Það styttist í sauðburðinn
Það er að mörgu að hyggja þegar nálgast fer sauðburð og getur verið gott að setjast niður með kaffibollann og hugsa hvað það nú var í fyrra sem algjörlega vantaði.
Er heitt vatn í húsunum? Og hitakúturinn í lagi?
Innkaup og undirbúningur
Ýmis tæki, tól og búnaður sem gott er að hafa við höndina þegar sauðburður hefst því erfitt getur verið á miðjum háannatíma að ætla sér að safna aðföngum sem vantar.
- Eitt það einfaldasta og þægilegasta er að hafa ávallt burðargel við hönd þegar aðstoða á við burð. Það hjálpar okkur að athafna okkur og er einnig betra fyrir ána. Hugum að því að hafa nægilegt magn af burðargeli til fyrir sauðburðinn og spörum ekki notkun á því.
- Einnota hanskar eru nauðsynlegir. Margir bændur kannast við þurrar og sprungnar hendur eftir mikið legvatn og aukna handþvotta. Þá er gott að smeygja sér í hanska. Einnig eykur það hreinlæti og getur komið í veg fyrir sýkingar. Þá eru bæði til stuttir hanskar og lengri sem ná upp á handlegg og verja mann enn betur.
- Stífur vír eða burðartöng til að koma inn fyrir grind og aftur fyrir hnakka eða eyru lambsins ef aðstoða þarf við að koma lambinu út. Vír er auðvelt að þvo og sótthreinsa eftir hverja notkun. Einnig er hægt að nota sérstök bönd sem eru mjúk og sveigjanleg og auðvelt að smokra inn fyrir ef ærin er þröng, þá ríður á að vera ekki sparsamur á burðargelið. Mýkja band og eða vír með burðargeli áður en inn er farið. Gott er að sjóða böndin reglulega og sótthreinsa eftir notkun. Baggabönd geta nýst til nettari aðstoðar og verka.
- Sprauta með stuttri slöngu, hæfilega stífri en sveigjanlegri til að koma burðargeli inn fyrir þegar lambið er orðið mjög þurrt og lítið legvatn er til staðar.
- Hreint og þurrt handklæði í hæfilegri stærð til að vefja utan um lambið eða til að ná betri gripi á bjórnum á herðakambi þegar erfitt er að toga lambið út. Til dæmis þegar afturfótafæðing á sér stað eða það er einfaldlega erfitt að ná taki á lambinu.
Þannig verður auðveldara að taka á lambinu á skaðlausan hátt. - Gott er að hafa einhvers staðar nærri einhvers konar upphækkun ef þurfa þykir fyrir ána til að hækka hana að aftan. Það getur verið ákaflega gagnlegt þegar ærin er mjög þröng og eða lambið er komið of langt í fæðingarveginn. Þá getur einnig verið gott að setja ána upp á garðaband á plötu eða grind og þannig hækka hana í vinnuhæð og þá er auðveldara að athafna sig við erfiðan burð og aðstoða þarf af kostgæfni.
- Stór sprauta og sonduslanga til að gefa minni og veikari lömbum mjólk beint í magann. Einnig nægilegt magn af túttum og peli.
- Lítill kollur getur verið þægilegur þegar mjólka þarf ær eða koma lömbum á spena. Hægt er að saga lappir af klassískum kollum og þannig þarf maður ekki stöðugt að krjúpa eða sitja á gólfinu, þá getur maður einnig notað fæturna til að halda að ánni meðan maður athafnar sig við ána.
- Kassi/hús fyrir undirvaninga. Gott er að láta lömbin liggja þétt saman sé verið að venja undir og þannig er líka komið í veg fyrir að ærin geti snuðrað og þefað af lömbunum í tíma og ótíma. Þannig blandast lyktin saman og ærin ætti að taka lömbin fyrr. Þá er lítill kassi sem þeim er komið fyrir í fyrirtaks kostur, hugsa þarf um að hann lofti vel og lömbin dvelji ekki of lengi í einu.
- Lambastrætó. Hvernig flytjum við lömbin til þegar ærin er borin og er á leið í einstaklingsstíu? Um að gera að finna þægilegan „strætó/taxa“ fyrir lömbin sem hægt er að koma þeim fyrir í og draga á sinn stað, þá þarf maður ekki að bogra með lömbin. Athugið að lömbin geti ekki klifrað upp úr honum á leiðinni, svo hann þarf að vera dálitið hár en samt þarf ærin að geta fylgst vel með svo hún fylgi vel á eftir.
