Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Íslenska pönnukakan er menningarverðmæti.
Íslenska pönnukakan er menningarverðmæti.
Mynd / M. Draa
Af vettvangi Bændasamtakana 7. júlí 2023

Menningarverðmætin

Höfundur: Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Vigdís Häsler.

Að fara utan er þekkt þjóðaríþrótt þrátt fyrir forvarnarorð seðlabankastjóra. Ástæðan er að stórum hluta til veðrið en líka ákveðin upplifun, að komast úr hversdeginum og upplifa menningu, andrúmsloft og sérvisku áfangastaðarins.

Ilmurinn af nýju crêpes í París, rjúkandi pasta alla carbonara í Róm eða skreppa í „High Tea“ í London er hluti af þessari upplifun sem tugmilljónir ferðamanna leitast eftir á hverju ári og er hluti af aðdráttarafli viðkomandi áfangastaða.

„Vonir standa til að laufabrauðsgerð og sundlaugamenning á Íslandi verði viðurkennd sem menningarverðmæti á heimsvísu.“ Svo hófst frétt á RÚV sem birtist fyrr á árinu. Tilefnið var erindi sem menningar- og viðskiptaráðherra lagði fyrir ríkisstjórnina um að tilnefna þessa íslensku sérvisku á skrá UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Einhverjir gætu hafa brosað út í annað að menningarverðmæti hafi í huga okkar þróast frá skinnhandritum yfir í djúpsteikingarpottinn. En matur er menning og séríslenskir siðir skapa sögu og hefðir sem aftur búa til menningarverðmæti.

Viðhorfsbreytingar er þörf

Í ljósi stöðu efnahagsmála á Íslandi, þar sem rekstraraðilar veitingahúsa standa frammi fyrir hækkun á aðföngum, hækkandi fasteignaverði og hækkandi launakostnaði, eru fáir sem tileinka sér frasann: „Ég er reiðubúinn að greiða hærra fyrir íslenskar afurðir.“ Æ oftar heyrir maður það nefnt á hinn bóginn að veitingasalar telji sig einfaldlega ekki hafa efni á að bjóða upp á íslenskar vörur, séu þær yfirleitt dýrari en þær innfluttu, enda sé þetta „klink og aurabransi“ svo vitnað sé í góða vinkonu sem fer fyrir nýjum veitingastað hér í bæ. Sú er einstaklega fær í sínu starfi, brennur fyrir íslensk hráefni og íslenska matargerð en í samkeppni um viðskiptavini á hún ekki alltaf það val sem hún hefði viljað. Hér er þörf á viðhorfsbreytingu þar sem verslunin og veitingamenn þurfa að tileinka sér fremur: „Ég get ekki boðið eingöngu upp á erlent hráefni því þá kemur enginn ferðamaður.“ Staðreyndin er nefnilega sú að enginn kemur til Íslands til að borða carbonara eða nýsjálenska nautalund. Ferðamenn koma hingað til lands til þess að upplifa land og þjóð í gegnum okkar mat og okkar hefðir. Þeir koma hingað til þess að bragða á íslenskum mat og réttum úr íslenskum hráefnum og best væri auðvitað ef þeir gætu setið í heitapottinum á meðan þeir gæddu sér á, en það er önnur saga og önnur grein. Það væri frekar súrt að fara til Frakklands og fá ekki alvöru baguette sem þegar hefur hlotið náð fyrir augum UNESCO.

Undirmeðvitund þjóðar

Það er til lítils að tala um menningarverðmæti þjóðar ef efling landbúnaðar er þar ekki nefnd í sömu andrá, hvort sem er í stjórnarsáttmála eða í ræðum stjórnmálamanna á tyllidögum.

Jafnvel gæti verið nauðsynlegt fyrir okkur að stíga nokkur skref til baka, finna upprunann og kafa þar með ofan í undirmeðvitund þjóðarinnar og líta til þess að íslensk matvælaframleiðsla, landbúnaður, sjávarútvegur og frumframleiðsla annarra afurða, teljast til helstu menningarverðmæta íslensku þjóðarinnar.

