Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Guðrún Sigríður Tryggvadóttir.
Guðrún Sigríður Tryggvadóttir.
Mynd / HKr.
Lesendarýni 21. nóvember 2019

Bændur kjósa um endurskoðun nautgripasamnings

Höfundur: Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, formaður Bændasamtaka Íslands
Þann 25. október sl. skrifuðu Bændasamtök Íslands, Landssamband kúabænda og stjórnvöld undir endurskoðaðan samning um starfsskilyrði nautgriparæktar. Samningurinn var kynntur á haustfundum Landssambands kúabænda um allt land og á fjarfundi úr Bændahöllinni. Einnig er kynningarmyndband á vef Bændasamtakanna þar sem farið er yfir breytingar á samkomulaginu.
 
Hópur bænda hefur lýst yfir miklum áhyggjum vegna samningsins og skilaði á þriðjudag undirskriftalista þar sem talsverður hluti nautgripabænda skrifar undir. Við hjá BÍ skiljum áhyggjur bænda og því var ákveðið að fresta atkvæðagreiðslunni um viku. Viðræður við ráðuneytið munu eiga sér stað þessa viku en að henni lokinni verður gengið til kosninga.  
 
Samninganefndir ríkis og bænda funduðu fyrst á vordögum þar sem bændur settu fram sínar áherslur við endurskoðunina. Hér verður farið yfir helstu atriði sem varða samninginn og þá þætti hans sem mest hafa verið í umræðunni.   
 
Rétt er að taka það fram að núgildandi samningur mun standa áfram, en með þeim breytingum og nýjum ákvæðum sem koma fram í undirrituðu samkomulagi.
 
Greiðslumarkið
 
Núgildandi samningur fól í sér tvær endurskoðanir. Í þeirri fyrri árið 2019 skyldi tekin afstaða til þess hvort kvótakerfi í mjólkurframleiðslu yrði afnumið frá og með 1. janúar 2021. Atkvæðagreiðsla var haldin í febrúar 2019 þar sem 89,4% kjósenda kusu að halda kvótakerfinu í mjólkurframleiðslu. Sú grundvallarbreyting er því við endurskoðun samningsins núna að hætt er við að afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu frá og með 1. janúar 2021 og fallið er frá markmiðum núverandi samnings um niðurfellingu heildargreiðslumarks. Ef endurskoðaður samningur tekur ekki gildi um næstu áramót þá munu viðskipti með greiðslumark stöðvast. Óendurskoðaður samningur mun þá halda gildi sínu og í honum kemur fram að öll viðskipti með greiðslumark eru óheimil nema í gegnum innlausnarmarkað, sem rennur sitt skeið í lok árs 2019.
 
Viðskipti með greiðslumark 
 
Vilji bænda var sá að viðskipti með greiðslumark skyldu eiga sér stað í gegnum miðlægan markað í umsjón opinbers aðila. Markaðurinn ætti að byggjast upp á jafnvægisverði en þó með hámarki sem næmi tvöföldu lágmarks afurðastöðvarverði innan greiðslumarks.
 
Það samningsmarkmið náðist í gegn að fyrirkomulag markaðar verður jafnvægisverðsmarkaður líkt og bændur óskuðu. Ekki náðist samkomulag við ríkið um hámarksverð. Hins vegar er ákvæði  þar sem framkvæmdanefnd búvörusamninga getur gert tillögu til ráðherra að hámarksverði ef aðstæður kalla á slíkt. Vert er að minna á að bændur eiga þrjá af sex fulltrúum í framkvæmdanefndinni.
 
Að hámarki verður hægt að bjóða í 50.000 lítra á hverjum markaði, sem sagt 150.000 lítra yfir árið. Þá verður ekki hægt að eiga meira en 1,2% af heildargreiðslumarki hvers árs og er það í fyrsta sinn sem slíkt þak kemur inn.
 