- Hvaða lyf þurfa að vera tiltæk fyrir sauðburð? Hvað vantaði helst að eiga í fyrra? Klassískt er að hafa í lyfjaskápnum: sýklalyf af þeim sortum sem þarf, verkjastillandi, selen, þar til gerðan brodd fyrir minni fædd og viðkvæmari lömb. Spenateip ef friða þarf spena einhverra hluta vegna. Joðlausn í góðum brúsa á naflastreng og ab-mjólk fyrir ónæmiskerfið. Gott að huga að því hvernig skal gefa ab-mjólkina inn þannig að það sé bæði fljótlegt og þægilegt.
- Fyrir utanumhaldið um allt sem þarf að hafa nálægt er gott að setja það allt saman í kassa eða körfu/tösku sem auðvelt er að taka með sér um húsin. Þá er handhægara að leggja hluti frá sér og vinna með.
- Einnig þarf að eiga nægt magn af sprautum og nálum fyrir stungulyf. Þetta geymist milli ára og allt í lagi að eiga meira en minna.
- Lítil stíf blöð í mörgum litum og teiknibólur. Gott getur verið að skilja eftir skilaboð á garðabandi þar sem hægt er að skrá ákveðnar upplýsingar um einstaklinga. Þannig er hægt að litarflokka eftir því hve áríðandi skilaboðin eru.
- Tússtafla og tússar sem hengja má upp þar sem allir geta séð og þar er einnig hægt að skilja eftir mikilvæg skilaboð sem þarf að skrá eða koma á framfæri.
Eftirlitið
Hvernig á eftirliti að vera háttað þetta árið? Ef skoða á að setja upp þar til gert myndavélarkerfi þarf að huga að því í tíma.
Athuga hvaða framboð er af vefmyndavélum og hvað hverjum og einum hugnast í þeim efnum. Myndavélakerfi koma að ákaflega góðum notum í upphafi sauðburðar og lok. Þá er ekki endilega full viðvera í húsunum og gott getur verið að spara sér ferðina í húsin og kíkja á myndavélarnar til að athuga hvort eitthvað sé um að vera. Þannig er líka hægt að láta vélarnar taka upp það sem gerist í fjárhúsunum og þannig hægt að varpa ljósi á annars dularfullar aðstæður sem gætu komið upp. Staðsetning vélanna þarf að vera á þann hátt að hægt sé að sjá sem stærstan hluta af húsunum, jafnvel er hægt að snúa sumum vélum og þysja að til að sjá betur hvort lamb ber rétt að.
Um að gera að prufakeyra kerfið og vera með það tilbúið þegar fyrstu ærnar bera til að auðvelda sér fyrstu skrefin í sauðburðinum. Með slíku eftirliti má spara nokkra fýluferðina í fjárhúsin þegar ekkert er um að vera og þannig spara þrekið fyrir komandi vikur. Á sama hátt má fyrr hvíla sig og sofa rólegar þegar slíkt kerfi er fyrir hendi þegar líða fer á sauðburðinn og færri ær eftir að bera og allir orðnir þreyttir eftir annasamar vikur.
Ekki verður þó allt leyst í gegnum eftirlitsmyndavélakerfi þó slíkt komi að góðum notum og því mikilvægt að tryggja mönnun sauðburðarins í tæka tíð. Næg mönnun og gott skipulag hafa lykiláhrif á afföll á sauðburði og þar með mikil áhrif á afkomu búsins. Í könnun RML frá árinu 2021 þar sem svör 300 bænda voru borin saman við skráð afföll í skýrsluhaldi kom í ljós að þar sem fleiri en 3 koma að sauðburði á einhvern hátt voru afföll minni. Á minni búum komu yfirleitt færri að sauðburði, þar voru afföll hlutfallslega meiri og þar komu eftirlitsmyndavélar að meira gagni en á stærri búunum. Þar sem sauðburðarstarfsfólk (bændur og aðstoðarfólk þeirra) merkti við nægan samfelldan svefn voru afföll minni. Þegar þessi atriði eru skoðuð saman gefur það ákveðnar vísbendingar um að brýnt sé að hafa nægan mannskap þannig að hægt sé að hafa fastar vaktir sem tryggja að fólk fái næga hvíld. Skipulag fyrir sauðburðarstarfsfólk ætti því að taka mið af því að tryggja 7-8 klst. samfelldan svefn þegar því verður mögulega viðkomið. Fastir matartímar reyndust einnig hafa góð áhrif og góður undirbúningur sauðburðarins með tilliti til aðfanga og aðstöðu.
