Uppbygging skýrsluhaldskerfanna
Skýrsluhaldskerfi Bændasamtakanna hafa verið í umsjón og þróun RML frá áramótum 2019-2020 þegar tölvudeild BÍ var sameinuð RML.
Sú breyting að forritun, þróun og þjónusta við kerfin séu rekin sem ein heild var mjög jákvætt skref.
Skýrsluhaldskerfin Fjárvís, Huppa, Worldfengur, Heiðrún
og Jörð eru gagnalindir sem halda utan um íslensku búfjárkynin og landupplýsingar. Þau eru þannig grundvöllur fyrir ræktunarstarfi í búfjárrækt og kortlagningu ræktunarlands, en eru jafnframt bústjórnartæki fyrir bændur, mikilvægur hluti greiðslukerfis í landbúnaði og upplýsingaveitur fyrir hið opinbera.
Þetta víðtæka hlutverk skýrsluhaldskerfanna getur verið áskorun þegar kemur að þróun á forritunum og forgangsröðun verkefna. Halda þarf í við hraða þróun í tækni og hugbúnaði, bæði því sem snýr að forritunum sjálfum en ekki síður vegna þess að landbúnaður er á hraðri leið í að verða mjög tæknivædd atvinnugrein.
Á síðustu misserum höfum við verið að bæta verklag og auka á skilvirkni við forritun og þróun. Einnig verið að aðlaga forritin að nútíma forritunarmálum til þess að geta aukið öryggi þeirra en einnig til að auðvelda vinnu við framtíðarþróun. Auðveldara er að mæta kröfum notenda hverju sinni ef hugbúnaðurinn er uppfærður samkvæmt nýjustu þekkingu. Forritin eru komin mislangt í þessu ferli.
Það er markmið að bændur, notendur kerfisins geti sagt til um hvernig æskilegt sé að kerfin þróist í framtíðinni. Við höfum því hafið vinnu við stefnumörkun og var Fjárvís fyrsta forritið sem tekið var fyrir. Gerð var skoðanakönnun meðal notenda Fjárvís varðandi þróun á kerfinu. Helstu niðurstöður úr þeirri vinnu voru birtar í síðasta Bændablaði en glöggt mátti sjá að notendur leggja áherslu á þróun sem lýtur að aukinni snjallvæðingu kerfisins og tengingu við jaðartæki svo sem örmerkjalesara. Það er því hafin vinna við að bregðast við þeim óskum. Stefnt er að því að senda út sambærilegar notendakannanir vegna Huppu og Jörð.is á næstu mánuðum og verða kynningar á þeim niðurstöðum gerðar ljósar á síðum Bændablaðsins.
Verðskrá forritanna hefur ekki fylgt þeim kostnaði sem þarf til þess að viðhalda kerfunum. Sem dæmi hafa notendagjöld vegna Huppu verið um 12 milljónir á ári. Kostnaðurinn hefur hins vegar verið mun hærri og því innkoman engan veginn staðið undir eðlilegu viðhaldi kerfisins. Kúabændum hefur fækkað og því færri sem eru að borga notendagjöld inn í kerfið.
Kerfið er því ekki sjálfbært og ekki útlit fyrir að það breytist nema kúabændum fari að fjölga verulega eða notendagjöld hækkuð.
Þetta á við öll kerfin en þó eru þau misvel fjármögnuð vegna mismunandi fjölda notenda. Hingað til hafa notendagjöldin á ári við forritin verið um 20 þús kr. (aðeins mismunandi á milli forrita) eða innan við 2 þúsund kr. á mánuði. Notendagjöld á Fjárvís, Jörð og Heiðrúnu hafa verið þrepaskipt fram að þessu og þá miðað við búfjárfjölda eða fjölda hektara þannig að ódýrustu notendagjöldin með aðild að Bí voru innan við 5 þúsund krónur á ári. Nú hefur verðskránni verið breytt þannig að öll þrepin falla út og sama verð er til allra með þeim rökum að kostnaður við kerfin eru alveg þau sömu óháð búfjáreign eða fjölda hektara.
Aðild að Bændasamtökunum veita 30% afslátt af notendagjöldum eins og verið hefur. Sjá verðskrá inn á www.rml.is.
Í allra nánustu framtíð verður gerður mun meiri munur á því sem kallað er lögbundið skýrsluhald þar sem notandi hefur lágmarksaðgang að kerfunum en getur uppfyllt þær kröfur sem stjórnvöld krefjast varðandi hjarðbækur og skil vegna greiðslukerfis.
Í gegnum slíkan aðgang verða ekki þeir möguleikar sem bjóðast þeim sem hafa fullan aðgang. Svo sem hverslags bústjórnunarmöguleikar, tenging jaðartækja, skýrslubirtingar o.s.frv. enda greiða notendur með fullan aðgang fyrir þróun á þeim hluta kerfisins.
Skýrsluhaldskerfin eru verðmæti sem mikilvægt er að hlúa að þannig að þau séu jöfnum höndum gott vinnutæki fyrir bændur og fyrir þá aðila sem nýta gögn úr þeim til dæmis við framkvæmd ræktunarstarfs, vegna umhverfis og loftslagsmála og síðast en ekki síst til þess að halda utan um búfjáreign og þróun á afurðum íslenska búfjársins.