Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Nýr vettvangur
Mynd / HKr.
Leiðari 21. apríl 2015

Nýr vettvangur

Höfundur: Sigurður Eyþórsson
Formaður BÍ, sem venjulega ritar leiðara blaðsins, lét mér það eftir í þetta sinn í ljósi þess að ég tók um síðustu mánaðamót til starfa sem framkvæmdastjóri samtakanna. Ég er ekki ókunnugur samtökunum eftir nær átta ára starf í Bændahöllinni fyrir Landssamtök sauðfjárbænda, Markaðsráð kindakjöts og reyndar líka Bændasamtökin.
 
Það er mikil ábyrgð að takast þetta verkefni á hendur og ég mun gera mitt besta til að rísa undir því og leggja mig fram um að eiga gott samstarf við aðildarfélög Bændasamtakanna og bændur almennt. Hjá samtökunum starfar gott starfsfólk sem býr yfir mikilli þekkingu á landbúnaðinum og starfsumhverfi hans.
 
Fjölþætt starfsemi
 
Starfsemi Bændasamtakanna er fjölþætt. Allir sem þetta lesa þekkja auðvitað Bændablaðið sem samtökin hafa gefið út í rúm 20 ár en blaðið sjálft á sér lengri sögu. Blaðið er ákaflega mikilvæg rödd bænda og landsbyggðar og nýtur trausts sem best sést á því hvað það nær til margra. Á sama sviði er jafnframt umsjón með almennu kynningar- og fræðslustarfi Bændasamtakanna eins og verkefninu Opnum landbúnaði og átaksverkefnum svo sem um vinnuvernd í landbúnaði sem núna er í gangi.
 
Tölvudeild samtakanna er fjölmennasta deild þeirra og þar er haldið utan um rekstur og þróun skýrsluhaldskerfa landbúnaðarins til að mynda í hrossa-, sauðfjár-, nautgripa- og jarðrækt. Þar er einnig rekið Bændatorg sem heldur utan um margháttaðar upplýsingar fyrir bændur, kerfi til að halda utan um framleiðslu afurða og fjöldamörg önnur verkefni sem eru nauðsynleg í nútímabúrekstri.
Stjórnsýsluverkefni sem Bændasamtökin annast fyrir stjórnvöld eru unnin af Búnaðarstofu. Þar eru beingreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt búvörusamningum greiddar til bænda eftir þeim reglum sem um það gilda. Að óbreyttu verða þessi verkefni flutt frá BÍ til Matvælastofnunar um næstu áramót. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram frumvarp þess efnis á Alþingi. Búnaðarþing 2015 markaði þá stefnu að Búnaðarstofa ætti að vera sjálfstæð stofnun undir stjórn atvinnuvegaráðuneytisins, þar sem verkefni stofunnar færu ekki saman við hlutverk Matvælastofnunar sem eftirlitsaðila.  Í fyrirliggjandi frumvarpi er ekki tekið tillit til þessarar ályktunar Búnaðarþings en afgreiðslu málsins er ekki lokið.
 
Innan samtakanna er einnig starfrækt félagssvið sem hefur umsjón með hagsmunagæslu og baráttu samtakanna. Þar er mjög fjölbreyttum verkefnum sinnt – ekki síst er mikil vinna fólgin í að vinna umsagnir um þau mörgu lög og reglugerðir sem sett eru og snerta landbúnaðinn. Þar er einnig sinnt þátttöku í margs konar starfs- eða samráðshópum t.d. þar sem verið er að vinna tillögur að endurskoðun á regluverki eða verið að taka mál til skoðunar sem varða landbúnaðinn. Bændasamtökin eru heildarsamtök landbúnaðarins og sem betur fer er oftast haft samráð við þau þegar landbúnaðurinn er til umfjöllunar á vettvangi stjórnvalda.
 