Verkaskipting á milli þeirra sem koma að sauðburði þarf einnig að vera skýr til að koma í veg fyrir tvíverknað eða að verk falli niður. Þannig er best að það sé ákveðinn aðili sem ber ábyrgð á stærri verkum s.s. fóðrun, mörkun, meðhöndlun, þrifum og tilfærslu gripa í ein- eða fjölbýli svo fátt eitt sé nefnt. Þá er ekki átt við að sá aðili vinni einn verkin heldur hafi yfirsýn yfir þau og hver sér um þau á mismunandi tímum sólarhrings. Best er að tryggja það með því að halda ákveðnu verklagi hvern dag sauðburðarins og fastri rútínu á flæði gripa í gegnum aðstöðu um sauðburðinn.
Sjúkdómar, varnir og meðhöndlun
Er búið að bólusetja fyrir lambasjúkdómum? Nokkur bóluefni eru í boði. Það algengasta er blandaða bóluefnið sem framleitt er á Keldum. Það veitir vörn gegn lambablóðsótt, garnapest/ flosnýrnaveiki og bráðapest. Þá hafa einnig verið í boði nokkrar erlendar tegundir. Aðeins er breytilegt milli bóluefnategunda hvaða sjúkdómum þau veita vernd fyrir. Samkvæmt leiðbeiningum frá Keldum er best að grunnbólusetja ásetningslömb að hausti og einsprauta svo allt fé tveim vikum fyrir burð. Ef gimbrarnar hafa ekki verið grunnbólusettar að haust þarf að tvísprauta þær fyrir burð með tveggja vikna millibili.
Slefsýki er einn af þeim lambasjúkdómum sem getur valdið talsverðu tjóni á vorin. Mikilvægt er því að reyna eftir bestu getu að fyrirbyggja þennan vágest. Ekki er leyfilegt að gefa sýklalyfstöflur sem fyrirbyggjandi meðferð. Bændur ættu þó að geta fengið nokkrar töflur hjá dýralæknum til að eiga til þess að geta brugðist strax við ef lamb sýkist þar sem verndandi meðferð er leyfileg. Þá er í boði bóluefni sem vonir standa til að veiti vernd gegn slefsýkinni. Bóluefnið kallast Neocolipor og er framleitt fyrir svín gegn ákveðnum stofnum E. coli sýkla sem valda þarmasýkingu í grísum. Ekki er komin mikil reynsla á það hér á landi hversu mikla vernd bóluefnið veitir í reynd en efnið var notað á nokkrum sauðfjárbúum síðasta vor. Samkvæmt leiðbeiningum frá innflytjanda, þá er nóg að sprauta kindur 1 sinni tveim vikum fyrir burð, ef þær hafa verið grunnbólusettar.
Ef þær eru ekki grunnbólusettar þarf að tvíbólusetja að vorinu. Fyrri sprautun þyrfti að fara fram 5 til 7 vikum fyrir burð og seinni sprautan 2 vikum fyrir burð.
Almennt varðandi sjúkdóma á sauðburði skal höfuðáherslan ætíð vera beita forvörnum með því að leggja sem mest upp úr hreinlæti. Þar skipta máli atriði eins og að halda stíum þurrum og þrifalegum, reyna að halda rakastigi lágu í fjárhúsum, þrífa júgur og gera allt sem hægt er til að forðast sjúkdóma og þörf fyrir lyfjagjafir. Ein mikilvægast forvörnin gegn sjúkdómum er að tryggja að lömbin fái nægan brodd eins snemma og hægt er.
