Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Allt úr engu
Mynd / smh
Skoðun 24. mars 2017

Allt úr engu

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Þótt sumir vilji meina að Guð almáttugur hafi skapað heiminn úr engu, hefur samt enginn getað sýnt fram á  að nokkur hlutur eða verðmæti í mannheimum verði til úr engu. Nema það sé raunin um ógnargróða bankanna.  
 
Ríkissjóður gaf út sína fyrstu íslensku mynt árið 1922 og var gengi hennar skráð þann 13. júní sama ár. Síðan hefur ríkissjóður og Seðlabanki Íslands eftir stofnun hans 7. apríl 1961, farið með alla peningaútgáfu á Íslandi samkvæmt lögum sem Alþingi hefur sett. Samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands hefur hann einkarétt til þess að gefa út peningaseðla og láta slá og gefa út mynt eða annan gjaldmiðil sem geti gengið manna á milli í stað peningaseðla eða löglegrar myntar.
 
Já, mikið rétt, samkvæmt lögum fer Seðlabankinn með peningaútgáfuvaldið, en í raun er búið að framselja þetta vald þegjandi og hljóðalaust til bankanna í kjölfar tölvuvæðingar peningakerfisins. 
 
Talandi um að „kvótagreifar“ hafi fengið eitthvað gefins, þá er það í raun brandari og smámunir í samanburði við það sem viðgengst í peningakerfi landsmanna. Þótt hrópað sé í sölum Alþingis og á torgum um að taka eigi „eðlilegt“ gjald af þeim veiðirétti sem útgerðum landsins er veittur, þá heyrist ekki múkk um að leggja gjald á sjálftöku bankanna vegna útgáfu á rafmynt. 
 
Ekkert venjulegt fyrirtæki í landinu, ekki einu sinni útgerðirnar, fá sitt hráefni endurgjaldslaust. Alþingi og stjórnvöld hafa hins vegar látið það átölulaust að íslenskir bankar geti búið til sitt hráefni úr engu. Þeir geta gefið út rafkrónur til útlána og þegið fyrir það hátt afgjald, án þess að hafa nokkurn tíma greitt svo mikið sem eina krónu fyrir afnotaréttinn af rafkrónunum til Seðlabankans. Með öðrum orðum, bankarnir og stjórnendur þeirra eru orðnir ígildi Guðs almáttugs og búa til verðmæti úr engu með útgáfu rafpeninga sem enginn getur fest hendur á. Svo eru menn svo hissa á exeltölum um ofsagróða þessara stofnana.
 
Þessi peningaútgáfa byggir ekki á neinum raunverðmætum og er því ekki til í fræðilegum skilningi.
 
Rafpeningarnir eru því ekkert annað en sýndarverðmæti sem búin eru til í exelskjali. Til að búa til raunverðmæti sem bakka upp þessa útgáfu, taka bankarnir svo fyrirframgjald af lántakendum í formi vaxta, lántöku- og þjónustugjalda. Þar njóta þeir svo ótrúlegrar og dyggrar aðstoðar Seðlabanka Íslands og peningastefnunefndar sem hefur í fjölmörg ár tekið ákvörðun um ofurháa stýrivexti. Allt lýtur þetta svo samkvæmt lögum yfirstjórnar viðkomandi ráðherra. 
 
Þessir háu stýrivextir, sem nú eru 5%,  gera bönkunum kleift að rökstyðja ofurafgjald fyrir að lána krónur sem þeir eiga í raun ekkert í og hafa aldrei átt. Þeir búa bara til peninga sem Seðlabankinn hefur aldrei gefið út. Þannig verður til mikil þensla í þjóðfélaginu vegna flæðis og útgáfu peninga sem enginn hefur stjórn á. Seðlabankinn kyndir svo stöðugt undir öllu saman með ákvörðunum um hreint fáránlega háa vexti í stað þess að rukka bankana, eða öllu heldur, að stefna þeim fyrir dóm fyrir ólöglega útgáfu á íslenskum krónum. 
 
Til viðbótar hefur ofurvaxtahelstefna Seðlabankans þau áhrif að Ísland er með einhverja hæstu vexti í heimi. Eðlilega vilja erlendir fjárfestar ekki fara út úr slíku umhverfi á meðan hægt er að græða óstjórnlega á þeim vaxtamun sem það gefur. Það þýðir svo að krónan rýkur upp í verðgildi sem engin innistæða er fyrir. Eitt er samt öruggt – mismunurinn verður auðvitað á endanum sóttur í ykkar vasa, kæru lesendur.
Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...