Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ekki mælt með að borða nema í allra mesta lagi eitt egg á dag í drögum að nýjum norrænum næringarráðleggingum. Sagt að meiri neysla eggja geti verið óholl vegna kólesterólsinnihalds þeirra, þó sú mýta sé fyrir löngu afsönnuð.
Ekki mælt með að borða nema í allra mesta lagi eitt egg á dag í drögum að nýjum norrænum næringarráðleggingum. Sagt að meiri neysla eggja geti verið óholl vegna kólesterólsinnihalds þeirra, þó sú mýta sé fyrir löngu afsönnuð.
Mynd / Cala
Leiðari 28. apríl 2023

Egg og baunir

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir, ritstjóri

Fæðuöryggi og framtíð norrænnar matvælaframleiðslu er í húfi ef drög að nýjum norrænum næringarráðleggingum (NNR) verða að veruleika.

Það er meðal þess sem kemur fram í aðsendri grein Erlu H. Gunnarsdóttur, samskiptastjóra BÍ og tengiliðs við hóp norrænu bændasamtakanna, í Morgunblaðinu laugardaginn 22. apríl sl. Þar kemur fram að norrænu bændasamtökin sjái ýmsa ámælisverða vankanta á grundvelli næringarráðlegginga.

Næringarviðmið landlæknis byggja á þeim norrænu, en þau eru m.a. grundvöllur opinberra innkaupa. Þess vegna hafa téðar ráðleggingar gífurleg áhrif á neyslu og þar með almenna lýðheilsu hér á landi. Miðað við áhrifavald þessa plaggs, sem telur í dag 196 síður, ætti að geta búist við því að þær byggðu á áreiðanlegri þekkingu frá okkar allra færustu fagmönnum. En svo virðist ekki vera.

Erla hafði áður skrifað um efnið í jólablaði Bændablaðsins. Þar kom fram að í stað þess að fá þar til gerða sérfræðinga og vísindastofnanir í samstarf við gerð þýðingarmikilla hluta ráðanna, sem snýr að sjálfbærni, hafi bresk hugveita verið sett í verkið. Sú hugveita beitir sér fyrir róttækum breytingum á matvælakerfi, m.a. með því að breyta landbúnaðarsvæðum í búsvæði með villtum dýrum, skógi og grænmetisræktun. Sá kafli sem hugveitan skrifar grundvallar ýmsar róttækar neyslubreytingar sem lagt er upp með. Heilt yfir virðast drögin ekki byggja á landfræðilegum möguleikum landa á norðurhjara veraldar til matvælaframleiðslu, frekar hugmyndafræðilegum áróðri.

Þannig hafa norrænu bændasamtökin gagnrýnt skort á vísindalegri aðferðafræði og gagnsæi við vinnu þeirra.

Þegar drepið er niður í kafla um kornneyslu kemur á óvart að þar sé fullyrt að kornframleiðsla sé byggð upp á ósjálfbæran hátt, framleiðslumagn sé langt umfram það sem þurfi til að fæða menn og að „afgangurinn“ sé notaður í dýrafóður, lífeldsneytisframleiðslu og fleira. Eftirspurn sem myndast geti við slíka notkun stuðlað að skaðlegum umhverfisáhrifum kornframleiðslu. Ekki virðist vera skilningur á því að korn til manneldis þarf að ná ákveðnum þroska til að uppfylla neyslukröfur. Af einmitt þeirri ástæðu er uppistaða kornframleiðslu á norðurhjara veraldar nýtt sem fóður.

Þar að auki er ekki mælt með að borða nema í allra mesta lagi eitt egg á dag. Sagt að meiri neysla eggja geti verið óholl vegna kólesterólsinnihalds þeirra, þó sú mýta sé fyrir löngu afsönnuð. Þegar skoðaðar eru þær rannsóknir sem vísað er til í skýrslunni er nákvæmlega það staðhæft; að takmörkuð gögn séu til um tengsl milli neyslu á fleiri en einu eggi á dag og hættu á sjúkdómum. Því er væntanlegt neysluviðmið furðulegt í meira lagi.

Þá er mælt með verulegum samdrætti á neyslu á rauðu kjöti, úr 500 g niður í 350 g á viku. Jákvæð áhrif dýraafurða á lýðheilsu fá afar lítið vægi þrátt fyrir að margar rannsóknir sýni neyslu þess stuðla að upptöku járns, prótíns og vítamína. Samkvæmt drögunum á minna kjötát að vera bætt upp með verulegri neyslu á belgjurtum, talað er um jákvæð áhrif þess að neyta 100 g á dag til að ná fram næringarviðmiðum. Núverandi neysla belgjurta er að meðaltali 2 grömm.
Aðstæður landa á norðurhjara veraldar til stórtækrar baunaræktar er takmörkuð. Við nýtum jarðgæði landsins fyrir búfé, sem breytir grasi – sem ekki er aðgengileg fæða fyrir menn – í kjöt, sem er góð staðbundin næring og ein af undirstöðu fæðuöryggis landsins.

Norsku Bændasamsamtökin hafa reiknað út að ef farið verði eftir hinum nýju næringarráðum muni sjálfsnægt Noregs minnka úr 46% niður í 28%, próteinhlutfall innlendrar framleiðslu falla úr 64% niður í 38%. Þessu þurfi að mæta með innfluttum matvælum sem veikir sjálfbærni þjóðarinnar. Hvernig ætli slíkir útreikningar horfi við hugveituhöfundunum?

Öll þessi fæðuhugtök
Leiðari 11. mars 2025

Öll þessi fæðuhugtök

Undanfarinn mánuð hefur umfjöllun um matvæli verið skreytt ýmsum keimlíkum orðum...

Átök vegna osta
Leiðari 21. febrúar 2025

Átök vegna osta

Landbúnaður virðist ekki eiga sér viðreisnar von þessa dagana. Bændur eru skelka...

Áreiðanleiki gagna og upplýsandi umræða
Leiðari 24. janúar 2025

Áreiðanleiki gagna og upplýsandi umræða

Bændablaðið er mest lesni prentmiðill landsins annað árið í röð skv. nýjum niður...

Bændablaðið í 30 ár
Leiðari 10. janúar 2025

Bændablaðið í 30 ár

Í mars verða þrjátíu ár síðan Bændablaðið kom fyrst út undir merkjum þá nýstofna...

Bændur, blaðið og skörungar
Leiðari 27. desember 2024

Bændur, blaðið og skörungar

Lognmolla er eitthvað sem á sér aldrei stað í landbúnaði. Atvinnugreinin er hrin...

Kjöt og kosningar
Leiðari 22. nóvember 2024

Kjöt og kosningar

Eftir nokkra daga mun þjóðin velja þá sem sitja á Alþingi næstu fjögur ár. Kosni...

Lágmarkskröfurnar
Leiðari 11. október 2024

Lágmarkskröfurnar

Tíunda grein laga um velferð dýra fjallar um getu, hæfni og ábyrgð umsjónarmanna...

Að vernda landbúnaðarland
Leiðari 1. október 2024

Að vernda landbúnaðarland

Margir tengja Hornafjörð við kartöflur enda eru þar mikil og góð ræktarsvæði sem...