Innviðaásælni
Aðfaranótt fyrsta vetrardags var gengið frá sölu á ljósleiðaraneti Mílu frá Símanum til franska sjóðstýringafélagsins Ardian fyrir 78 milljarða króna. Mörgum hryllir við þessari sölu á innviðum Íslendinga til útlendinga og spyrja má hvort ekki sé komið fordæmi fyrir rökréttu framhaldi á sölu annarra íslenskra innviða.
Í ljósi innleiðinga á reglugerðum ESB og minni takmarkana á viðskiptum yfir landamæri, er sannarlega búið að gefa færi á að opna gáttir í þessa veru. Sala á raforkukerfi Landsnets lýtur t.d. í raun ekkert öðrum lögmálum en salan á Mílu. Uppskipti á Landsvirkjun í minni einingar myndi örugglega líka leiða til sömu niðurstöðu á þeim bæ, þótt stjórnmálamenn þræti fyrir það núna að slíkt sé á döfinni.
Samgöngukerfið er af sama meiði. Víða um lönd eru hluti þjóðvegakerfisins í höndum einkaaðila, eins og ferðamenn hafa kynnst eftir akstur í gegnum ótal vegtollahlið. Það er ekkert sem segir að ekki sé hægt að selja íslenska vegakerfið með sama hætti. – Þá spyrja sumir, er ekki bara fínt að fá erlent fjármagn inn í íslenska hagkerfið? – Því er vissulega að hluta hægt að svara játandi, en við getum um leið fullvissað okkur um það, að enginn alvöru fjárfestingasjóður fer að fjárfesta í svona innviðakerfum nema að ætlunin sé að hagnast á því.
Ekki er ólíklegt að með vaxandi ferðamannastraumi þyki erlendum áhættufjárfestum fýsilegt að kaupa hluta vegakerfisins og innheimta gjöld fyrir notkun þess. Þegar menn eru komnir með eignarhaldið á vegum í hendur eru menn í raun komnir í einokunaraðstöðu og geta stillt notendum upp við vegg. Ætli erlendir áhættufjárfestar hafi þá sérstakan áhuga á að viðhalda vegum á óarðbærum fáfarnari slóðum, svo ekki sé talað um sveitavegina? – Við sjáum bara hvað er að gerast með Póstinn sem gefur landsbyggðinni nú langt nef. Samt er fyrirtækið enn í eigu ríkisins en skýlir sér á bak við einkahluthafavæðingu og EES-reglur sem gerir stjórnmálamennina stikkfrí.
Veiðiár landsmanna og jarðir eru undir þessum sama hatti. Við erum þegar búin að selja fjölda þeirra ásamt landi sem að þeim liggur. Jim Ratcliffe hefur nú í hendi sér hvað verður um að minnsta kosti átta laxveiðiár og landið þar í kring. Þó hann sé einn ríkasti maður Bretlands þá verður hann ekki eilífur og hver veit þá í hvaða hendur þetta land og þessar ár rata? Fleiri erlendir milljarðamæringar eiga líka landareignir hér á landi, ýmist í eigin nafni eða í gegnum íslenska leppa.
Hvað er oft búið að fullyrða að svona gerist hlutirnir ekki og að slíkt verði aldrei því Alþingi hafi alltaf síðasta orðið? Málið er bara að Alþingi hefur einmitt haft síðasta orðið í að skapa grunninn að þessum möguleika með viðbótarinnleiðingu regluverks sem einhliða er kokkað upp af lögfræðingum í Brussel. Reglugerðarinnleiðing sem aldrei var samið um þegar EES-samningarnir voru gerðir árið 1994. Svo er hin íslenska Orkustofnun orðinn varðhundur hinnar evrópsku orkueftirlitsstofnunar ACER (The European Union Agency for the Cooperation of Energy Regulators). Þannig mun Orkustofnun passa vel upp á að frekari innleiðing regluverksins gangi snurðulaust fyrir sig.
Spurningin er hvort að í öllum þessum innleiðingum á regluverki hafi þingmenn haft hugmynd um hvað þeir í raun voru að samþykkja. Létu þeir kannski flokkshollustu og hagsmunavörslu einkaaðila úti í bæ ganga framar þjóðarhag í sinni afgreiðslu? – Hvenær hefur þjóðin verið spurð um sinn vilja í þessum málum?