Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Alþingi og búvörusamingar
Mynd / smh
Skoðun 8. september 2016

Alþingi og búvörusamingar

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Alþingi hefur samþykkt frumvarp um búvörusaminga við 2. umræðu. Við afgreiðslu málsins frá atvinnuveganefnd stóð stjórnarmeirihlutinn einn að áliti meirihlutans en stjórnarandstöðuþingmenn í nefndinni skiluðu hver sínu áliti og breytingatillögum. Við atkvæðagreiðsluna þann 1. september sl. voru breytingatillögur meirihlutans samþykktar en tillögur minnihlutanna felldar.  Stjórnarandstaðan greiddi þó ekki atkvæði gegn samningnum sjálfum en sat hjá.
 
Jafnframt hefur meirihluti utanríkismálanefndar afgreitt þingsályktunartillögu um tollasamning Íslands og ESB. Meirihlutinn leggur til að samningurinn verði samþykktur. VG skilar eitt minnihlutaáliti og vill vísa samningnum til ríkisstjórnarinnar.
 
Leitt að ekki náðist breiðari samstaða
 
Það eru vonbrigði að ekki tókst að afgreiða búvörusamningana í atvinnuveganefnd með breiðari samstöðu. Það er búið að fara mjög ítarlega yfir málið og koma til móts við margar athugasemdir og því er það afar leitt að þingmenn stjórnarandstöðunnar í nefndinni treystu sér ekki til að standa að afgreiðslu málsins.
 
Ýmislegt sem meirihluti nefndarinnar hefur skerpt á og lagað er ágætt, en annað er síðra. Fagna ber sérstaklega áherslum nefndarinnar á upplýsingagjöf til neytenda og upprunamerkingar. Það hefur sýnt sig í könnunum að 8 af hverjum 10 Íslendingum finnast þessi atriði skipta miklu máli.
 
Meirihlutinn lagði upp með að fyrstu þrjú ár samninganna yrðu staðfest og mörkuð framtíðarsýn til tíu ára. Í okkar huga er verið að marka ramma til 10 ára. Endurskoðunin 2019 er í samræmi við samninginn og því eðlilegt að setjast við samningaborðið aftur þá. Það stóð alltaf til, sem og árið 2023.
 
Meirihlutinn leggur til nýja aðferð við mótun landbúnaðarstefnunnar. Myndaður verði samráðsvettvangur stjórnvalda, bænda, neytenda, afurðastöðva, launþega og atvinnulífs um landbúnaðarstefnuna, en endanleg samningagerð áfram milli bænda og ríkisins. Dregin eru fram níu tölusett markmið sem fara á yfir við endurskoðunina 2019. Þau er hægt að taka undir. Þar er m.a. fjallað um aukna upplýsingagjöf eins og áður er getið, umhverfismál, afkomu bænda, greiningu á sérstöðu íslensks landbúnaðar og fleira. Bændur vænta uppbyggilegra umræðna um þau á hinum nýja samráðsvettvangi. Við væntum þess jafnframt að þeir sem koma að því borði hafi það að markmiði að efla íslenskan landbúnað til framtíðar litið.
 
Í áliti meirihlutans eru birtar tillögur tollahóps landbúnaðarráðherra sem hann skipaði til að meta áhrif tollasamnings sem stjórnvöld gerðu við ESB í september 2015 sem og nýrra krafna um aðbúnað dýra. Starfshópurinn gerði sameiginlegar tillögur um aðgerðir. Meirihlutinn treysti sér þó ekki til að styðja þær nema að hluta. Það eru mikil vonbrigði.  Tillögur hópsins voru sanngjarnar og bændur telja að þær þurfi að komast í framkvæmd, enda hefur tollasamningurinn veruleg áhrif á rekstrarumhverfi landbúnaðarins.
 
