Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Tóbak – heilagt eitur
Á faglegum nótum 23. nóvember 2015

Tóbak – heilagt eitur

Höfundur: Vilmundur Hansen

Plöntur hafa verið brenndar í aldaraðir og reykurinn af þeim notaður við helgiathafnir sem reykelsi og til að fæla burt illa anda. Reykurinn hefur einnig verið notaður til reykja matvæli og auka geymsluþol þeirra. Engin reykingarplanta hefur þó náð viðlíka útbreiðslu og tóbak.

Heildarframleiðsla á tóbaki í heiminum árið 2013 var tæp 8 milljón tonn og hafði þá dregist lítillega saman frá árinu áður. Áætlanir gera þó ráð fyrir að framleiðslan muni aukast aftur á næstu árum.

Kínverjar rækta mest

Kínverjar ræktuðu hátt í helming af öllu tóbaki í heiminum árið 2013, um 3,2 milljón tonn, Indverjar eru í öðru sæti með 875 þúsund tonn og Brasilía er í þriðja sæti með 810 þúsund tonn. Bandaríki Norður-Ameríku eru fjórði mesti ræktandi tóbaks í heiminum með tæp 346 þúsund tonn og Indónesía í því fimmta og framleiðir 227 þúsund tonn.

Löndin í sjötta til tíunda sæti eru Malaví, Argentína, Tansanía, Simbabve og Pakistan og er framleiðslan í þeim löndum á bilinu 150 þúsund og niður í 98 þúsund tonn á ári.

Áætluð landnýting undir tóbaksrækt eru rúmir 41 þúsund ferkílómetrar og er tóbaksjurtin sú löglega ræktunarplanta í heiminum sem gefur mest af sér á hektara. Talið er að framleiddar séu um 5.000.000.000.000, eða fimm þúsund billjónir af sígarettum, í heiminum á ári.

Ásakanir um barnaþrælkun í tengslum við tóbaksræktun eru talsverðar í flestum stærstu framleiðslulöndunum. Dæmi eru um að börn og unglingar hafi hlotið varanlegan tauga- og heilaskaða við að vinna á tóbaksökrum.

Á heimasíðu Hagstofu Íslands segir að flutt hafi verið inn til Íslands 310 tonn af unnum tóbaksvörum árið 2014. Tekjur íslenska ríkisins af innflutningi á tóbaki árið 2013 voru 9,1 milljarður króna.

Grasafræði og ræktun

Tóbaksplantan, Nicotiana tabakum, er af náttskuggaætt og náfrænka tómata, kartöflunnar og eggaldins. Hún tilheyrir ættkvíslinni Nicotiana en tegundin finnst ekki villt í náttúrunni og er talin vera ræktunarblendingur af N. sylvestris, N. tomentosiformis og hugsanlega  N. otophora. Auk N. tabakum er N. rustica ræktuð til nikótínframleiðslu. Allar þessar plöntur eru upprunnar í Suður-Ameríku.

Hraðvaxta jurtkennd planta með trefjarót. Skammlífur fjölæringur en ræktuð sem einær. Nær rúmlega tveggja og hálfs metra hæð við góð skilyrði. Blöðin stór, ílöng eða egglaga, með stuttum stilk, heilrennd.

Allt að 80 sentímetrar að lengd og 30 sentímetra breið, smáhærð og klístruð viðkomu. Hver planta getur borið um 50 blöð. Blómin tvíkynja, lúðurlaga, 5 til 6 sentímetra löng og hálfs sentímetra breið. Frjóvgast með býflugum. Ljósbleik að lit og blómstra við fjórtán klukkustunda daglengd. Fræin smá, brún að lit og nýrnalaga.

Tóbak dafnar best í birtu við háan loftraka í rökum en vel framræstum og köfnunarefnisríkum jarðvegi við 20 til 30 gráður á Celsíus. Kjör sýrustig pH 6 til 7. Í hitabeltinu vex tóbak upp í 1800 metra hæð yfir sjávarmáli en plantan getur þrifist milli 60° norðlægrar og 40° suðlægrar breiddar. Hún þolir talsverðan vind, rigningu og jafnvel haglél á meðan hún er ung og blaðlítil. Eldri og blaðmeiri tóbaksplöntur eru viðkvæmari fyrir slíkum barningi og þola ekki frost.

