Umhverfisvænn Range Rover PHEV
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Í byrjun árs var ég spurður að því hvort ég gæti ekki reynt að prófa aðeins fleiri umhverfisvæna bíla og skrifa um í ljósi umræðunnar um að minnka mengun. Með þetta að leiðarljósi fór ég á Hesthálsinn þar sem seldir eru Jaguar og Land Rover.
Ég fékk að prófa nýjasta útspilið frá Range Rover sem er bíll með rafmagnsmótor og bensínmótor sem er hagkvæmur í rekstri ef ekki er að jafnaði ekið meira en 30–50 km flesta daga.
Sennilega versti dagur ársins til að prófa rafmagnsbíl
Þegar ég fékk bílinn laugardaginn 2. febrúar var hann ekki alveg fullhlaðinn á rafhlöðunni þar sem hann hafði verið í prufuakstri skömmu áður. Þennan dag var frostið í Reykjavík á bilinu -10°C og niður í -14° og í svo miklum kulda endast rafhlöður ekki vel. Þegar ég setti bílinn í gang átti ég að komast rúma 30 km á rafhlöðunni, en eftir að hafa ekið upp að Hafravatni og til baka og heim til mín, sem er nálægt 20 km, voru aðeins 2 km eftir á rafhlöðunni. Þennan sama dag lenti rafmagnsstrætó í Reykjavík í vandræðum þar sem kuldinn stytti drægni hans óeðlilega mikið.
Á þessum fyrstu kílómetrum á rafhlöðunni mældi ég hávaðann inni í bílnum á meðan ég var að keyra á rafmagnsmótornum og þrátt fyrir mikinn kulda og marr í snjónum mældist hávaðinn ekki nema 65,9 db. Seinna í prufuakstrinum, þegar allt rafmagn var búið, mældi ég aftur og reyndist hávaðinn vera í meðaltalsmælingu á einni mínútu 68,9db. með bensínvélina í gangi á 90 km hraða.
Skemmtilega þýður og kraftmikill
Á malbikuðum vegi hreinlega finnst manni maður svífa áfram og loftpúðafjöðrunin er að gefa skemmtilega fjöðrun á ójöfnum eins og hvörf í vegi og hraðahindrunum. Litlum holum og klakahröngl eins og er víða á frostdögum líkt og hefur verið undanfarna daga á götunum er maður að finna of mikið fyrir því 21 tommu hjólbarðarnir á bílnum eru nánast ekki að gefa neina fjöðrun. Ekki er í boði að minnka felgurnar í þessum bíl nema niður í 20 tommur vegna þess að bremsudiskar og dælur eru óvenju stórar og öflugar í þessum bíl.
Krafturinn í vélinni er mjög mikill og samkvæmt bæklingi er bíllinn ekki nema 6,8 sek. að ná 100 km hraða. Til marks um það að þegar tekið er fram úr bíl sem er á um 70 km hraða og vélin nýtt að hámarki, tvöfaldar bíllinn hraðann á hefðbundinni lengd sem framúrakstur tekur. Það segir manni það eitt að maður þarf að passa upp á að fara ekki á sviptingarhraða við framúrakstur.
Hefði þurft að hafa mér færari tölvusnilling með í prufuakstrinum
Allt mælaborðið er ein stór tölva og nánast öllu stjórnað á snertiskjá, þetta var frekar vandræðalegt hjá mér þar sem ég er einstaklega mikill klaufi á tölvur og snertiskjái. Þrátt fyrir þetta vandamál mitt tel ég mig hafa sloppið skammlaust frá þessu tölvuundri, en það sem ég sá og fann í þessari tölvu virtist endalaust og örugglega missti ég af miklum fróðleik sökum lélegrar tölvukunnáttu. Hins vegar leið mér alltaf vel við aksturinn, bíllinn fljótur að hitna, hiti í stýri, sætum. Það sem mér fannst einna best við bílinn er að með því að ýta á einn takka á fjarstýringunni á lyklum bílsins fór miðstöð í gang sem bræddi af öllum rúðum snjó og hrím.
Ýmsir kostir umfram aðra bíla
Í bílnum eru framsætin einhver þau albestu sem ég hef setið í, loftpúðafjöðrun er eitthvað sem hentar vel íslenskum vegum og er hægt að hækka og lækka þennan bíl töluvert mikið (það má keyra á venjulegum hraða á bílnum í öllum hæðarstillingum, en margir halda að það megi ekki), og sem dæmi þá er ég ekki hávaxinn og eftir að ég uppgötvaði að gott væri að setja bílinn í lægstu stellingu þegar honum var lagt var bæði betra að fara út úr bílnum og inn í bílinn þegar farið var á bílnum næst. Í flestum rafmagnsbílum er varað við því að aka yfir ár og öðru vatnasulli, en í Range Rover Sport PHEV má aka yfir ár og vera í vatnasulli í vatnshæð að 90 cm dýpt.
Ekki alveg gallalaus
Þrátt fyrir mikið af alls konar búnaði til að gera bílinn þægilegan var ég afar ósáttur þegar ég varð þess áskynja að ég hefði verið að keyra bílinn án afturljósa. Það er ekki nóg að aka með ljósatakkann á auto, því ef úti er bjart þá eru engin afturljós á bílnum sem er ólöglegt og viðurlög við því er 20.000 króna sekt. Ef kveikt er á ljósunum til þess að fá afturljósin á þá verður að muna að slökkva þau því þau gera það ekki sjálfkrafa.
Bíllinn er án varadekks, en það eru nánast allir tvinnbílar líka, en persónulega finnst mér það mikill ókostur og óöryggistilfinning að aka um á varadekkslausum bíl. Ég hef áður sett á prent að varadekkslausa bíla ætti að banna og að bílar væru þannig útbúnir að ekki sé hægt að aka af stað fyrr en að bíllinn sé með löglegan ljósabúnað (ath. þetta er mín persónulega skoðun).
Verð og tækniupplýsingar
Range Rover PHEV P400e er uppgefinn fyrir að vera að eyða 3,6 lítrum á hundraðið við bestu aðstæður og að hægt sé að keyra allt að 51 km á rafmagninu áður en bensínvélin tekur við, en við íslenskar vetraraðstæður tel ég gott að ná 25 km á rafmagninu og gæti ég trúað að eyðslan sé nær 6 lítrum á hundraðið.
Verðið á Range Rover PHEV er frá rúmum 13.000.000 og upp undir 20.000.000, fer algjörlega eftir stærð vélar, innréttingu og útbúnaði, en bíllinn sem ég prófaði var sá ódýrasti, en samt með vél sem er yfir 400 hestöfl.
Helstu mál og upplýsingar:
Lengd 1.803 mm
Hæð 1.803 mm
Breidd 2.220 mm