Túlípanar um jólin
Vöndur með rauðum og hvítum túlípönum, grenigreinum og jólaskrauti eru uppáhald jólasveinanna enda afskaplega falleg skreyting í vasa yfir jólahátíðina og fram á nýja árið.
Ráðlegt er fyrir jólasveina og aðra sem fá sér túlípana fyrir jól að sem stystur tími líði frá því að túlípanarnir eru keyptir og þar til þeim er komið í hreinan vasa með volgu vatni.
Ef kalt er í veðri eins og oft er í desember skal láta vefja blómunum inn í pappír til að verja þau fyrir mesta kuldanum á leiðinni á áfangastað.
Gott er að skáskera aðeins neðan af blómstilkunum með beittum hnífi áður en þeir eru settir í vasann og nota skal blómanæringu fylgi hún með í kaupunum. Einnig skal skipta um vatn annað slagið svo að það fúlni ekki.
Afskorin blóm standa best við lágt hitastig og því skal varast að láta þau standa nálægt miðstöðvarofni. Ekki er heldur ráðlegt að láta þau standa nálægt ávöxtum þar sem þeir gefa frá sér gufur sem flýta fyrir hnignun túlípananna.