Í stórræktun er fræjunum sáð í gróðurhúsum eða beint í beð og tekur spírun þeirra 10 til 20 daga við 20° hita. Vaxtartími frá útplöntun til uppskeru er 70 til 120 dagar eftir hitastigi á ræktunarstað. Þurrkur síðustu vaxtardagana auðveldar uppskeru og þurrkun á blöðunum í vinnslu.

Eins og í annarri einræktun er gríðarlegt magn af ólíku skordýraeitri notað til að halda niðri skordýrum sem herja á tóbaksjurtina frá sáningu til uppskeru.

Unnið er skordýraeitur úr nikótíni sem notað er við garðyrkju.

Uppskera og vinnsla

Söfnun á laufi plöntunnar er víða vélvædd en einnig er unnið með höndum. Eftir uppskeru er laufið þurrkað undir sólinni, í hjöllum, yfir eldi eða þurrkofnum. Hver aðferð gefur tóbaki sérstakan ilm og keim og er hvoru tveggja sagt batna því lengur sem laufið er að þorna.

Tóbak sem er vindþurrkað undir berum himni er ríkt af nikótíni og milt og mest notað í vindla. Pípu- og neftóbak er aftur á móti þurrkað yfir vægum eldi í hjöllum. Sú aðferð að þurrka blöðin í sólinni er upprunnin í Tyrklandi og það tóbak aðallega notað í sígarettur.

Erfðabreytt tóbak

Tóbak er fyrsta erfðabreytta plantan sem tilraunir voru gerðar með utandyra. Tilraunin var gerð samtímis í Bandaríkjunum og Frakklandi 1986. Kína var fyrsta landið í heiminum sem leyfði framleiðslu á erfðabreyttum plöntum þegar það hóf stórræktun á erfðabreyttu tóbaki árið 1993.

Öll eitruð nema fræin

Plantan öll, að fræjunum undanskildum, inniheldur nikótín en magnið sem er mest í blöðunum fer eftir jarðvegsgerð, veðri og ræktunaraðferðum. Að öllu jöfnu eykst magnið af nikótíni í plöntunni eftir því sem hún verður eldri. Auk nikótíns er að finna í tóbaksplöntunni margs konar önnur efnasambönd sem heita áhugaverðum nöfnum eins og anatabin, anabasin, glukosid, 2,3,6-trimethyl-1,4-naphthoquinon, 2-methylquinon, 2-napthylamin, propionik-sýru, anatallin, anthalin, anethol, acrolei, anatabin, cembren, cholin, nicotellin, nicotianin, og pyren og eru eflaust öll til margs konar gagns. Sé plantan borðuð hrá eins og salat getur hún valdið ógleði, uppköstum, svitakófi, meðvitundarleysi og jafnvel dauða.

Innfæddir reyktu þurrkuð blöð

Kólumbus og samferðamenn hans kynntust tóbaki í fyrstu siglingunni til nýja heimsins, 1492, þegar þeir sáu innfædda reykja þurrkað lauf plöntunnar.

Fornleifar benda til að tóbak hafi verið ræktað í Mið- og Suður-Ameríku í að minnsta kosti 6.000 ár fyrir upphaf okkar tímatals. Plantan var sögð vera gjöf guða til manna og heilög. Auk þess að vera reykt var hún notuð til lækninga, til að lina burðarverki kvenna og við helgiathafnir. Sagt er að töframenn hafi keðju­reykt allt að rúmlega tólf metra langa vindla í röð til að komast í vímu­ástand og heimsækja andaheiminn. Sá siður að taka í nefið og tyggja tóbak mun einnig kominn frá innfæddum í Ameríku. Auk þess sem þeir smurðu tóbaksolíu á húðina til lækninga þrátt fyrir að slíkt geti verið lífshættulegt. Í dag er nikótín notað í húðkrem sem ætlað er að fæla burt skordýr.

Innreið tóbaks í Evrópu

Áhöld eru uppi um hvort Frakkar, Portúgalar eða Spánverjar hafi fyrstir flutt með sér fræ tóbaksplöntunnar til Evrópu í kringum 1560. Fyrstu árin var plantan aðallega ræktuð sem skrautjurt en ekki leið á löngu þar til að sögur um lækningamátt hennar mögnuðust og hún sögð bæta algeng mein eins og mígreni, þvagsýrugigt, tannpínu og gyllinæð svo fátt eitt sé nefnt.

