Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Áminning til kartöflubænda
Lesendarýni 25. mars 2015

Áminning til kartöflubænda

Höfundur: Sigurgeir Ólafsson, plöntusjúkdómafræðingur
Fjöldi þeirra skaðvalda sem fundist hafa á kartöflum hér á landi er nálægt tveim tugum, veiru-, bakteríu- og sveppa­sjúkdómar auk mein­dýrs­ins kartöfluhnúðorms. Skað­valdar þessir eru miserfiðir við að eiga og margir þeirra hafa náð almennri út­breiðslu og ber að líta á sem hvert annað gæðavandamál. 
Ég ætla hér einungis að minna á tvo skaðvalda sem enn hafa takmarkaða útbreiðslu en gætu hæglega breiðst frekar út ef ekki er gætt varúðar, annars vegar hringrot og hins vegar kartöfluhnúðorm.
 
Hringrot
 
Hringrot er bakteríusjúkdómur sem barst hingað með innfluttu útsæði á árunum 1982–1985. Skaðvaldurinn er bakterían Clavibacter michiganensis subsp. sepedonicus. Sjúkdómurinn barst hratt út með yrkinu Premiere, sem var nýtt og spennandi og fór manna á milli. Um 1990 fannst hann í innlendu stofnútsæði sem varð til þess að stofnræktin var lögð niður og ný stofnræktun hafin með nýjum útsæðisstofnum. Þótt mörgum ræktendum hafi tekist að losa sig við smit finnst það enn á nokkrum stöðum í öllum landshlutum og án efa víðar en menn hafa vitneskju um.
 
Liðið geta mörg ár frá því að smit berst og þar til fyrstu kartöflur með einkennum sjást. Bakterían getur verið til staðar í kartöflunum án þess að nokkur einkenni sjáist en samt getur kartaflan smitað vélar sem hún skaddast á og sem útsæðiskartafla smitar hún allt sem undan henni kemur. Einkennin koma fram í leiðsluvefnum sem myndar hring utarlega í kartöflunni. Hringurinn verður dökkgulur eða brúnleitur, verður laus í sér svo að rifa myndast og má þá kreista út úr honum bakteríuslím. Öll kartaflan getur síðan rotnað. Oft sést ekkert utan á kartöflunni og þarf að þverskera hana til að  sjá einkennin. Þegar útbreiðsla hringrots var mest var dæmi um að fjórðungur uppskerunnar væri með slíkum innri einkennum.
 
Það sem menn þurfa einkum að varast er aðfengið útsæði, vélar og notaðar umbúðir. Ekki skal setja niður matarkartöflur heldur einungis kartöflur sem eru viðurkenndar sem útsæði. Matvælastofnun á að taka sýni hjá þeim sem eru með útsæðisleyfi og leita að duldu smiti. Með vélum er átt við vélar sem komast í beina snertingu við kartöflurnar s.s. niðursetningarvélar, upptökuvélar og flokkunarvélar. Gæta þarf varúðar við kaup á notuðum vélum og við allri samvinnu ræktenda með vélar. Ræktendum sem hafa vitneskju eða grun um að hjá þeim sé hringrotssmit  ber að tryggja að smit berist ekki frá þeim til annarra ræktenda.
 
Kartöfluhnúðormur
 
Hnúðormurinn fannst hér fyrst árið 1953 en var þá þegar orðinn útbreiddur í Reykjavík og víða um land. Lítið fór fyrir honum eftir að kólnaði upp úr 1960 en þegar hlýnaði aftur virðist hann hafa dafnað á ný og við úttekt sem gerð var 1995 kom í ljós að hann var mjög útbreiddur víða í garðlöndum á höfuðborgarsvæðinu og víðar á Suðurlandi en á Norðurlandi í flestum heitum görðum. Enn hefur hann ekki fundist hjá þeim sem stunda kartöfluræktun í atvinnuskyni heldur eingöngu í heimilisræktun. 
 
Hnúðormurinn er þráðormur, sem leggst á rætur kartöflujurtarinnar og dregur úr hæfni hennar til upptöku vatns og næringar. Hér eru 2 tegundir, Globodera rostochiensis og G. pallida. Síðla sumars myndast hvítir kúlulaga hnúðar á rótunum, um 1 mm í þvermál, eins og litlar perlur. Hnúðarnir eru kvendýr sem sitja með höfuðið inni í rótinni en búkurinn (hnúðurinn) fyllist af eggjum. Eggin eru í reynd 1. stigs lirfa innan í egghulstri. Kvendýrin deyja og búkur þeirra verður brúnn og myndar leðurkennt hylki utanum eggin. Þessir hnúðar fara út í jarðveginn og geta klakið út lirfum jafnvel næstu 20 árin þótt kartöflur séu ekki ræktaðar. 
 
Í köldustu árum er á mörkum að hnúðormurinn nái fullnægjandi þroska hér á landi, í það minnsta á Norðurlandi. Ekki er vitað um hnúðorm fyrir norðan nema í görðum með jarðhita en í mörgum þeirra hefur hann fundist. Á Suðurlandi hefur hann fundist víða í köldum görðum. Ef lítið er af hnúðum á rótum og ef nægur raki og næring er til staðar í jarðveginum þarf ekkert að sjást á grösum og uppskera getur verið fullnægjandi. Ef mikið er af hnúðum geta skortseinkenni komið fram á grösum, þau gulna og jafnvel visna á miðju sumri. Hér er algengt að ræktað sé í sama garði ár eftir ár jafnvel í áratugi og við slíkar aðstæður getur hnúðormur magnast upp á fáum árum svo ræktun verði ekki lengur arðbær. Sums staðar erlendis er bannað að rækta kartöflur í sama garðlandi oftar en þriðja eða fjórða hvert ár til m.a. að sporna við fjölgun hnúðorms. 
 
Með hlýnandi veðurfari má reikna með að hnúðormur geti þrifist um allt land í köldum sem heitum görðum og verði meira vandamál en hingað til. Smit er víða til og því talsverð hætta á að hnúðormur geti breiðst út með jarðvinnslutækjum og þeim jarðvegi sem loðir við útsæði. Reikna má með að hnúðar geti fokið með jarðvegsfoki milli nærliggjandi garða. Með því að nota einungis útsæði frá stofnrækt eða útsæðisleyfishöfum er minni hætta á að menn fái til sín hnúðorm. Kartöflubændur ættu að varast að setja niður kartöflur úr heimilisræktun eða innfluttar sem innlendar matarkartöflur. Veruleg hætta er á að hnúðormur fylgi óþvegnum erlendum matarkartöflum. Einnig ættu þeir að varast að jarðvinnslutæki sem notuð hafa verið í heimilisgörðum eða garðlöndum sveitarfélaga fari í þeirra garða. Ef hnúðormur berst í garð má reikna með að garðurinn beri smit næstu tvo áratugi jafnvel þótt hann sé hvíldur af kartöfluræktun. 
 
 
 
Sjá nánar:
Sigurgeir Ólafsson (1985). Hringrot. Nýr kartöflusjúkdómur á Íslandi. Freyr 81 árg. (8), s. 300-302.
Sigurgeir Ólafsson (1998). Kartöfluhnúðormur enn í fullu fjöri. Morgunblaðið 22. apríl 1998, s. 29.
Sigurgeir Ólafsson (2012). Hringrot í kartöflum er stöðug ógn. Bændablaðið 16. febrúar 2012, s. 22.

3 myndir:

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...