Eignaupptaka
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Stórþjófnaður á eigum landsmanna er framinn á hverjum einasta degi. Á því hefur lítil breyting orðið eftir efnahagshrunið 2008 þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar stjórnmálamanna. Það eina sem hefur breyst er að þjófnaðurinn er kallaður öðrum nöfnum líkt og stýrivextir Seðlabanka Íslands.
Enn fær Seðlabankinn að valsa um í brothættu samfélagi eins og fíll í glervörubúð. Hann heldur uppi stýrivaxtastigi sem leitt hefur til stórkostlegrar eignaupptöku hjá öllum almenningi, en til mikilla hagsbóta fyrir fjármagnseigendur. Þar á ofan lúrir verðtryggingin sem mun hirða upp enn meiri eignir með leifturhraða þegar verðbólgan fer af stað á nýjan leik.
Stjórnvöld hafa lýst því yfir að endurskoða eigi peningastefnuna. Fátt bendir þó til annars en að þau orð séu bara sett fram til að drepa umræðuna. Líkt og gert hefur verið með góðum árangri í fjölda ára. Er nema vona að traust á þinginu sé lítið og að fólk spyrji sig hvort þar sé einungis að finna varðhunda fjármagnseigenda.
Heil 5% í stýrivexti sem Seðlabankinn reynir nú að fela undir nafninu „meginvextir“ er ekkert annað en glæpur gegn almenningi. Vaxtataka Seðlabanka eru meginrök bankanna til að réttlæta innheimtu enn hærri vaxta. Samt eru bankarnir ekki að greiða Seðlabankanum nokkurn skapaðan hlut fyrir afnot af peningum. Heldur búa þeir til peningana með ólöglegum hætti rafrænt án þess að stjórnvöld hreyfi legg né lið til að stöðva þau lögbrot.
Við hlið bankanna starfa lífeyrissjóðir sem eiga að heita í eigu almennings. Lífeyrissjóðirnir nýta sér í botn brotastarfsemi bankanna og byggja sína innheimtu á sambærilegri vaxtakröfu. Þar er valsað um sali af fólki á nákvæmlega sömu forsendum og gert er í öðrum fjármálastofnunum. Hagsmunir almennings skipta þar í raun engu máli því sjóðirnir eru miskunnarlaust notaðir með hagsmuni fjármagnseigenda að leiðarljósi.
Firnahá ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna og allt tal um að hún sé til að tryggja auknar lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga í framtíðinni er í besta falli hvít lygi. Innheimtar lífeyrisgreiðslur sem almenningur hefur litið á sem sjóðsöfnun til elliáranna er ekkert annað en skattheimta. Gegnumstreymiskerfi væri því ekkert verra fyrir almenning. Svokölluð áunnin sjóðsréttindi eru nú notuð til að skerða lögbundna tekjutryggingu frá ríkinu. Það eru hins vegar fjármagnseigendur og fjármálabraskarar sem græða gríðarlega á tilurð sjóðanna á kostnað almennings.
Talandi um ólöglegu rafrænu myntframleiðsluna má spyrja sig af hverju bankarnir noti ekki bara hugarburðargjaldmiðilinn Bitcoin í stað rafkrónu? Bæði rafkrónan og bitcoin eru tilbúningur án raunverðmætis. Bitcoin er ekki gefið út af bönkum eða einstaklingum, en hægt er að eignast myntir með „námavinnslu á Netinu“, eins og ef um verðmætan málm væri að ræða. Sem sagt allt í plati í sýndarveruleika. Bitcoin er aðallega notað í viðskiptum á Netinu og viðurkennt að það sé stundum í „ólöglegum tilgangi“. Sem dæmi þá hafa glæpamenn sem hafa hakkað sig inn í tölvukerfi hér á landi og tekið gögn í gíslingu, heimtað lausnargjald í bitcoin, en ekki í dollurum eða evrum. Með því komast þeir framhjá öllum rekjanleika og lagaverki í viðkomandi ríkjum. Nákvæmlega sama á við um ólöglegu rafkrónurnar. Það kerfi er rekið fyrir utan við lög og rétt af bankastofnunum sem eru að mestu leyti í eigu íslenska ríkisins og því undir verndarvæng Alþingis. Í alvöru kæru alþingismenn, – finnst ykkur þetta bara allt í lagi?