Tilfærsla greiðslumarks
 
Í samkomulaginu er talað um til­færslu greiðslumarks hjá aðilum sem sannanlega eru að mjólka í tveim fjósum í eigu sama bónda en þeim er gert kleift að flytja starfsemina í eitt fjós enda hafi það sannanlega verið í eigu þeirra 25. október sl. samanber þinglýst vottorð. Þeir aðilar eru ekki margir en það getur varla talist hagkvæmt fyrir greinina að leysa ekki þann hnút sem myndaðist þegar lokað var fyrir þennan möguleika 16. júní 2018. Skoðað verður sérstaklega hvernig hægt verður að tryggja það að bú sem fái að flytja greiðslumark í samræmi við þessa undanþágu hafi í raun rekið bú í tveimur fjósum frá 16. júní 2018. Einnig er fjallað um undanþágu vegna búferlaflutninga sem útfært verður ítarlega. Ákvæðin eru ekki hugsuð til að búa til flæði greiðslumarks utan markaðar og verða útfærð nánar í reglugerð. 
 
Forkaupsréttur nýliða
 
Samkvæmt áhersluatriðum bænda var farið fram á að 25% forkaupsréttur nýliða yrði í greiðslumarksviðskiptum en annar forgangur félli niður. Þarna taldi samninganefnd ríkis að nægt framboð greiðslumarks ætti að gera það að verkum að þeir sem vildu kaupa greiðslumark gætu fengið það. Samið var um 5% forgang nýliða að markaði, sem verður þá eini forgangurinn. Aðstæður nýliða og innganga í greinina ásamt skattalegu umhverfi verður skoðað frekar í starfshópi.
 
Ábyrgð í loftslagsmálum
 
Ný grein bætist við samninginn um loftslagsmál. Þar setja nautgripabændur sér markmið í takt við stefnu stjórnvalda og vilja leggja áherslu á rannsóknir, ráðgjöf og fræðslu. Í greininni er m.a. talað um að skoða fjárhagslega hvata til bænda á því sviði og byggja upp betri þekkingu á málum sem geta flokkast undir betri búskaparhætti líkt og meðhöndlun og nýting búfjáráburðar og bætt fóðrun. Loftslagsmál eru gríðarstór málaflokkur og við Íslendingar erum að stíga okkar fyrstu skref í að eiga við þessa vá, eins og heimsbyggðin öll. Ávinningurinn fyrir okkur sem bændur af slíkri vinnu verður að sjálfsögðu sá að við fáum í hendur tæki og tól til að auka samkeppnishæfni okkar framleiðslu. Á sama tíma öxlum við ábyrgð sem virkir þátttakendur í aðgerðum og umræðum um loftslagsmálin. 
 
Starfshópar
 
Í samkomulaginu eru mál sem komu til umræðu en ekki náðist saman um eða var talið að þyrfti meira samráð og því ákveðið að setja á fót starfshópa.
 
Verðlagsmálin fóru í þann farveg og erum við í fyrsta skipti að tryggja formlega aðkomu iðnaðarins að þeirri vinnu. Leitað var í þekkingarbrunn hans við gerð texta sem fram kemur í 4. grein samkomulagsins og efnisatriði því sett fram eftir samráð við iðnaðinn okkar. 
 
Öll þau atriði sem vísað var í starfshóp í 5. grein eru ný, s.s. aðgerðir til handa minni búum og svæðum þar sem framleiðsla er að dragast saman. Vissulega mætti velta því fyrir sér af hverju þau voru ekki inni í samningnum frá árinu 2016 en þarna eru mörg mikilvæg atriði sem samninganefnd ríkisins var sammála okkur um að eðlilegt væri að skoða á þessum tímamótum. 
 
Í samkomulaginu kemur skýrt fram að niðurstöður starfshópa í 4. eða 5. grein muni ekki koma til framkvæmda nema með samþykki félagsmanna BÍ og LK í atkvæðagreiðslu. Þannig er tryggt að ekkert óvænt né í óþökk okkar mun koma til framkvæmdar úr þeim starfshópum. Allt verður borið undir félagsmenn í atkvæðagreiðslu þegar niðurstaða úr vinnu hópanna liggur fyrir. Með því að fara þessa leið er hægt að kalla til aukinnar samvinnu og upplýsinga frá m.a. afurðastöðvum og sérfræðingum á ýmsum sviðum.
 
Atkvæðagreiðslu hefur verið frest­að um viku til að koma til móts við óskir bænda. Hún mun fara fram dagana 27. nóvember–4. desember. 
 
Einnig er minnt á að kosið verður um þá vinnu sem starfshóparnir skila. Þannig er aðkoma félagsmanna BÍ og LK mun meiri en áður hefur tíðkast.
 
Ég hvet alla bændur til að kynna sér samkomulagið vel og að nýta atkvæðarétt sinn, hvert atkvæði skiptir máli.
 
Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...