Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ljósafossstöð í Soginu.
Ljósafossstöð í Soginu.
Mynd / Landsvirkjun
Lesendarýni 13. janúar 2023

Ástæðulaus ótti við upprunaábyrgðir

Höfundur: Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun og Valur Ægisson, forstöðumaður sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun

Kjósi raforkusali að bjóða viðskiptavinum sínum upprunavottaða raforku – og það er sannarlega hans frjálsa val – þá er ekki ólíklegt að viðskiptavinir greiði aukalega fyrir.

Raforkuverð á Íslandi til almennings og fyrirtækja hefur verið lágt og stöðugt alla tíð. Ákvörðun Landsvirkjunar um að láta upprunaábyrgðir ekki fylgja með í heildsölu breytir engu þar um. Verðlagning á raforkunni er óbreytt en raforkukaupendum, þ.e. heimilum og fyrirtækjum, mun standa til boða að kaupa upprunavottaða raforku. Fyrir meðalstórt heimili má ætla að viðbótarkostnaðurinn gæti numið um 140 kr. á mánuði, enda raforkan einungis um fjórðungur af raforkureikningi heimilanna. Ef dæmi er tekið af fremur stóru fyrirtæki, má ætla að viðbótarkostnaðurinn gæti numið um 2%.

Hörður Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri Bændablaðsins, ritaði grein í blaðið hinn 15. desember sl. og nefndi fréttaskýringu. Hann hefur alloft stungið niður penna um sölu upprunaábyrgða og fundið þeim flest til foráttu. „Syndaaflausn“ er orðið sem hann notar gjarnan yfir upprunaábyrgðir og talar jafnan um að neytendur séu blekktir. Það blasir þó við að ef sala upprunaábyrgða er glæpur þá vantar fórnarlambið. Neytendur eru ekki blekktir með þessu bókhaldskerfi endurnýjanlegrar orku og heimili hér á landi munu áfram búa við lágt og stöðugt verð á hreinni, endurnýjanlegri orku.

Auðlindir þjóðar

Hlutverk Landsvirkjunar er skýrt og ótvírætt: Orkufyrirtæki þjóðarinnar hámarkar afrakstur af þeim orkulindum sem því er treyst fyrir og hefur sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Fyrirtækið hefur vaxið og dafnað og mun vera leiðandi í orkuskiptum næstu ára og áratuga. Augljóst er að margt hefur breyst frá því að Landsvirkjun tók til starfa árið 1965. Við erum enn að framleiða orku úr endurnýjanlegum auðlindum þjóðarinnar, í þágu almennings og atvinnulífs. Á undanförnum misserum og árum hafa aðstæður hins vegar gjörbreyst því við verðum að bregðast við loftslagsvandanum og við verðum að gera það með því að framleiða meiri orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Það er stærsta verkefni okkar.

Við búum afar vel hér á orkueyjunni Íslandi. Aðrar þjóðir eru ekki jafn heppnar. Fyrir 14 árum kom Evrópusambandið á kerfi svokallaðra upprunaábyrgða, í þeim yfirlýsta tilgangi að hvetja til aukinnar vinnslu endurnýjanlegrar orku. Kerfið, sem 28 lönd eiga aðild að, var innleitt hér á landi með lögum árið 2008 en Landsvirkjun hóf sölu upprunaábyrgðanna þremur árum síðar. Ísland er aðili að EES og okkur er skylt að gefa raforkusölum hér kost á að fá útgefnar upprunaábyrgðir og taka þátt í viðskiptum með þær.

Upprunaábyrgð er ekki raforka

Upprunaábyrgð er ekkert annað en staðfesting á því að raforka hafi verið framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Upprunaábyrgðir eru sjálfstæð söluvara, óháð afhendingu á raforkunni sjálfri. Fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar geta með kaupum á upprunaábyrgðum vottað raforkukaup sín og stutt endurnýjanlega orkuframleiðslu. Núna er kerfið farið að virka eins og til var ætlast: Þau fyrirtæki sem vinna endurnýjanlega orku, eins og Landsvirkjun, fá hærra verð en ella og verða því enn betur í stakk búin til að mæta óhjákvæmilegum orkuskiptum.

