Raunveruleiki eða uppspuni?
Einn af frambjóðendum í komandi forsetakosningum sagði meðal annars þegar hann kynnti framboð sitt fyrir skömmu að ágreiningur væri í raun aðalsmerki þróaðs samfélags. Menn eigi að geta deilt harkalega en virt leikreglur og komist að niðurstöðu. Undir það skal tekið. Hann sagði enn fremur við sama tækifæri: „Við biðjum einfaldlega um að ráðamenn í samfélaginu séu heiðarlegir, standi við orð sín og hafi ekkert að fela.“
Það eru einnig orð að sönnu. Þau eiga ekki bara við um þá sem vilja starfa í þágu samfélagsins. Líka þá sem vilja hafa áhrif á hvernig samfélagið þróast og ætlast til að hlustað sé þegar settar eru fram skoðanir á því hvernig haga eigi sameiginlegum málum.
Ekki þarf að fjölyrða um að það er og hefur verið ágreiningur um hvernig haga eigi skipulagi landbúnaðarmála hérlendis. Stefnan sem unnið hefur verið eftir birtist fyrst og fremst í búvörusamningum sem nú bíða afgreiðslu á Alþingi. Í samningunum kemur fram sá beini stuðningur við landbúnað sem samfélagið veitir greininni. Með þeim verkefnum er tryggð ákveðin framleiðsla búvara í landinu og dreifðari byggðir landsins treystar í sessi. Bændum er samhliða gert kleift að selja afurðir sínar á mun lægra verði en annars væri hægt.
Byggjum á sérstöðunni
Enginn heldur því fram að hér sé verið að framleiða ódýrustu búvörur í heimi. Í fámennu og stóru landi eins og okkar verður það seint raunin. En við höfum valið að byggja á okkar sérstöðu. Við ræktum búfjárstofna sem hafa verið einangraðir lengi. Þeir eru ekki afurðahæstu stofnar sem völ er á en sjúkdómastaða þeirra er einstök og þeir eru hluti af sögu okkar og menningu. Við höfum samhliða farið þá leið að nota mjög lítið af skordýraeitri og öðrum varnarefnum. Við notum ekki vaxtarhvetjandi hormóna og við notum margfalt minna af sýklalyfjum í landbúnaði en flestar aðrar þjóðir. Allt þetta skiptir vaxandi máli í huga neytenda.
Landbúnaðurinn erlendis var og er líka undir pressu um lægra verð og hefur þess vegna nýtt sér varnar- og hjálparefni til að auka afurðamagn og lækka verð. Sýklalyfjanotkun hefur víða gengið of langt sem hefur þýtt að almenn sýklalyf virka ekki lengur á fólk.
Ónæmi fyrir sýklalyfjum hefur verið kallað „stærsta heilbrigðisvandamál 21. aldarinnar“ og það í fullri alvöru. Ef íslenskur landbúnaður hefði farið þessa leið, þ.e. flutt inn afurðahæstu stofna heims, tekið upp aðferðir verksmiðjubúskapar, jafnframt því að nýta lyf og hjálparefni til fulls, þá væri verðið örugglega lægra. En um leið hefðum við glatað sérstöðu okkar. Samfélagið í dreifbýlinu væri mun fábreyttara en umhverfisáhrifin meiri.
Staðreyndir um stuðning við landbúnað
Beinn stuðningur til landbúnaðarins á Íslandi er um 12,5 milljarðar króna á ári að mati Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Við hann bætist óbeinn stuðningur sem eru ekki útgjöld úr ríkissjóði – heldur metin markaðsvernd. OECD áætlar hvað innlenda framleiðslan er mikið dýrari en heimsmarkaðsverð, einkum vegna tollverndar.
Ef markaðsverndin ætti að vera peningar í vasa íslenskra neytenda þá eru menn að gefa sér þrennt sem allt er háð mikilli óvissu. Í fyrsta lagi að vörur á heimsmarkaðsverði fullnægi gæðakröfum markaðarins hér. Í öðru lagi að verslunin gæti fengið vörur á heimsmarkaðsverði OECD hingað og í þriðja lagi að verslunin myndi skila öllum ávinningnum til neytenda. Þar fyrir utan sveiflast markaðsverndin mjög milli ára enda hafa þar áhrif þættir eins og gengi, afurðaverð og flutningskostnaður.
Árið 2014 var markaðsverndin metin 9,6 milljarðar króna. Það ár hækkaði hún um 2,6 milljarða frá árinu 2013, en milli áranna 2012 og 2013 lækkaði hún hins vegar um 1,5 milljarða. Sveiflur á milli ára frá 2008 hafa farið upp í tæp 40%. Séu beinn og óbeinn stuðningur lagður saman er upphæðin nú 22,1 milljarður króna.
Þetta eru staðreyndir málsins og ætti ekki að þurfa að deila um þær. OECD hefur um árabil borið saman stuðning við landbúnað um allan heim og aðferðafræði þeirra er ekki dregin í efa þó að efast megi um hvort að óbeinn stuðningur myndi skila sér svo sem að framan greinir.
Byggjum á réttum upplýsingum
Að framansögðu er ákaflega dapurlegt þegar að menn beita fyrir sig rangfærslum og í sumum tilvikum tómum uppspuna þegar stuðningur við landbúnað er til umræðu. Þann 20. apríl birtist grein í Fréttablaðinu eftir Jóhannes Gunnarsson og Guðjón Sigurbjartsson þar sem haldið var fram að tollar og þar með stuðningur við landbúnað sé mun hærri upphæð. Það er byggt á forsendum sem standast enga skoðun eins og gerð er skýr grein fyrir í svargrein Ernu Bjarnadóttur, „Er betra að veifa röngu tré en öngu“ sem birtist í sama blaði 28. apríl. Um síðustu helgi birtist síðan í Fréttatímanum, sem er eitt af fríblöðum höfuðborgarsvæðisins, löng umfjöllun sem byggist eingöngu á viðhorfum greinarhöfunda frá 20. apríl, en engri sjálfstæðri athugun. Þar virtist skipta aðalmáli hverju menn vilja trúa en ekki hvað er rétt. En sumir skeyta bara ekkert um heiður sinn og láta sig engu skipta orð frambjóðandans sem vikið var að í upphafi.
Framar í blaðinu er fjallað um hvernig tollalækkun á fötum og skóm, sem tók gildi um síðustu áramót, hefur skilað sér til neytenda. Að mati ASÍ hefur það ekki gerst. Þetta er ekki fyrsta dæmið um að gjaldalækkunum sé ekki skilað. Er einhver ástæða til að ætla að það verði öðru vísi hvað landbúnaðarvörur varðar?
Aftur að upphafinu. Okkur mun áfram greina á hérlendis um marga hluti, þar á meðal landbúnaðarstefnuna og bændur hræðast það ekki. En umræður og ágreiningur verður að byggja á raunverulegum staðreyndum – ekki uppspuna.