Suzuki Alto kostar lítið og er ódýr í rekstri
Margir foreldrar hjálpa börnunum sínum að kaupa bíl þegar þau eru nýlega komin með bílpróf. Ófáir hafa keypt notaðan bíl sem kostar lítið og innan árs er viðgerðarkostnaður orðinn ógnarhár og jafnvel margfalt verð bílsins. Annað ráð er að kaupa nýjan bíl og því kannaði ég á vefmiðlum hvaða bíl væri hagkvæmast að festa kaup á. Eftir nokkra skoðun sá ég að Suzuki Alto væri einn ódýrasti bíllinn á markaðnum. Ég brá mér því í Suzuki-bíla í Skeifunni og fékk að taka smá hring á bílnum.
Hátt undir bílinn miðað við marga aðra bíla svipaða
Í innanbæjarakstri með mig einan innanborðs vantaði ekkert upp á kraftinn í 996cc bensínvélinni. Það var ávallt nægur kraftur og tog til að halda umferðarhraða. Þegar komið var út á veg þar sem hámarkshraðinn var 90 km viðurkenni ég vissulega að ég hef keyrt bíl sem er sneggri að ná umferðarhraða, en aldrei var ég fyrir neinum á þessum stutta kafla sem ég ók á Keflavíkurveginum. Rétt hjá álverinu í Straumsvík prófa ég flesta bíla sem ég prufukeyri á stuttum malarkafla. Það kom mér á óvart hversu lítið malarvegahljóð heyrðist inni í bílnum miðað við marga aðra bíla af svipaðri stærð. Einnig kom það mér á óvart hversu hátt var undir lægsta punkt á bílnum.
Bara skráður fyrir fjóra, en ekki of stóra
Farangursrýmið er ekki mikið og ef einhver er að hugsa um að nota svona bíl til að fara í golf verður að leggja sætin niður til að koma golfsettinu fyrir. Plássið í farangursrýminu er ekki mikið. Að sitja í framsætunum er mjög gott og fannst mér ótrúlega mikið rými þar fyrir ökumann, það mikið að ég fékk félaga minn sem er vel yfir tveir metrar til að máta undir stýri. Mér til furðu virtist vera ágætis pláss fyrir hann í framsætunum, en í aftursætið þurfti hann að böggla sér inn og sagði að honum fyndist eins og að hann væri í spennitreyju! Hins vegar þegar hann sat í aftursætinu fékk ég þennan fína olnbogapúða sem var hnéð á honum sem kom fram á milli framsætanna.
Mæli hiklaust með Suzuki Alto fyrir byrjendur í umferð
Eitt sem ég hjó eftir var að bíllinn kemur á 14“ álfelgum og á dekkjum sem eru mjög ódýr þannig að ekki ætti að kosta mikið að splæsa í vetrardekk undir bílinn. Það eina sem ég set persónulega út á bílinn er að baksýnisspegillinn mætti vera minni og hliðarspeglar stærri. Samkvæmt bæklingi frá Suzuki á meðaleyðsla á bílnum að vera 4,3 lítrar á hundraðið, en ég gæti vel trúað að svona bíll sé að eyða á Íslandi nálægt 5,5 á hundraðið (þekki mann sem átti svona sjálfskiptan bíl sem eyddi að meðaltali 6,2 að hans sögn). Klárlega einhver besti bíll sem byrjandi í umferðinni ætti að skoða áður en farið er að kaupa notaðan bíl sem hugsanlega á stutt í mikið viðhald og bilanir.