Tollkvóta á osti úthlutað með hlutkesti
 
Lagt er til að tollkvóta fyrir upprunamerktan ost frá ESB verði úthlutað með hlutkesti og geti enginn einn fengið meira en 15% kvótans, en ekki verði greitt fyrir hann. Þetta hámark verður vonandi til að sporna við þeirri fákeppni sem er staðreynd á íslenskum smásölumarkaði.  Bændur gagnrýna þó harðlega að lagt sé til að framangreindur tollkvóti sé opnaður að fullu af Íslands hálfu strax á fyrsta ári, en ekki í áföngum eins og samið var um.  Hér er tekin einhliða ákvörðun án þess að nokkuð komi á móti af hálfu ESB. Opnun á tollkvóta fyrir skyr inn á markað ESB verður ekki flýtt. Þarna er hagsmunum Íslands fórnað fyrir hagsmuni heildsala.
 
Dregið er úr fyrirhugaðri leiðréttingu á tollum mjólkurvara sem samið var um. Það er gert með því að miða við gengisþróun í stað verðlagsþróunar. Tollarnir taka síðan árlegri breytingu í samræmi við gengisþróun.
 
Meirihluti nefndarinnar leggur til að öllum ákvæðum um nýtt fyrirkomulag um verðlagningu á mjólk verði frestað. Eldra verðlagningarfyrirkomulag mjólkur er látið haldast óbreytt fram yfir endurskoðun og ákvæði um nýtt fyrirkomulag felld úr frumvarpinu. Þetta er veruleg breyting, en skiljanleg þar sem að meiri tíma þarf til undirbúnings. Þessi tillaga heggur mjög nærri samningstextanum sjálfum, einkum þar sem ákvæðin eru ekki látin standa í frumvarpinu án þess að taka gildi, heldur felld út.
 
Þá er lagt til að MS verði skylt að selja öðrum vinnsluaðilum allt að 20% af innlagðri mjólk hverju sinni á heildsöluverði. Það snertir ekki samningstextann og verður vonandi til að hvetja til enn fjölbreyttara vöruframboðs úr innlendri framleiðslu. Gert er jafnframt ráð fyrir því að minni úrvinnslufyrirtæki fái áheyrnarfulltrúa í verðlagsnefnd. 
 
Jafnframt er lagt til í álitinu að ákvæði um niðurfellingu greiðslumarks falli niður þar til að lokinni endurskoðun. Það verður að setja alvarlegan fyrirvara við það gagnvart samningstextanum. Betra hefði verið að fresta gildistöku ákvæðisins og nefndinni var ítrekað bent á það.
 
Öflugu markaðsstarfi haldið áfram
 
Meirihlutinn lagði til að ýmis atriði sauðfjársamningsins verði skoðuð sérstaklega við útfærslu þeirra, m.a. staða nýliða, svæðisbundinn stuðningur og fleira. Það eru allt ábendingar sem eðlilegt er að fara vel yfir. Nauðsynlegt er að vinna áfram af krafti að því öfluga markaðsstarfi sem hafið er gagnvart erlendum ferðamönnum og kröfuhörðum mörkuðum í útlöndum til að ná markmiðum samningsins um afurðaverðshækkun. Staða sauðfjárræktarinnar er hins vegar mjög alvarleg nú í haust eins og nánar kemur fram annars staðar í blaðinu. Ræða verður þá stöðu út frá gildandi sauðfjársamningi, en ekki þeim sem ekki hefur tekið gildi.
 
Það er mikilvægt að málið verði klárað. Allar atvinnugreinar þurfa að búa við stöðugleika svo þær geti sótt fram og brugðist við nýjum aðstæðum. Bændur standa frammi fyrir miklum áskorunum, bæði vegna aukins innflutnings og líka vegna aukinnar áherslu bænda á að bæta allan aðbúnað húsdýra. Til þess að hægt sé að mæta þeim þarf að eyða óvissu. Þá skiptir líka máli að við förum inn í nýja gerð búvörusamninga en byggjum ekki áfram á grunni samninga sem gerðir voru fyrir meira en áratug eins og sumir hafa lagt til. Lengstu gildandi samningar hafa gilt lítt breyttir í 15 ár í lok þessa árs. Tímarnir hafa breyst og bændur þurfa að geta brugðist við nýjum tímum.
 
Atvinnuveganefnd tók málið aftur til skoðunar á milli 2. og 3. umræðu. Þegar þetta er skrifað er ekki ljóst hvort hún mun leggja til enn frekari breytingar.  Mestu máli skiptir nú að ljúka málinu svo hægt sé að fara að undirbúa gildistökuna af fullum krafti. 
Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...