Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Við þurfum að hámarka undirbúning framtíðarinnar
Mynd / Myndasafn BBL
Leiðari 6. október 2022

Við þurfum að hámarka undirbúning framtíðarinnar

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands

Á dögunum leit dagsins ljós skýrsla um nauðsynlegar birgðir til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum. Skýrslan var unnin af starfshópi forsætisráðherra, með vísan til stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum. Í skýrslunni er bent á að styrkja þurfi áfallaþol landsins með skipulagðri söfnun neyðarbirgða og að ábyrgðin hvíli jafnt á stjórnvöldum sem og sveitarfélögum. En samkvæmt almannavarnalögum ber að kanna áfallaþol samfélagsins með reglubundnu millibili og skipuleggja fyrirhuguð viðbrögð og aðgerðir, m.a. um stöðu birgða og jafnvel neyðarflutninga til og frá landi.

Gunnar Þorgeirsson
formaður Bændasamtaka Íslands

Í skýrslunni er lagt til grundvallar að eftirtaldar birgðir þurfi að vera tiltækar til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættustundu:

  • Matvæli og nauðsynleg aðföng til matvælaframleiðslu
  • Jarðefnaeldsneyti
  • Lyf, lækningatæki og hlífðarbúnaður
  • Viðhaldshlutir og þjónusta vegna mikilvægra innviða samfélagsins
  • Hreinlætisvörur og sæfivörur.

Ekki eru til nein gildandi stjórnvaldsfyrirmæli um lágmarksbirgðir matvæla eða aðfanga til matvælaframleiðslu í landinu. Einhverjar birgðir eru þó til hjá framleiðendum en opinbert yfirlit um þær er þó ekki til staðar, nema hvað varðar birgðir innlendra kjötframleiðenda sem birtast á mælaborði landbúnaðarins mánaðarlega. Þá eiga heimilin almennt ekki neyðarbirgðir af matvælum þrátt fyrir að Landlæknir hafi gefið út á árinu 2020 lista yfir æskilegt birgðahald heimila í heimsfaraldri sem hluta af viðbragðsáætlun almannavarna.

Tryggja þarf fullnægjandi birgðir af mjólkurvörum, kjöti, grænmeti, ávöxtum, kornvörum, kartöflum, fiski og öðrum geymsluþolnum matvörum. Sérstaklega þarf að tryggja eldsneyti og áburð en einnig fóður og áðvöru. Þá skipta varahlutir, umbúðir og dýralyf miklu máli til að tryggja matvælaframleiðslu innanlands.

Framboð og fólk

Í skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar frá 2022 um mat á fæðuöryggi norrænna eyjasamfélaga er eigin matvælaframleiðsla Íslands metin 53% af neyslu landsmanna miðað við orkugildi.

Við framleiðum nær allt kjöt, fisk og mjólk sjálf, aðeins 10% af grænmeti og ávöxtum (43% af grænmeti eingöngu) og ekki nema 1% af kornvörum.
Þá hefur Hagstofan lagt mat á mannfjöldaálag eftir mánuðum á Íslandi, enda skiptir fjöldi einstaklinga á landinu á hverjum tíma máli við mat á umfangi nauðsynlegra birgða og stýringu þeirra. Vöxtur mannfjöldaspár skýrist af ferðamannastraumnum sem er hvað mestur yfir sumarmánuðina. Fólk mun samt halda áfram að flytjast búferlum, og samkvæmt miðspá mannfjöldaspár Hagstofunnar verða íbúar landsins 461 þúsund árið 2069, sem mun koma til bæði vegna fólksflutninga og náttúrulegrar fjölgunar. Gangi spáin eftir verða helstu breytingar á aldurssamsetningu mannfjöldans þær að árið 2037 verður 20% mannfjöldans eldri en 65 ára og árið 2064 yfir 25%. Enn fremur verða þeir sem eru eldri en 65 ára fleiri en þeir sem eru 19 ára og yngri frá árinu 2053, sem er öfugt við það sem nú er.

