Ungar nautsmæður - vit eða vitleysa
Frá því að byrjað var að reikna kynbótamat í íslenskri nautgriparækt með einstaklingslíkani fyrir rétt um 20 árum hafa í auknum mæli verið teknir nautkálfar á stöð undan ungum kúm og þá gjarnan 1. eða 2. kálfur viðkomandi mæðra.
Þegar slíkt er gert vakna oft spurningar um hvort slíkt sé réttlætanlegt út frá því að upplýsingar um afurðagetu og endingu móðurinnar liggja ekki fyrir í sama mæli og hjá eldri kúnum. Á móti eru þau rök að yngri gripir eru erfðafræðilega betri og ef ungar kýr, sérstaklega 1. kálfs kvígur, eru útilokaðar sem nautsmæður þrengir það verulega nautsmæðravalið og minnkar hinn virka erfðahóp.
Hérlendis er reiknað kynbótamat eða kynbótaspá fyrir alla gripi og því fá gripirnir sína fyrstu spá u.þ.b. 1–6 mánaða gamlir. Þær kvígur sem hafa hæstu kynbótaspána á sínum búum eiga einkum og sér í lagi að koma til greina sem nautsmæður framtíðarinnar þar sem synir þeirra og nautsfeðra hafa háa kynbótaspá. Þannig tilkomnir nautkálfar koma því mjög til álita sem sæðinganaut framtíðarinnar.
Það lætur nærri að um þriðjungur kúnna sé fyrsta kálfs kvígur og með því að þær komi til greina sem nautsmæður stækkar sá hópur verulega, úrvalið verður sterkara og hinn virki erfðahópur stækkar eins og áður sagði. Oft spyrja menn eigi að síður hvort það sé réttlætanlegt að kaupa kálfa undan kúm sem ekki hafa sýnt sitt rétta andlit ef svo má að orði komast. Þetta er eðlileg spurning því þessir gripir hafa litlar sem engar upplýsingar um eigin getu þegar ákvörðun er tekin um kaup á nautkálfi undan þeim.
Á þeim tíma sem líður frá kaupum á nautkálfi og þar til hann kemur í sæðistöku bætast hins vegar við upplýsingar um yfirstandandi mjólkurskeið móðurinnar. Hafi verið um 1. kálfs kvígu að ræða eru það hennar fyrstu afurðaupplýsingar og endanlegt val nautkálfsins byggir því á hennar frammistöðu að verulegu leyti.
En hvernig hefur svo tekist til við val nauta undan ungum kúm? Hafa þessi naut staðið sig betur eða lakar en synir þeirra kúa sem meiri upplýsingar liggja fyrir um á þeim tímapunkti að nautið var valið? Til þess að svara þessu er rétt að skoða meðfylgjandi töflu þar sem sjá má kynbótamat reyndra nauta fæddra 2004–2008 flokkað eftir því hvort þeir voru fyrsti, annar eða seinni (3+) kálfur móður sinnar.
Það sem fyrst vekur athygli er hversu fá naut eru fyrsti kálfur móður sinnar, aðeins 9 af 125 nautum í þessum árgögnum eða 7,2%. Ef litið er á kynbótaeinkunnina kemur í ljós að enginn munur er milli nautanna hvort sem þeir eru 1., 2. eða 3. kálfur móður sinnar. Það bendir til þess, með ræktunarmarkmiðið í huga, að það breyti engu um endanlegt kynbótagildi nautanna hvort þeir eru 1., 2. eða 3. kálfur móður sinnar en flýti erfðaframförum því þeim mun yngri sem móðirin er því styttra er ættliðabilið. M.ö.o. nautaval sem byggt er að mestu leyti á kynbótaspá skilar síst lakari niðurstöðu.
Ólíkt því sem hefði mátt vænta er endingarmat dætra nautanna hærra eftir því sem móðir nautsins er yngri þrátt fyrir að upplýsingar um endingu móðurinnar séu ekki fyrir hendi þegar viðkomandi naut eru valin. Annað sem vekur athygli er að synir yngri kúnna virðast gefa dætur sem eru júgurhraustari, frjósamari og betri í mjöltum auk þess sem þær koma betur út í gæðaröðun. Þarna kann að vera að við val á nautum undan ungum kúm sé horft til þess að þær beri ungar, eða 24–28 mánaða gamlar, og séu því eðlisfrjósamari. Þá má velta því fyrir sér hvort menn séu gagnrýnni á yngri kýrnar hvað snertir mjaltir og almenna umgengni og því skili synir þeirra kúm sem séu þægilegri og betri í mjöltum.
Varðandi júgur og spena er lítill sem enginn munur, helst að á 2. burði komi fram lakari spenagerð. Þar hlýtur þó frekar að vera um tilviljun að ræða en hitt.
Í afurðum er eilítill munur í efnainnihaldi á þann veg að synir yngri kúnna eru lægri í efnum en mjólkurlagnin er sú sama. Þetta gæti verið afleiðing þess að á bak við val nautanna undan ungu kúnum liggja ekki fyrir jafnmiklar og áreiðanlegar afurðaupplýsingar og hjá þeim eldri. Hins vegar er fjöldi nautanna ekki það mikill að óhætt sé að draga mjög víðtækar ályktanir.
Í heildina er eins og áður sagði mjög lítill munur á sonum eldri og yngri kúnna. Það þýðir að við eigum að horfa til yngri kúnna í auknum mæli til þess að hraða erfðaframförum svo sem hægt er. Þrátt fyrir þetta og þá staðreynd að við höfum reynt að horfa til yngri kúnna við val á nautum eru aðeins 7% þeirra sem hér um ræðir fyrsti kálfur móður sinnar. Sambærilegt hlutfall er 46% í Noregi svo dæmi sé tekið. Ég vil því eindregið hvetja menn til þess að sæða efnilegar kvígur og ungar kýr með háa kynbótaspá eða –mat með nautsfeðrum með það í huga að bjóða nautkálf á stöð.