Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Að kaupa köttinn í sekknum
Af vettvangi Bændasamtakana 24. júlí 2023

Að kaupa köttinn í sekknum

Höfundur: Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Allir kannast við það að kaupa sér eitthvað, annaðhvort eitthvað sem þá vantar eða eitthvað sem þá langar í.

Vigdís Häsler.

Það er samt fátt leiðinlegra en að uppgötva svo þegar heim er komið og tekið er upp úr pokunum að maður keypti óvart eitthvað annað sem einvörðungu svipar til þess sem stóð til að kaupa – en alls ekki það sama. Maður var hreinlega að kaupa köttinn í sekknum.

Bændur hafa um nokkra hríð haft áhyggjur af merkingaróreiðu sem sé allsráðandi á búvörum; innflutt kjöt í umbúðum frá íslenskum kjötvinnslum með íslenska fánanum og innflutt grænmeti með íslenskum texta þótt upprunaland sé allt annað en Ísland. Þegar stóra samkeppnisforskot íslenskra búvara er uppruninn er til lítils að tala um samkeppnishæfni íslenskra afurða gagnvart innflutningi þegar þessi staða er uppi.

„Ég reyndi alltaf að kaupa bara erlent á öllum „íslenskt, já takk!“ dögum af því mér finnst hugmyndin um að ég eigi að versla við einhvern eingöngu vegna þjóðernis vera fráleit hugmynd,“ skrifaði einn í þráð á Twitter.

Þetta snýst ekki um þjóðrembing eða ófullnægjandi vöru. Þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þetta um réttindi neytenda á upplýstu vali og að fá það sem þeir telja sig vera að kaupa. Í Gallup-könnunum fyrir árin 2020–2022 um kauphegðun Íslendinga kemur fram skýr vilji landsmanna til að versla íslenskt. Það sé hins vegar upplifun margra að þeir séu blekktir til að kaupa innfluttar vörur vegna bágra merkinga. Þannig eru 72% óánægð með að erlendar kjötvörur séu seldar undir íslenskum vörumerkjum og 63% svarenda óska þess að innlendar matvörur verði upprunamerktar.

Drifkraftur neytenda

Mælingar Gallup síðustu ár benda til þess að meira en helmingur Íslendinga hafi breytt daglegum neysluvenjum sínum nokkuð eða mikið til að minnka umhverfisáhrif. Þá sýna tölur erlendis frá að hjá dagvöruframleiðendum er vöxturinn mikill hjá þeim sem selja sjálfbæra og umhverfisvæna vöru. Er þetta í takt við það sem kannanir erlendis sýna og eru neytendur reiðubúnir að greiða hærra verð fyrir umhverfisvænu vöruna. Allt eru þetta áherslur neytenda sem ná þvert á alla hópa og litlar breytingar eru á viðhorfi eftir t.d. aldri, menntun, búsetu eða kyni. Drifkraftur framleiðslunnar kemur þannig frá neytendum þar sem þarfir viðskiptavina munu til framtíðar ráða miklu um vöruúrval.

Þannig þurfi að tryggja betur rétt neytenda til upplýsinga um uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif matvæla, ásamt því að finna leiðir til að upplýsa neytendur og fyrirtæki betur um réttindi og skyldur. Það er sameiginlegt hagsmunamál neytenda, stjórnvalda, verslunarinnar, framleiðenda og innflytjenda að bæta enn frekar merkingar á matvælum og tryggja þannig betur rétt neytenda til upplýsinga, sérstaklega þegar neytendur vilja beina kaupum sínum að innlendri framleiðslu þar sem þeir telja sig nokkuð kunnuga um framleiðsluhætti innlendra búfjárafurða.

Þörf er á vottun

Í anda góðra tengsla milli framleiðenda og neytenda þarf að stefna markvisst að því að innleiða upprunamerkið Íslenskt staðfest á alla frumframleiðslu matvæla hér á landi og sem fylgir vörum gegnum framleiðslu og söluferli, því neytendur eiga skýlausan rétt á upplýsingum um uppruna og innihald matvæla; í verslunum, kjötborðum, á veitingahúsum og í mötuneytum.

Meðvitund og áhugi forsvarsmanna fyrirtækja og samtaka neytenda, um þær kröfur sem gerðar eru í löggjöf tengdri matvælum og rétti neytenda til upplýsinga, mætti þannig vera meiri. Því er eðlilegt að kröfurnar fái nánari kynningu, leiðbeiningar liggi fyrir, auk þess sem nauðsynlegt er að virkt eftirlit sé með framfylgd þeirra.

Neytendur eiga ekki að þurfa að sætta sig við að krydd á kjötsneið þurrki út þörfina á upprunamerkingu, en þannig var innleiðing á evrópsku reglunum um upprunamerkingar. Þess vegna hefur skapast þörf fyrir upprunamerki fyrir íslenskar búvörur. Sú viðurkennda vottun sem upprunamerkið Íslenskt staðfest felur í sér er mikilvægur liður í að tryggja áreiðanleika upplýsinga um matvæli.

Táknmynd Íslands
Lesendarýni 2. apríl 2025

Táknmynd Íslands

Hver skyldi myndin vera sem kemur upp í huga flestra útlendinga þegar Ísland er ...

Hringrásargarðar á Íslandi
Lesendarýni 1. apríl 2025

Hringrásargarðar á Íslandi

Hugmyndin um hringrásargarða hefur rutt sér til rúms sem leið að vistvænni iðnþr...

Tilhæfulaus fyrirgangur
Lesendarýni 27. mars 2025

Tilhæfulaus fyrirgangur

Að undanförnu hefur mikill fyrirgangur verið vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjór...

Vandi bænda í ESB
Lesendarýni 25. mars 2025

Vandi bænda í ESB

Landbúnaður í Evrópusambandinu stendur frammi fyrir miklum áskorunum sem ógna bæ...

Myglufaraldur í húsum
Lesendarýni 19. mars 2025

Myglufaraldur í húsum

Fréttir berast reglulega um myglu í húsum, jafnvel svo útbreidda, að rífa þurfi ...

Hvað er Gvendardagur?
Lesendarýni 14. mars 2025

Hvað er Gvendardagur?

Á liðnum árum og áratugum hafa slæðst inn í dagatal okkar dagar sem bera hin ýms...

Tækifæri í kolefnisjöfnun
Lesendarýni 13. mars 2025

Tækifæri í kolefnisjöfnun

Undanfarin ár hefur verið nokkur umræða um kolefnisjöfnun sem loftslagsaðgerð. B...

Vindmyllur fagfjárfesta eru óhagkvæmar
Lesendarýni 13. mars 2025

Vindmyllur fagfjárfesta eru óhagkvæmar

Á Íslandi eru nú plön um að reisa um 30 vindmyllugarða víðs vegar um landið í na...