Sveitin í sálinni
Samhliða því sem íbúðarhverfi byggðust upp í Reykjavík mátti sjá þar mjólkurkýr, sauðfé, hesta, svín, hænur og garðlönd því skepnuhald og matjurtaræktun var talsverð í bæjarlandinu. Steinsteypa og malbik höfðu að lokum betur og landbúnaðurinn lét undan.
Í bókinni Sveitin í sálinni fjallar Eggert Þór Bernharðsson, sagnfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, um búskap í Reykjavík á árunum 1930 til 1970 og þróun bæjar í borg. Í bókinni eru 555 myndir, en Eggert segir að í sínum huga séu ljósmyndir ekki síðri heimildir en skráður texti. Forlagið gefur bókina út.
Sveitin fyrirferðarmikil í Reykjavík
„Áhugi minn á þessum hluta Reykjavíkursögunnar vaknaði þegar ég var að skrifa hluta verks um sögu Reykjavíkur og var gefin út í tilefni af 200 ára afmæli borgarinnar. Mitt viðfangsefni í sögunni var 1940 til 1990 eða nútímasagan. Þegar ég var að vinna það efni sá ég fljótlega hvað sveitin í víðum skilningi var fyrirferðarmikil í Reykjavík og það ekki bara í hinu jarðfasta heldur líka í huga fólks.
Reykjavík er að stórum hluta byggð af fólki sem flytur til bæjarins og margir tóku búskapinn að hluta með sér. Skepnuhaldið og ræktunin var að sjálfsögðu öll minni í sniðum, en auk þess voru bændur í Reykjavík frá eldri tíð.
Margt af aðkomufólkinu var með sauðfé, flestir með örfáar kindur en aðrir stórtækari, og það var ríkt í fólki að rækta kartöflur og matjurtir og tengslin við moldina sterk. Hugmyndir um skólagarða eiga uppruna sinn á þessum tíma og að börn sem ekki komust í sveit þyrftu að ná tengslum við landið með því að læra að rækta þar.“
Eggert segist vera eitt af þeim börnum sem var í skólagörðunum í nokkur sumur en hann fór aldrei í sveit.
„Á þessum árum ræktaði fólk mikið heima við hús auk þess sem Reykjavíkurbær skipulagði smá og allt upp í risastór garðahverfi.“
Efnismikið viðfangsefni
Bókin Sveitin í sálinni er á vissan hátt systurbók bókarinnar Undir bárujárnsboga sem Eggert gaf út fyrir nokkrum árum og fjallar um braggalíf í Reykjavík á árunum 1940 til 1970.
Að sögn Eggerts varð viðfangsefnið í nýju bókinni stærra og umfangsmeira og mun efnismeira en hann gerði sér grein fyrir í upphafi.
Sauðfjárstríð í Reykjavík
„Búskapurinn sem ég fjalla um er að mestu hættur um 1970 og horfinn í dag. Segja má að Fjárborg ofan Almannadals sé leifar frá þessum tíma. Fyrsta Fjárborg var reist rétt ofan við Blesugróf, á svipuðum slóðum og fyrirtækið Tengi stendur í dag, árið 1959 en rifin eftir mikil átök og hálfgert sauðfjárstríð í Reykjavík á sjöunda áratugnum sem endar með að farið er að byggja nýtt fjárhúsasvæði á Hólmsheiði 1970.“
Garðahverfi og sumarbústaðir voru víða
„Eftir að ræktun í garðahverfunum er hætt rís sums staðar byggð en önnur, eins og Laugardalurinn og Klambratúnið, eru almenningsgarðar í dag. Laugardalurinn er gott dæmi um svæði þar sem voru fjölmörg býli og búskapur og hinir svokölluðu Norðurmýrarblettir, m.a. Klambratún í dag, var mjög stórt svæði sem teygðu sig alla leið þangað sem Menntaskólinn við Hamrahlíð stendur í dag. Af öðrum stórum ræktunarsvæðum má nefna Sogamýrar- og Kringlumýrarblettina.
Á sjötta áratugnum var skipulagt ræktunarsvæði í Árbænum. Rauðavatnsgarðarnir voru þar sem er Efri Hraunbær í dag, svo var svæði sem var kallað Rauðavatnslönd og þar voru sumarbústaðalönd margra Reykvíkinga. Einnig voru sumarbústaðir í Laugardalnum og fólk fór þangað til að komast úr bænum. Árið 1959 komu upp hugmyndir um að hafa sumarbústaðabyggð Reykvíkinga þar sem nú standa m.a. Ölgerð Egils Skallagrímssonar og Mjólkursamsalan.“
Reykjavík 1930 til 1970
Sveitin í sálinni skiptist í fimm meginkafla þar sem meðal annars er fjallað um átthagafélögin sem voru fyrirferðarmikil í Reykjavík um og upp úr miðri 20. öld. Börn sem fæddust inn í hið nýja þjóðfélag þéttbýlisins sem enn var í mótun og slitu þar barnsskónum. Léku sér „á götunni“ en kynntust einnig háttum eldri tímans. Gerð er grein fyrir nýtingu bæjarlandsins, erfðafestublettum og skilmálum þeirra, uppbyggingu íbúðarhverfa, dreifingu byggðarinnar og ástæðum hennar. Þúsundir íbúa komu við sögu matjurtaræktunar á skipulögðum garðasvæðum og í skólagörðum. Áratugum saman settu þessir matjurtagarðar sterkan svip á bæjarlandið. Í fimmta og síðasta meginhluta er fjallað um búpening og búfjárhald. Þar ráða einkum ferðinni dýr sem fylgt höfðu landsmönnum óslitið frá landnámstíð, kindur, kýr og hestar. Auk þess sem svín og hænur koma við sögu.
Kindur í bílskúrnum
„Garðahverfin eiga sér að hluta til rætur í kreppunni á fjórða áratugnum og þeirri viðleitni að leita leiða til að fólk geti bjargað sér. Skipulagning sumra garðanna er beinlínis aðgerð til að vinna gegn kreppunni eins og þegar Kringlumýrargarðarnir voru teknir í notkun. Á kreppuárunum voru garðarnir sem fólk fékk til umráða allt að 1.000 fermetrar að stærð og því stórir. Á árum síðari heimsstyrjaldar var meira og minna hætt með svo stóra garða.
Að vera með kindur var líka mikið búsílag fyrir fólk og allur gangur á hvar þær voru haldnar. Sumir voru með þær í fjárhúsum, aðrir í litlum kofum og sumir hreinlega með þær í bílskúrnum. Hesthús voru líka vítt og breitt um bæinn enda hesturinn lengi þarfasti þjónninn. Kýr voru fjölmargar í bænum á fyrstu áratugum 20. aldar og flestar voru á vegum Reykjavíkurbænda. Minna var um svín og alifugla enda ekki hefð á þeim tíma fyrir að halda slík dýr,“ segir Eggert.