefur í mörg ár flutt inn erlenda ráðunauta en ráðunautar RML eru umsjónarmenn verkefnisins ásamt því að fylgja erlendu ráðunautunum í heimsóknir til bænda. Ráðunautar í ylrækt, blómarækt og útiræktun koma hér á hverju ári til að styrkja ráðgjöfina en mikla sérhæfingu þarf innan hverrar greinar garðyrkjunnar sem erfitt yrði að manna hér á landi. En með þessu hefur byggst upp sérfræðiþekking hjá starfsfólki RML sem nýtist við ráðgjöf til garðyrkjunnar.
Á rekstrar- og umhverfissviði eru einnig fleiri verkefni unnin en hér eru upptalin í stuttri grein en upplýsingar um ráðgjöf má sjá á heimasíðu okkar, www.rml.is, ásamt því að ráðunautar RML eru ávallt til viðtals hvort sem um er að ræða í gegnum síma eða á starfsstöðvum RML.