Fleiri störf í landbúnaði

Svíar gera ráð fyrir að störfum í landbúnaði muni fjölga um 2% á hverju ári fram til ársins 2030, sem gera um 41.900 ný bein og óbein störf tengd landbúnaði. Á íslenskan mælikvarða gætu það verið 1.500 störf í landbúnaði á Íslandi. Álíka greining hefur ekki farið fram hér á landi en Samtök iðnaðarins hafa aftur á móti spáð því að árið 2050 verði um 250 þúsund manns starfandi á vinnumarkaði hér á landi. Það þýðir að við þurfum að skapa 60.000 ný störf fram að þeim tíma, eða 40 ný störf í hverri einustu viku næstu 30 árin. Góð aðsókn er í Landbúnaðarháskóla Íslands og nemendum þar er að fjölga en betur má ef duga skal. Hið sama á við um starfsmenntanám garðyrkjunnar sem nú hefur verið fært yfir til Fjölbrautaskóla Suðurlands. Mikilvægt er að efla tengingu ungu kynslóðarinnar við landbúnað og um hvað verkefnið snýst, þar sem landbúnaður er að breytast mikið og verða mun tæknivæddari en áður var og veruleg eftirspurn er eftir ungu fólki í greinina sem tileinkar sér tækni og möguleika hennar til að gera framleiðsluna arðbærari og ekki síður að láta hana fylgja okkur inn í fjórðu iðnbyltinguna. En betur má ef duga skal, því hvernig eflum við starfsmenntanám almennt í okkar frábæra landi?

Lausnir í sjónmáli?

Það er nú samt sem áður svo að við stöndum frammi fyrir þegar boðuðum niðurskurði á útgjöldum ríkissjóðs en þrátt fyrir hagvöxt síðustu ára hefur litlu verið bætt í nýliðunarstuðning til bænda. Nýliðunarstuðningurinn er veittur til fjárfestinga í búrekstri. Stuðningurinn getur að hámarki numið 20% af heildarfjárfestingakostnaði á ári en framlög til einstakra nýliða getur ekki verið hærri en 9 millj. kr. í heildarstuðning. Skapa þarf svigrúm og koma einnig fram með tillögur sem fela í sér ívilnandi aðgerðir til að ýta undir fjölgun bænda, s.s. hlutfallslegri niðurfellingu námslána, með því að fjölga lánamöguleikum, s.s. með hlutdeildarlánum og ráðstöfun séreignarsparnaðar, koma á öflugri afleysingarþjónustu í samstarfi við VMST, kynna starfsskilyrði bænda og efla vitundarvakningu um mikilvægi starfa í landbúnaði í samstarfi við helstu hagsmunaaðila.

Samkvæmt eigendastefnu ríkisins eru um 120 bújarðir í eigu ríkisins vel nýtanlegar til búrekstrar. Og í eigendastefnu ríkisins vegna jarða, landa og lóða segir að „mikilvægt sé að byggð haldist á sem flestum jörðum í sveitum landsins og að hentugar bújarðir í eigu ríkisins standi til boða til landbúnaðar eða annarrar atvinnustarfsemi.“ Það hlýtur því að vera lykillinn að hagnýta bújarðir í þágu byggðafestu og ungir bændur eru framtíðin. Allar aðgerðir til þess að stórefla nýliðun í landbúnaði og öðrum framleiðslugreinum hlýtur því að skipta máli og er stór áhrifaþáttur í fæðuöryggi þjóðar.

Nýtt Bændablað kom út í dag

Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumsso...

Af íslenskum matjurtum
Leiðari 27. júní 2024

Af íslenskum matjurtum

Tíminn er núna til að taka forskot á sæluna og leita uppi brakandi ferskar íslen...

Veðuröfl
Leiðari 13. júní 2024

Veðuröfl

Margt hefur verið að frétta í íslensku samfélagi að undanförnu. Forsetakosningar...

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu
Leiðari 4. júní 2024

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu

Kolviður hefur unnið að því sl. tvö ár að skilgreina verkferla og verkefni samkv...

Stuðningskerfi framtíðar
Leiðari 30. maí 2024

Stuðningskerfi framtíðar

Núverandi búvörusamningar gilda til og með 31. desember 2026. Því ætti nýtt stuð...

Að fletta blaðinu
Leiðari 16. maí 2024

Að fletta blaðinu

Nýlega bárust okkur gleðifregnir um magnaða ljósmynd. Forsíðumynd Sigurðar Más H...

Sérmerktar svínavörur
Leiðari 24. apríl 2024

Sérmerktar svínavörur

Neytendur eru alltaf að verða meðvitaðri og ábyrgari við vöruval. Þó að verðmiði...

Orð eru til alls fyrst
Leiðari 12. apríl 2024

Orð eru til alls fyrst

Góður fjölmiðill dregur saman upplýsingar, kemur á framfæri ólíkum sjónarmiðum, ...