Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Uppruni íslensku kúnna og innflutningur fyrr á tímum á lifandi nautgripum og erfðaefn
Á faglegum nótum 27. nóvember 2014

Uppruni íslensku kúnna og innflutningur fyrr á tímum á lifandi nautgripum og erfðaefn

Höfundur: Sigurður sigurðarson

Íslenska kúakynið er trúlega eitt af örfáum eða jafnvel eina kynið í heiminum sem haldist hefur lítt eða ekki blandað öðrum kynjum jafn lengi eða allt frá því á landnámsöld.

Rannsóknir á beinum úr nautgripum í Lundi í Svíþjóð frá tímabilinu 1020–1400 benda til þess að þar hafi kýr verið svipaðar kúm af sænska landkyninu.

Þar fundust eingöngu hauskúpur af hyrndum nautgripum. Við uppgröft í hinum fornu norrænu byggðum á Grænlandi fundust hauskúpur af bæði hyrndum og kollóttum nautgripum, yfirleitt smávöxnum. Í fornu beinasafni frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal frá því fyrir 1158 fannst framhluti hauskúpu af kollóttum nautgrip en einnig hauskúpur af hyrndum nautgripum.

Flest naut hyrnd

Í Íslandslýsingu sinni frá því um 1590 getur Oddur Einarsson biskup þess, að flestir nautgripir á Íslandi séu hyrndir en kollótt naut komi þó fyrir. Nautgripir frá Danmörku voru nokkrum sinnum fluttir til landsins á 19. öld. Áhrif þess innflutnings eru talin mjög lítil. Norskur fræðimaður, O. Bæröe, sem ferðaðist um Ísland árið 1902, taldi íslenska nautgripi líkjast mest nautgripum á Þelamörk og í Austurdal í Noregi. Umfangsmiklar blóðrannsóknir voru gerðar á íslensku nautgripunum árið 1962 og samanburður gerður við nautgripakyn í Noregi.

Niðurstaðan var sú að íslenskir nautgripir höfðu mjög svipaða blóðflokkagerð og gömlu landkynin í Noregi, Þelamerkur-, Dala- og Þrændakýr. Blóðflokkar íslenska kúakynsins voru svo líkir blóðflokkum gömlu norsku kúakynjanna, að íslensku kýrnar hefðu vel getað verið tilviljanakennt úrtak úr gömlu, norsku kynjunum. Það kom einnig fram í þessari rannsókn að íslensku kýrnar vantaði alveg ákveðinn blóðflokkserfðavísi, sem einkennir Jersey-kýr.

Hugmyndir, sem komið hafa fram, um skyldleika íslenskra kúa og Jersey-kúa virðast því ekki eiga við rök að styðjast.

Í síðari rannsókn, árið1974, kom fram, að íslensku nautgripirnir eru mjög fjarskyldir Hereford og Aberdeen Angus kynjunum á Bretlandi. Í finnskri doktorsritgerð frá 1999 var íslenski kúastofninn borinn saman við 19 aðra kúastofna. Þar kom fram að íslensku kýrnar voru skyldastar hryggjóttum kúm úr Norður-Noregi og Þrændalögum, Sidet Trönder- og Nordlandsfe, og tíminn frá því þessir stofnar greindust að, miðað við 5-6 ára ættliðabil reiknaðist vera 1100-1300 ár. Það fellur vel að landnámi hér fyrir um 1130 árum.

Innflutningur á 19. öld

Í Lýsingu Íslands, sem út kom árið 1919, getur Þorvaldur Thoroddsen þess að lengi hafi verið talað um nauðsyn þess að bæta kúakynið, en ekki hafi orðið af framkvæmdum nema það að menn fengu sér við og við útlendar kýr á 18. og 19. öld. Hann tilfærir þó engar heimildir um innflutning nautgripa á 18. öld.

Innflutningur á 19. öld, sem Þorvaldur nefnir er eftirfarandi. Árið 1816 fékk Magnús Stephensen frá konungsbúum Sjálandi rauða kvígu og bola. 1819. Fékk hann veturgamlar 2 kvígur frá Holtsetalandi.

Magnús gerði tilraunir með dönsku nautgripina í Viðey. Kvígurnar reyndust vel, komust í 18-20 merkur. Kýr af þessu kyni komust að Hvítárvöllum og að Hjálmholti í Flóa. Upplýsingar um þetta kúakyn eru einnig frá Meðalfelli í Kjós, Rauðalæk í Holtum og Hvanneyri. Kýr af þessu kyni var í Deildartungu um 1900 samkvæmt upplýsingum Páls Agnars yfirdýralæknis, 1838, fékk Bjarni Thorarensen amtmaður á Möðruvöllum í Hörgárdal, bola og kvígu frá Holtsetalandi. Fyrir 1840 voru danskar kýr fluttar til nokkurra staða á Íslandi samanber sóknarlýsingar. Um 1840 var nautpeningur af útlendu kyni í Möðruvallasókn, einkum á Möðruvallaklaustri. Árið 1852 var sá stofn talinn útdauður.

Á Gilsá í Breiðdal voru kýr af sjálensku kyni um 1840. Þær mjólkuðu ekki betur en góðar íslenskar. Á Setbergi voru árið1840 kýr af útlendu kyni, sagðar mjólkurlagnari en íslenskar kýr.

Um miðja 19. öld komu til Eyjafjarðar naut af dönsku kyni. 1870 eða aðeins fyrr fékk Jóel Jósepsson á Spákonufelli á Skagaströnd danska nautgripi, líklíklega kálfa, samkvæmt upplýsingum Guðmundar Jósafatssonar frá Brandsstöðum.

Innflutningur á 20. öld

1933 komu til landsins frá Skotlandi 5 nautgripir af 4 mismunandi holdakynjum:

Aberdeen Angus-tarfur, sagður veturgamall

Highland-tarfur, f. 14. júlí 1932

Shorthorn-tarfur, f. 1. apríl 1932

Galloway-tarfur, f. 20. des. 1931

Galloway-kýr, f. 14. febr. 1931

Sagt er frá þessum innflutningi í bókinni, Þættir um innflutning búfjár og Karakúlsjúkdóma, sem út kom 1947, samantekin af þriggja manna nefnd skipaðri af landbúnaðarráðherra, Árna G. Eylands stjórnarráðsfulltrúa og alþingismönnunum Jónasi Jónssyni og Jóni Pálmasyni. Gripirnir komu með Brúarfossi til Reykjavíkur hinn 4. júlí 1933 og voru fluttir samdægurs í einangrun til Þerneyjar, en þá var þar bóndi, Hafliði að nafni, með fjölskyldu sína og hafði búið þar m.a. við nautgripi og sauðfé.

Hringskyrfi í innfluttum nautgripum

Dýralæknirinn í Reykjavík var fjarverandi vegna framboðs til Alþingis, þegar gripirnir komu og var aðstoðarmaður hans, Guðmundur Andrésson, ekki dýralæknislærður, fenginn til að skoða nautgripina áður en þeir voru teknir úr skipinu. Taldi hann þá heilbrigða, en ekkert vottorð var gefið út um það. Hinn 10. júlí sama ár voru fluttar til Þerneyjar 20 Karakúl-kindur frá Þýskalandi.

Ásgeir Þ. Ólafsson, dýralæknir í Borgarnesi, var fenginn til að gera læknisskoðun á fénu og framkvæmdi hann skoðunina þegar kindurnar voru teknar í land í Þerney og síðan skoðaði hann tarfana, sem þangað voru komnir áður, en kvíguna náðist ekki í til skoðunar. Ásgeir taldi tarfana heilbrigða og hina prýðilegustu að útliti.

Fyrst eftir að gripirnir voru komnir til landsins fóru menn að gera áætlanir um það, hvernig ætti að nýta þá. Samkvæmt skýrslu Hannesar Jónssonar dýralæknis fóru að koma hrúðraðir hárlausir blettir á eitt nautið u.þ.b. einni viku eftir að gripirnir komu til Þerneyjar og fylgdi því mikill kláði. Eftir 3-4 vikur voru allir gripirnir komnir með útbrot. Hannes taldi sjúkdóminn vera Hringorm (Hringskyrfi, Herpes tonsurans) og var sú sjúkdómsgreining seinna staðfest á Rannsóknarstofu Háskólans. Eftir að upplýsingar höfðu fengist erlendis frá og talsverðar vangaveltur var ákveðið að lóga gripunum.