Talið er að Rodrigo de Jerez, sem var í áhöfn Santa María með Kólumbusi, sé fyrsti Evrópumaðurinn til að taka upp á því að reykja pípu og þótti slíkt mikið nýnæmi. Ísabella drottning af Portúgal er að öllum líkindum fyrsta Evrópukonan sem reykti. Kólumbus færði henni vindil þegar hann kom heim úr fyrstu siglingu sinni.

Spánverjar hófu fyrstir nýlenduherra ræktun á tóbaki á Kúbu og Haítí árið 1531 og hófu verslun með það í Evrópu um miðja sextándu öld. Jaen Nicot, sendiherra Frakka í Portúgal, sá sér leik á borði og hóf innflutning á tóbaki til Frakklands og græddi stórfé. Ættkvíslun Nicotiana er nefnd í höfuðið á hönum.

Bretinn Walter Raleigh flutti manna fyrstur tóbak til Bretlands og var ötull talsmaður þess þar. Neysla á tóbaki barst síðan hratt út um Evrópu og annarra landa eftir það. 

Raleigh kynnti Elísabetu I. Englandsdrottningu fyrir tóbaki og þótti henni það gott til hátíðabrigða. Jakobi I., arftaka hennar, var aftur á móti meinilla við tóbak og reyndi að banna það. Jakob dæmdi Raleigh reyndar til dauða og segir sagan að hann hafi gengið sallarógur með pípuna sína í munninum að aftökustaðnum. 

Napóleon I. reykti ekki en hann tók í nefið og eru neftóbaksdósir hans frægar. Napóleon III. reykti aftur á móti mikið og allt að 50 sígarettur á dag. Goethe var mótfallinn tóbaksneyslu og sagði að hún gerði menn heimska, Tolstoy sagði hins vegar að hún gerði menn vitlausa. Schiller var aftur á móti viðþolslaus hefði hann ekkert að reykja.

Kirkjuyfirvöld hömuðust einnig gegn tóbaki um tíma og mun ástæðan einkum vera sú að prestar voru farnir að tyggja munntóbak í svo miklum mæli við messu að varla heyrðist lengur hvað þeir sögðu. Urban páfi VIII. gaf út boð, 1650, þess efnis að prestum væri bannað að neyta tóbaks þegar þeir voru komnir í skrúða. Hann sá þó fljótlega hversu tóbaksverslun var ábátasöm og fyrirskipaði ræktun þess á kirkjujörðum.

Konungur Frakklands tók um tíma toll af allri tóbaksverslun í landinu en hún var gefin frjáls skömmu eftir að Napóleon komst til valda. Sagan segir að Napóleon hafi haldið stórveislu í höll sinni veturinn 1810 og boðið öllum stórmennum landsins. Meðal gestanna var kona sem keisarinn veitti sér­staka athygli vegna þess hversu mikið hún bar af gimsteinum. Þegar hann forvitnaðist um hver konan væri fékk hann það svar að hún væri eiginkona vellauðugs tóbakskaupmanns. Hálfu ári seinna tók keisarinn sér einkarétt á verslun, framleiðslu og sölu á tóbaki í landinu og nýlendum þess. Stundum er sagt að þessi skrautgjarna kona sé ástæða þess að sala á tóbaki hefur lengi verið einkaréttur ríkisvaldsins.

Tóbak og þrælaverslun

Þrælaverslun frá Afríku til Banda­ríkjanna, aðallega Suðurríkjanna, jókst gríðarlega með aukinni tóbaksræktun. Tóbak varð snemma, ásamt sykri og bómull, ein af þeim vörum sem voru hluti af Trafalgar-þríhyrningnum sem lá frá Evrópu til Afríku og þaðan til nýja heimsins og aftur til Evrópu.

Tóbak, sykur og bómull var flutt frá Mið- og Suður-Ameríku til Evrópu og selt þar. Gróðinn var notaður til að kaupa, byssur, salt, vefnaðarvöru í Evrópu og skreið frá Íslandi. Allt eftirsóttar vörur í Vestur-Afríku og seldar þar. Í Vestur-Afríku voru keyptir þrælar sem fluttir voru vestur um haf og seldir plantekrueigendum. Og tóbak, bómull og sykur flutt til Evrópu.

Aukin tóbaksneysla

Neysla á tóbaki, sérstaklega sígarettum, jókst gríðarlega á árum seinni heimsstyrjaldarinnar enda sígarettum dreift ókeypis meðal bandarískra og breskra hermanna. Nasistar í Þýskalandi voru aftur mótfallnir reykingum og lögðust gegn þeim meðal hermanna sinna.