Landsvirkjun seldi upprunaábyrgðir fyrir 1 milljarð kr. árið 2021 og um 2 milljarða kr. á nýliðnu ári. Væru seldar upprunaábyrgðir vegna allrar orkuvinnslu okkar næmi upphæðin um 15 milljörðum árlega, miðað við meðalverð nú á haustmánuðum. Á orkufyrirtæki þjóðarinnar að kasta þeim verðmætum á glæ? Verðmætum sem ein og sér gætu greitt upp kostnað við næstu vatnsaflsvirkjun á nokkrum árum? Gæti Landsvirkjun þá staðið undir því hlutverki sínu að hámarka afrakstur af auðlindum?

Það er skiljanlegt að fólk furði sig á því hvernig hægt sé að selja upprunaábyrgð um græna orku til einhverra á meginlandi Evrópu, sem orkueyjan Ísland tengist ekki neitt. En fyrirtæki á Spáni, sem kaupir upprunaábyrgð frá Noregi, er heldur ekki að kaupa loforð um að fá græna rafmagnið frá Noregi í innstunguna hjá sér. Ekki frekar en heimili í Reykjavík sem ákveður að skipta við Orkubú Vestfjarða getur gengið að því vísu að straumurinn liggi beinlínis þaðan. Þessi viðskipti snúast um bókhald.

Bókhaldið þarf að stemma

Til að tryggja að upprunaábyrgðir fyrir endurnýjanlega orku séu ekki seldar tvisvar þarf að færa bókhaldið rétt. Það þarf að færa aðra orkuvinnslu í kredit-dálkinn, til dæmis kolaorkuna sem fyrirtækið á Spáni notaði í raun eða kjarnorkuna sem systurfyrirtæki þess í Þýskalandi neyddist til að nota, en bæði keyptu á móti upprunaábyrgðir til að styðja við endurnýjanlega orkuvinnslu. Þetta er bókhald. Við vitum öll að hér á landi notum við hvorki kol né kjarnorku. En bókhaldið verður að stemma. Flóknara er það ekki.

Bókhaldskerfið sem við köllum upprunaábyrgðir gerir ekkert annað en að tryggja okkur meiri verðmæti fyrir orkuna okkar. Meiri verðmæti sem tryggja að við getum haldið áfram að byggja upp endurnýjanlega orkuvinnslu. Sérstakar tekjur af upprunaábyrgðum vinna þannig beinlínis gegn hækkun á raforkuverði.

Það er engin ástæða til að óttast kerfi upprunaábyrgða. Þvert á móti ættum við Íslendingar að fagna því sérstaklega að eiga þess kost að selja þau verðmæti. Þar stöndum við sannarlega betur að vígi en flestar aðrar Evrópuþjóðir.

Íslandsmót í rúningi
Lesendarýni 18. október 2024

Íslandsmót í rúningi

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) hyggst endurvekja Íslandsmeistaramótið í r...

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi
Lesendarýni 15. október 2024

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi

Árið 1981 voru samtök fag- og stéttarfélaga frjótækna í Evrópu stofnuð í Strasbo...

Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Lesendarýni 9. október 2024

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Á meðan trén vaxa ræða skógarbændur framtíðina. „Það er víst lítið annað að gera...

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi
Lesendarýni 4. október 2024

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi

Öldungaráð Selfoss boðaði komu sína í MS-stöðina á Selfossi með fyrirspurnina á ...

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu
Lesendarýni 3. október 2024

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu

Haustið 2007 setti stjórn félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu saman nefnd ti...

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið
Lesendarýni 2. október 2024

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Íslenskur landbúnaður hefur gegnt lykilhlutverki í þróun samfélagsins frá landná...

Áhyggjur af samdrætti innan ESB
Lesendarýni 26. september 2024

Áhyggjur af samdrætti innan ESB

Þann 9. september 2024 kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu,...

Þá og nú
Lesendarýni 23. september 2024

Þá og nú

Hin hugljúfa ástarsaga Bergsveins Birgissonar um ástir þeirra Bjarna og Helgu he...