Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Fagrar froststillur í birtu skerpa sýn okkar á meginmálið.
Fagrar froststillur í birtu skerpa sýn okkar á meginmálið.
Mynd / Kristján Friðbertsson
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Höfundur: Kristján Friðbertsson, plöntunörd

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggjum þar okkar nánustu til hinstu hvíldar. Treystum því að þar verði hvíldin friðsæl um komandi tíma. Fyrir vikið tengja þó sumir kirkjugarða við lífleysi, frekar en líf.

Kristján Friðbertsson.

En við tyllum okkur í kirkjugörðum og hugsum um liðna tíð, um það sem við deildum með þeim sem nú eru farnir. Um allt hitt fólkið sem þarna hefur líka fundið sinn síðasta áfangastað og alla sem eiga um þá minningar. Jafnvel ef minningin er það eina sem eftir lifir, er hún ekki laus við líf. Minningarnar eru vitnisburður um líf sem var, samtímis því að vera hluti af lífi sem enn þá er. Lífinu sem við lifum. Við, sem tengjum okkur milli kynslóða og teygjum okkur heimshorna á milli með þeirra aðstoð. Minningar eru síður en svo eina lífið þarna. Af jörðu erum við jú komin. Það sem okkur var gefið, getum við gefið áfram. Ásamt því að bera vott um nýtni, er líffæragjöf að sjálfsögðu mjög göfug. Það er þó ekki hún sem ég er að vísa til. Hringrás lífsins nýtur góðs af okkur jafnvel þegar ekkert er gert.

Við það eitt að verða aftur að jörðu getum við hjálpað öðru lífi, í áratugi. Allt frá örveruflóru og fungu, yfir í liðdýr og önnur smádýr, tré, blóm og aðrar plöntur. Allt þetta líf, sem styður svo við enn meira líf. Til dæmis alla smáfuglana sem við sjáum flögrandi um á góðum degi.

Fyrir þau okkar sem stunda þó ræktun í heimilisgarði fremur en kirkjugarði, getum við fengið beinlausan garð? Viljum við það?

Stéttin og girðingin eru bara hluti af því sem laufið vanalega hylur.
Fegurðarsýn

Í huganum og á símanum sýnir sumargarðurinn grænn og blómstrandi alla sína fegurð. Frosinn í tíma, frekar en af kulda. Minningar um það sem nýlega var og það sem koma skal. Minningar sem í skammdeginu beina sjóninni frá myrkrinu, í átt að birtunni sem bíður.

Á þeim tíma sem ekkert vex megum við samt ekki alveg loka augunum. Fyrir utan að lokuð augu hafa verið tengd við gríðarlega aukningu á slysahættu, missa þau einnig af sjónrænni fegurð. Ýmislegt er nefnilega falið bakvið gróður að sumri og nýtur sín því jafnvel betur nú. Síblár gróður, jafnvel þótt gulur sé, sýnir okkur hve stórt hlutverk sígrænt spilar í því að lífga upp á hið gráa.

Þegar sólin er lágt á lofti og lýsir upp stofna og greinar tökum við oft best eftir fegurð lauflausra trjáa. Stór og stæðileg birkitré, næfurheggur og fleiri tegundir monta sig af íðilfögrum berki á meðan önnur taka á sig hlutverk myndarlegra skúlptúra. Ýmsar tegundir af víði og hyrnum (Cornus) státa svo af litríkum greinum sem geta verið skraut hið mesta.

Nýtum beinin

Síðvetrarsýn gefur okkur þó meira en fegurðina. Það er nefnilega á þessum tíma sem við sjáum hvað skýrast það sem stundum eru kölluð „beinin í garðinum“. Allt þetta helsta, sem rammar inn garðinn, skapar aðal strúktúrinn. Þetta er því góður tími til vangaveltna, til þess að horfa yfir garðinn, ganga um hann, þreifa á honum, skoða, hugsa, melta.

Sama ástand gerir það líka þægilegra að snyrta og klippa hin ýmsu tré og runna á þessum tíma. Jafnvel þau sem hentar síður að skerða núna, er hægt að merkja með einhverjum hætti, til að einfalda verkið síðar.

Hvað með grasblettinn, hellulagnir og stíga? Er allt slétt og fínt, eða þarf eitthvað að laga til og jafna? Eru öll beð eins og best verður á kosið, eða helst til of mörg eða stór? Kannski væri bara skynsamlegast að stækka einhver þeirra, jafnvel bæta við beði?

Allt þetta breytist yfir árið, en þegar garðurinn birtist undan snjónum fáum við mikilvæga sýn. Áhrif frostlyftinga kannski augljós, ásamt því hvar í garðinum frost er hvað lengst að fara úr jörðu. Fulllaufgaður felur gróðurinn ýmsar syndir, en núna fer ekkert á milli mála ef kominn er tími á viðhald á girðingunni, pallinum eða öðru.

Sáðbakkar eru ekki ónæmir fyrir frostlyftingu. Munum að leita að slæmum beinbrotum sem gætu kallað á aflimanir.

Endalaus tími sem hverfur samt svo hratt

Á sumrin er oftast nógu margt sem þarf að hugsa um og huga að jafnóðum. Þá viljum við líka njóta sumarsins, ferðast um landið, slaka á. En núna höfum við kannski smá tíma. Ef okkur klæjar jafnvel aðeins í puttana er um að gera að nýta þann kraft. Sumt má ganga strax í að framkvæma en þótt annað bíði þess að frost fari úr jörðu er hægt að undirbúa og forvinna. Stutt og kalt ræktunartímabil á Íslandi getur virkað takmarkandi, en við sjáum við því m.a. með því að forrækta sumt grænmeti og sumarblómin.

Réttur tími til að hefja forræktun fer eftir tegund, tilgangi og aðstæðum. Birta og hitastig verður t.d. að vera í samræmi hvort við annað, sem og þarfir plöntunnar.

Hinir ýmsu vorlaukar, s.s. dalíur, liljur, asíusóleyjar og slíkt eru oftast ansi spenntir að komast í gang í mars/ apríl, ef réttar aðstæður eru í boði. Sá tími getur einnig hentað vel fyrir ýmsar sáningar, t.d. morgunfrú og steinselju. Stjúpur og annað sem þarf lengri tíma til að komast í gang er best að drífa í sem fyrst.

Einhverjir rækta aldrei úr fræi á meðan aðrir kaupa helst ekkert nema fræin. Sjálfum finnst mér skemmtilegast að fara blöndu beggja. Maður hefur ekki endilega pláss til að forrækta allt sjálfur, svo maður velur úr. