Verð að komast, núna eða strax
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Á þorra og í síðasta lagi á góu á mínum uppvaxtarárum norður í landi kom á þessum tíma árs maður sá er nefndur var „ásetningsmaður“ eða „forðagæslumaður“. Það var starfsmaður sveitarinnar sem heimsótti alla bæi, vigtaði eitthvað af rollum og mældi heyforða.
Tímabilið frá þorra og fram á góu er nokkuð langt, en ekki var alltaf ferðaveður til að fara á milli bæja, ófærð mikil eða svo mikill klaki á vegum að varhugavert var að fara þá nema einna helst á skautum. Nú eru kröfur aðrar um að samgöngur verði að vera greiðfærar alla daga ársins nánast á öllum vegum vegna þess að allir vilja vera á áfangastað annaðhvort núna eða strax. Til að þetta sé hægt eru mokstursbílar og saltarar á ferðinni nánast allan sólarhringinn á verstu dögunum.
Mengun sem má ekki tala um
Aukin notkun á salti til að hálkuverja göturnar er að verða mesta mengunarvandamál landsins að mínu mati. Allar malbikaðar götur eru með bindiefni úr tjöru eða biki og þegar saltið kemur á blautt yfirborðið leysist tjaran upp í malbikinu. Þessi virkni verður enn hraðari þar sem matarolíu hefur verið blandað í malbikið og/eða tjöruna sem notuð er í olíumalarslitlag, en talsvert hefur verið um slíkar aðgerðir hér á landi. Þar harðnar bikið í raun aldrei og saltið og jafnvel sólarljósið eitt og sér, er fljótt að breyta því í olíudrullu.
Ef það er nógu hlýtt bráðnar snjórinn og saltblandaður vökvinn rennur eftir veginum undan halla vegarins. Á þessum olíublandaða vökva keyra bílar og olían eða tjaran loðir við dekkin á bílunum. Með þessa tjöruhúð á slitfleti dekkjanna missir bíllinn grip í snjó og hálku svo að nýju dýru vetrardekkin eru nánast gagnslaus út af tjörufilmunni.
Ef það er mikill kuldi þannig að snjórinn bráðnar ekki alveg, þá bíður tjörublandaður snjórinn örlaga sinna eftir að snjóruðningstæki komi og ryðji honum út fyrir veginn. Þar verður hann fram að næstu hláku sem skilar þá þessari menguðu blöndu út í jarðveginn við hliðina á veginum.
Saltpækillinn safnast upp í snjónum í vegköntunum og á gangstéttum.
Grátlegt að horfa upp á svona „umhverfishryðjuverk“
Mjög víða er byggt svo þröngt að gangstéttir liggja þétt við hlið akbrauta og af götunni kemur saltblandaður tjörusnjórinn upp á gangbrautirnar sem eyðileggur skó þeirra sem þar ganga. Undir skóna kemur sams konar tjara og annars safnast á dekk bíla. Þessi tjara berst inn í hús og híbýli manna og eyðileggur þar tepparenninga og parket svo eitthvað sé nefnt.
Að fara út að ganga með hund á svona gangstéttum er ekkert annað en dýraníð, því aumingja hundurinn brennur á löppunum af saltinu. Göturnar sem mest eru saltaðar má vel greina á loftmyndum síðsumars þar sem hvorki gras né annar gróður getur þrifist í vegkantinum. Það er vegna olíumengunar í jarðveginum sem kemur úr snjóruðningunum sem þar hlóðust upp yfir veturinn.
Hópmálsókn FÍB yrði kannski til þess að einhver færi að hugsa?
Síðustu fjögur ár hefur samkvæmt mínum upplýsingum aukist um mörg prósent á hverju ári saltsala til að bera á vegi. Þetta er farið að sjást verulega í aukinni bilanatíðni bíla þar sem skipta þarf um bremsubúnað í nýlegum bílum. Það er ekki óalgengt að verið sé að skipta einu sinni á ári um bremsubúnað í bílum sem mest eru keyrðir á stofnbrautum Reykjavíkur. Nú er alltaf verið að salta lengra og lengra út frá höfuðborginni með tilfallandi opnun á að undirvagnar bíla ryðgi enn meira. Í fréttum fyrir nokkru var greint frá því að Félag eldri borgara ætli í hópmál út af skerðingu bóta. Er kannski kominn tími til að FÍB fari í hópmál við „saltkónginn“ til að fá upp í kostnað félagsmanna við bremsudiskaskipti?
Einföld formúla sem allir læra í barnaskóla
Það er eins og allir séu búnir að gleyma því sem kennt var í eðlis- og efnafræði í barnaskóla. Salt leysir upp ótrúlegustu hluti og mýkir aðra, þegar það kemur á malbik losnar tjaran (olían). Eftir verður möl og fínn sandur sem bílar þyrla upp, sama hvort þeir eru á nöglum eða ekki. Þetta er kallað svifryk. Þegar olían og fínn malarsallinn eru farin í burtu verður eftir hola. Þá rankar kannski einhver við sér vegna þess að dekk og felgur skemmast og slíkt getur kostað mikla peninga. Mín skoðun er að saltið sé, eitt og sér, mesti óvinur malbiksins, en ekki nagladekkin. Á meðan enginn fræðimaður, mér fróðari í eðlis- og efnafræðum, sannfærir mig um annað, held ég mig við þessa skoðun mína. Að lokum, farið varlega, því í stað þorra og góu þá er nú yfirstandandi „holutíð“ – ekki satt, Hjálmar?