Á Norðurlöndunum hefur landbúnaðarframleiðsla rækilega náð að festa sig í undirmeðvitund frændþjóða okkar. Í Svíþjóð hefur verið notast við upprunamerkinguna Från Sverige, í 21 ár, sem notuð er á nánast alla matvöru sem búin er til úr sænskum hráefnum. Þannig er það greypt í vitund sænskra neytenda að með því að velja sænska framleiðslu, eru þeir ekki eingöngu að leitast eftir bragðgóðum vörum heldur einnig heilnæmum og öruggum mat. Hljómar kunnuglega? Í Noregi nota framleiðendur matvæla þar upprunamerkið Nyt Norge sem á það sammerkt með sænska upprunamerkinu að vera vel greypt í undirmeðvitund og kauphegðun norskra neytenda, enda hefur neysla á kjöti og osti sem framleitt er í Noregi nærri því tvöfaldast á síðastliðnum 40 árum.

Hvað á að standa vörð um?

Ferðamenn sem sækja Ísland heim vilja ekki bragða á crêpes, þeir vilja íslenska pönnuköku og ekki er það verra að það sé fyrsta pönnukakan af pönnunni, og þá er ég að tala um þessa fyrstu, smjördreyptu pönnuköku sem heimilisfólkið hefur slegist um frá því samningar náðust um fullveldi Íslands. Ef kokkur nokkur á veitingastað í Modena á Ítalíu getur halað inn Michelin stjörnu fyrir rétt sem er að meginstefnu til hornskammturinn á lasagna og Ritz hótelið í London rukkað rúmlega 12.500 krónur fyrir teboð þá hlýtur það að liggja lóðbeint við að það er þjóðhagslega hagkvæmt að standa vörð um íslensku pönnukökuna og menningarverðmætin sem henni tengjast, enda á hún uppruna sinn í eldhúsinu hjá mömmu, á stórhátíðum, tyllidögum, útförum og afmælisveislum.

En þá þarf að standa vörð um íslensk hráefni og íslenska framleiðslu, án þess að hljóma of mikið eins og Guðni Ágústsson um íslensku sauðkindina, og þó. Íslensk matvæli eru svo sannarlega órjúfanlegur hluti af menningarverðmætum íslensku þjóðarinnar og okkar staðfesta framlag til heimsmenningarinnar þegar ferðamenn hvaðanæva úr heiminum sækja okkur heim og vilja bragða á mat úr íslenskum hráefnum Íslensk sérviska er nefnilega til útflutnings.

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata
Lesendarýni 29. nóvember 2024

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata

Það eru vissulega forréttindi að búa í sveit, ala upp börnin sín í faðmi náttúru...

Verum til vinstri – verndum náttúruna
Lesendarýni 28. nóvember 2024

Verum til vinstri – verndum náttúruna

Á meðan Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur staðið vörð um náttúruna og gæt...

Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu
Lesendarýni 28. nóvember 2024

Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu

Að vera bóndi getur verið félagslega einangrandi, sérstaklega ef aldrei er svigr...

Eignarhald bænda á jörðum tryggir hag þeirra best
Lesendarýni 27. nóvember 2024

Eignarhald bænda á jörðum tryggir hag þeirra best

Umræða um jarðir, jarðaviðskipti og kynslóðaskipti í landbúnaði er og á að vera ...

Landbúnaður í velsældarhagkerfi
Lesendarýni 27. nóvember 2024

Landbúnaður í velsældarhagkerfi

Landbúnaður í heiminum öllum stendur frammi fyrir umbyltingu vegna framfara í ræ...

Þjóðarsátt um landbúnað til framtíðar
Lesendarýni 26. nóvember 2024

Þjóðarsátt um landbúnað til framtíðar

Landbúnaður og matvælaframleiðsla er elsta athafnasemi íbúa landsins og önnur af...

Tryggjum nýliðun bændastéttarinnar
Lesendarýni 26. nóvember 2024

Tryggjum nýliðun bændastéttarinnar

Samkvæmt Stjórnarráði Íslands þá á „Ríkissjóður Íslands [á] alls um 450 jarðir o...

Fjandsamlegt vaxtaumhverfi
Lesendarýni 25. nóvember 2024

Fjandsamlegt vaxtaumhverfi

Áherslur lýðræðisflokksins í landbúnaðarmálum eru í stuttu máli sem hér segir.