Þessu til viðbótar er líka fjármála- og skrifstofusvið sem sér til þess að hin daglega starfsemi gangi upp. Margir hafa samband við samtökin, bæði félagsmenn og aðrir, til að leita ýmissa upplýsinga um landbúnaðinn. Greinin stendur á gömlum merg og styrkum fótum í íslensku samfélagi. Fjölmargir hafa taugar til sveitanna og þess sem þar fer fram þó að bein tengsl séu kannski ekki fyrir hendi.
 
Bændasamtökin reka síðan nautastöð á Hesti í Borgarfirði sem er kjarninn í kynbótastarfinu í nautgriparækt og jafnframt er Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) dótturfélag samtakanna. RML er fyrirtæki sem sinnir ráðgjöf við bændur um allt land. 2015 er þriðja starfsár fyrirtækisins en í ársbyrjun 2013 var ráðgjafarstarfsemi BÍ og búnaðarsambandanna sameinuð í einu félagi undir merkjum RML. Ráðgjafarstarfsemin nýtur stuðnings úr búnaðarlagasamningi en byggist einnig á útseldri vinnu.
Eins og kunnugt er er Hótel Saga jafnframt dótturfélag samtakanna. Hótelið var auglýst til sölu síðastliðið haust en ekki bárust ásættanleg tilboð. Búnaðarþing 2015 ályktaði síðan að hótelið skyldi vera áfram í eigu samtakanna að minnsta kosti um sinn.
 
Endurnýjun búvörusamninga fram undan
 
Starfsemi samtaka bænda er því margvísleg og jafnframt stór verkefni fram undan. Innan tíðar er von á því að viðræður hefjist um endurnýjun búvörusamninga. Búnaðarþing fyrr á árinu samþykkti ítarlega ályktun um samningana og aðalfundir Landssambands kúabænda og Landssamtaka sauðfjárbænda samþykktu einnig ályktanir um sínar áherslur. Ástæða er til að hvetja bændur til að kynna sér þessar samþykktir því búvörusamningar skipta alla í landbúnaðinum miklu máli.
 
Þá er einnig viðbúið að miklar breytingar geti orðið á starfsemi samtaka bænda ef að innheimta búnaðargjalds leggst af, eða a.m.k. þess hluta þess sem er nýttur til að fjármagna starfsemi samtaka bænda. Búnaðarþing hefur mótað þá stefnu að félagsgjöld til BÍ verið 0,3% af landbúnaðarveltu, ef og þegar til þessara breytinga kemur, en hvorki tímasetning þeirra né útfærsla liggur fyrir. 
 
Það eru því mörg stór verkefni fram undan nú sem fyrr. En ég hlakka til og endurtek þakkir fyrir góðar óskir til mín og vonast eftir góðri samvinnu við alla sem bera hag landbúnaðarins fyrir brjósti.
Kjöt og kosningar
Leiðari 22. nóvember 2024

Kjöt og kosningar

Eftir nokkra daga mun þjóðin velja þá sem sitja á Alþingi næstu fjögur ár. Kosni...

Lágmarkskröfurnar
Leiðari 11. október 2024

Lágmarkskröfurnar

Tíunda grein laga um velferð dýra fjallar um getu, hæfni og ábyrgð umsjónarmanna...

Að vernda landbúnaðarland
Leiðari 1. október 2024

Að vernda landbúnaðarland

Margir tengja Hornafjörð við kartöflur enda eru þar mikil og góð ræktarsvæði sem...

Áhrifavaldið
Leiðari 30. ágúst 2024

Áhrifavaldið

Svo bar til tíðinda í síðustu viku að gúrkuskortur í matvöruverslunum á Íslandi ...

Slök frammistaða
Leiðari 16. ágúst 2024

Slök frammistaða

Í þessu tölublaði Bændablaðsins er fjallað um stóran rekstrarþátt ylræktarframle...

Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumsso...

Af íslenskum matjurtum
Leiðari 27. júní 2024

Af íslenskum matjurtum

Tíminn er núna til að taka forskot á sæluna og leita uppi brakandi ferskar íslen...

Veðuröfl
Leiðari 13. júní 2024

Veðuröfl

Margt hefur verið að frétta í íslensku samfélagi að undanförnu. Forsetakosningar...