Félagsmönnum BÍ fjölgað
Um 200 manns mættu á búgreinaþing 2023 sem var haldið 22. og 23. febrúar. Í setningu kom fram að rekstur Bændasamtakanna væri í járnum en sífellt væri leitað leiða til að efla og bæta reksturinn.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, sagði að meðlimum BÍ hafi fjölgað um 25% á milli ára og að það sé ánægjulegt og sýni að bændur almennt sjái hag sinn í því að vera í samtökunum.
Gunnar tiltók ýmis verkefni sem samtökin hafa unnið að undanfarna mánuði og þar á meðal mál sem snerta tryggingar bænda, heilsu þeirra og velferð.
Í samtali við Bændablaðið þegar leið á þingið sagðist Gunnar hafa góða tilfinningu fyrir þinginu og gangi þess.
„Þingið var drifið áfram af krafti og fulltrúar þess tóku virkan og málefnalegan þátt í umræðunum sem áttu sér stað. Vinna sem var unnin í aðdraganda búgreinaþingsins er að skila vandaðri vinnu inn á þingið og hér er verið að móta þær enn betur fyrir væntanlegt Búnaðarþing sem haldið verður 30. og 31. mars næstkomandi.“