Fóðrun
Eins og bændur þekkja er misjafnt milli ára hversu auðvelt er að afla úrvalsheyja. Síðustu vikur meðgöngu og um sauðburðinn er sá tími sem mest er um vert að eiga nóg að góðu og lystugu heyi og mikilvægt að geyma besta heyið hverju sinni fyrir þennan tíma. Heyefnagreining getur verið mjög gagnleg til að sjá hvaða efni gæti helst vantað upp á en það er fullseint að fara í heysýnatöku núna ef slíkar upplýsingar liggja ekki fyrir.
- Það er skynsamlegt að hafa hjá fénu alhliða saltsteina allan veturinn til að reyna að fyrirbyggja skort á mikilvægum snefilefnum. Saltsteinar eru ekki dýrir og getur verið dýrara að hafa sparað sér þau innkaup ef upp koma vandamál tengd efnaskorti á síðustu vikum meðgöngu og á sauðburði.
- Selen er eitt mikilvægra snefilefna fyrir sauðfé en með því að nota selenbættan áburð, ekki síst á tún sem eiga að skila betri heyjunum, má bæta selenmagn í heyinu verulega. Ef gefið er hey af túnum sem fengu selenbættan áburð og saltsteinar sem innihalda selen hafa verið í boði ætti að vera lítil hætta á vandamálum tengdum selenskorti. Ef hvorugt hefur verið gert er sjálfsagt að bregðast nú skjótt við og skoða saltsteina eða bætiefnafötur sem gætu hentað.
- Fóðurþörf ánna á síðustu vikum meðgöngu fer mjög mikið eftir fjölda fóstra. Það er ekki heppilegt fyrir allar ærnar að miða fóðrun við að þær séu allar tví- eða þrílembdar. Það getur verið full mikil fóðrun fyrir einlemburnar þannig að lömb þeirra verða óþarflega stór og hætta á burðarerfiðleikum og afföllum. Ef fóstur hafa verið talin í ánum er sjálfsagt að nýta sér þær niðurstöður til að flokka ærnar í fóðrunarhópa ekki seinna en strax. Einlembur, marglembur sérstakir hópar og svo eru það tvílemburnar sem eru stóri hópurinn víðast hvar. Einlemburnar fóðraðar heldur minna en tvílemburnar en marglemburnar meira. Á mjög mörgum búum er áreiðanlega til bóta að gefa marglembum dálítinn fóðurbæti og síðan fer það eftir heygæðunum hvort þörf er á því að bæta aðeins við tvílemburnar líka með fóðurbæti.
- Á síðustu vikum meðgöngunnar stækka fóstrin hratt og þrengja að meltingarfærunum þannig að átgeta ánna minnkar. Þá skiptir einmitt miklu að fóðrið sem þær éta sé auðmelt og gangi hratt í gegnum vömbina þannig að pláss komi sem fyrst fyrir næstu áfyllingu. Ærin þarf að éta sem mest þurrefni og því skiptir þurrkstig heyjanna einnig máli þegar ákveðið er hvað hey væri best að gefa núna. Eftir því sem fóstrin eru fleiri því mikilvægari eru fóðurgæðin svo ærin nái að halda holdum að mestu út meðgönguna. Þá hefur hún meira af að taka þegar mjólkurframleiðslan hefst og er ekki eins viðkvæm gagnvart því þó ekki náist að uppfylla alveg fóðurþarfir hennar.
- Fósturfjöldi hjá gemlingum skiptir ekki síður máli og þarf helst að gera einhvern greinarmun á fóðrun einlembdra og tvílembdra gemlinga. Til viðbótar skiptir hér máli hversu vel gemlingarnir hafa þroskast yfir veturinn. Ef þeir hafa vaxið lítið getur verið varasamt að bæta miklu við fóðrun á síðustu vikunum því sú viðbót fer mest til fóstranna og lömbin verða of stór miða við þroska móðurinnar. Það verður því að meta hversu góður þroski er kominn í gemlingana á þessum tíma, hve miklu á að bæta við fóðrun einlembdra gemlinga alla vega, á síðustu vikunum. Það ætti að vera sjálfsagt keppikefli allra bænda að gemlingarnir hafi þyngst um að lágmarki 10-12 kg frá hausti og fram á þennan tíma ef hleypt hefur verið til þeirra. En stundum hefur það bara ekki tekist og þá er betra að fóðra ekki of mikið síðustu vikurnar svo að gemlingarnir eigi síður alltof stór lömb með tilheyrandi burðarerfiðleikum og afföllum, bæði lamba og mæðra.