Marlboro-maðurinn

Ein best heppnaða auglýsingaherferð síðustu áratuga var frá framleiðanda Marlboro-sígarettna og sýndi kúreka í villta vestrinu reykja. Auglýsingin var notuð í mismunandi útfærslum í fjörutíu og fimm ár eða frá 1954 til 1999. Fjórir af þeim sem komu fram sem Marlboro-maðurinn í auglýsingunum létust úr lungnakrabbameini.

Tóbak á Íslandi

Fyrstu skráðu kynni Íslendings af tóbaki er að finna í Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara. Jón var vestfirskur bóndasonur sem tók sér far með ensku skipi frá Vestfjörðum til Englands árið 1615 til að skoða heiminn. Í ferðasögu sinni segir hann frá skipverja sem tók í nefið og kenndi hann Jóni siðinn.
Minnst er á munntóbak í bréfi sem Arngrímur lærði skrifaði Ole Worm árið 1631. Bréfið er á latínu en í þýðingu Ólafs Davíðssonar, náttúrufræðings og þjóðsagnasafnara, í Eimreiðinni 1898 segir á einum stað: „Mig fýsir að fræðast sem fyrst um hver áhrif tóbakið hefur, þegar menn draga það að sjér gegnum pípu, svo reykurinn kemur út um munn og nef, hve skammturinn á að vera mikill og hve opt á að taka það; hvort menn eiga að neita þess á fastandi maga, eins og sjómenn hafa sagt mér, eða á annan hátt.“

Arngrímur spyr einnig hvort neyslan sé holl fyrir höfuð og brjóst og hvort það sé satt að sumir menn tyggi það til að hreinsa magann.

Í svarbréfi Worm segir að: „Jurtin sé kaldrar náttúru og einkum holl fyrir þá sem eru vots eðlis ef þeir neyta hennar í hófi.“ Hann segir einnig að reykur úr pípu hreinsi slím úr heilanum og skilningarvitunum. Worm segir að sé tóbak látið standa í víni yfir nótt og drekki svo vínið auðveldi það uppsölur en að öðru leyti viti hann ekki hvort óhætt sé að neyta jurtarinnar.

Útbreiðsla tóbaks, hvort sem það var munn-, reyk- eða neftóbak, á Íslandi var hröð hjá báðum kynjum og tóku konur ekki síður í nefið en karlar og var það kallað að drekka tóbak þegar tekið var í nefið.
Hallgrímur Pétursson samdi nokkrar vísur um tóbak:

Tóbakið hreint,
fæ gjörla ég greint,
gjörir höfðinu létta,
skerpir vel sýn,
svefnbót er fín,
sorg hugarins dvín.
Sannprófað hefi ég þetta.

Tóbak nef neyðir,
náttúru eyðir,
upp augun breiðir,
út hrákann leiðir,
minnisafl meiðir,
máttleysi greiðir
og yfirlit eyðir.

Séra Páli Björnssyni í Selárdal (d. 1706) var meinilla við tóbak og sagði í stólræðu:
„Aldrei verður evangellíum svo kiprað saman í prédikunarstólnum, að það sje ekki oflangt, þótt tóbakið sje ennþá millum tannanna á þeim, sem sitja á kirkjubekknum.“

Í frétt á heimasíðu Landlæknis­embættisins segir að verulega hafi dregið úr tíðni daglegra reykinga undanfarin ár og að sama skapi hafi hlutfall þeirra sem reykja sjaldnar en daglega hækkað frá árinu 2012.

Orsakavaldur ótímabærs dauða

Í dag er tóbaksplantan ræktuð í stórum stíl og úr henni aðallega unnið tóbak. Árið 2008 gaf Alþjóða heilbrigðiseftirlitið út yfirlýsingu þar sem tóbaksneysla er sögð vera helsti orsakavaldur ótímabærs dauða í heiminum.

Talsvert hefur dregið úr tóbaksneyslu á Vesturlöndum síðustu ár en neysla þess hefur á móti aukist jafnt og þétt í Asíu og í dag eru það ungir kínverskir karlmenn sem reykja hlutfallslega mest allra.

Tengsl tóbaksneyslu og krabbameins, lungna- og æðasjúkdóma eru löngu þekkt og full ástæða til að vara við henni. Eða eins og gömul frænka sagði einu sinni: „Þeir sem reykja lykta eins og svín, þeir sem taka í nefið líta úr eins og svín en þeir sem taka í vörina eru svín.“

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...