Heimanautgripir í Þerney smituðust einnig og voru felldir vorið eftir. Fólk í Þerney smitaðist einnig af hringskyrfi en hvorki sauðfé né hross, sem þar voru.

Lógað var öllum innfluttu gripunum 5 að tölu og var það gert hinn 9. janúar 1934, en kálfur undan Galloway-kúnni þá tæplega vikugamall hafði verið tekinn úr karinu og fluttur inn í eldhús. Galloway-kálfurinn í Þerney var fluttur samkvæmt leyfi stjórnvalda í land hinn 16. febrúar 1934. Hann var hafður í einangrun í kjallara á bænum Blikastöðum til 27. apríl sama ár. Hann sýktist ekki og hringskyrfi var upprætt í Þerney. Hinn 18. júlí sækir Magnús Þorláksson bóndi á Blikastöðum um leyfi til að selja kálfinn Búnaðarsambandi Suðurlands og fylgdi heilbrigðisvottorð prófessors Níelsar Dungals dagsett 16. júlí.

Búnaðarsambandið keypti svo Galloway-kálfinn haustið 1934 og fór hann að Gunnarsholti. Þar var nautið og afkvæmi þess til 1936, er Búnaðarsamband Suðurlands hætti að reka búið. Þá var nautið og 4 kálfar undan því fluttir að Sámsstöðum í Fljótshlíð. Haustið 1939 voru gripirnir sem til voru, flestir fluttir að Hvanneyri en þar dó kynið út að mestu, þótt það væri lífgað við þar síðar. Frá Hvanneyri höfðu þá verið seldir nautkálfar að Geldingalæk á Rangárvöllum og þaðan mun kynið hafa borist að Gunnarsholti á ný. Um tveggja ára skeið var Galloway-stofn einnig á Bessastöðum.

Upp úr 1972 var hafin bygging einangrunarstöðvar holdanauta í Hrísey eftir breytingu á lögum. Flutt var inn fryst sæði úr Galloway-nautum frá stöðinni Southbar í Skotlandi, fyrst í maí 1976, öðru sinni í febrúar 1978 og í þriðja skipti í júní 1987, 1100 strá úr 5 nautum samtals. Nautin höfðu verið vandlega rannsökuð, fyrst lifandi og svo eftir lógun áður en flutt var. Til Hríseyjar höfðu verið fluttar úr Mýrdal 20 kvígur. Tíu þeirra voru hreinar íslenskar en tíu Galloway-blendingar. Margs konar próf voru gerð á nautgripunum.

1994 voru fluttir til Hríseyjar í tveimur áföngum fósturvísar úr tveimur nýjum holdakynjum frá Danmörku, Aberdeen Angus og Limousin. Valdar höfðu verið kýr úr Mýrdal, Hvolhreppi og Rangárvöllum til að flytja í Hrísey. Ekki var nú lengur talið hættulaust vegna smitsjúkdóma að flytja inn sæði. Hins vegar var þá innflutningur fósturvísa talinn hættulaus. Seinna kom fram, að það er ekki heldur rétt. Sumar veirur geta borist með fósturvísum, þótt öllum vísindalegum ráðum sé beitt gegn því t.d. veiran sem veldur illkynjaðri slímhúðapest, bæði í nautgripum og sauðfé. Það má því kallast heppni að sá veirusjúkdómur barst ekki með fósturvísunum frá Danmörku. Í sauðfjárriðu, sem er náskyld kúariðunni berst smit með fósturvísum og blóði. Smitefnið finnst í hvítum blóðkornum. Sama gildir um hjartardýrariðu. Ósannað er að kúariðusmit berist með fósturvísum. Það hefur heldur ekki verið afsannað enn þá. Rannsóknir eru fáar og mælitæknin ófullkomin. Blóðið leikur um hvern vef líkamans.

Innflutningur 1994 á fósturvísum af holdanautakyni frá Danmörku hefur eftir á að hyggja verið óvarlegur. Þá hafði kúariða nýlega greinst í Danmörku í nautgrip innfluttum frá Bretlandi 1988.
Við megum víst þakka fyrir að hafa sloppið hingað til og ættum að gæta okkar betur eftirleiðis.

 

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...