Súla
Drottning Atlantshafsins, eða súla eins og hún heitir. Hún er stærsti sjófugl Evrópu, næstum því alhvít fyrir utan gulleitt höfuð og svarta vængenda. Súlur hafa langa, oddmjóa vængi með 160–180 cm vænghaf og eru auðþekkjanlegar á flugi á djúpum vængjatökum.
Þær eru félagslyndar og sjást oft saman í hópum. Eitt þekktasta atferli súlunnar er veiðiaðferðin hennar sem kallast súlukast. Það getur verið mjög tilkomumikil sjón þegar hópur af súlum hefur fundið mikið æti í sjónum. Þá stinga þær sér hvað eftir annað lóðrétt niður úr allt að því 40 metra hæð eftir fiskum sem þær hafa séð úr lofti. Súlan telst farfugl en fer frá landinu aðeins í stuttan tíma, frá október fram í desember. Þær eru trygglyndar við bæði maka og varpsetur. Súlan verpir einungis einu eggi ár hvert og tekur útungun um sex vikur. Þá tekur við ungatími í um þrjá mánuði, eða þangað til unginn yfirgefur hreiðrið síðsumars. Súlur verpa í þéttum byggðum en einungis eru fimm slíkar byggðir þekktar hér við land. Af þeim er Eldey stærsta og sennilega þekktasta súlubyggðin með um 15.000 setur.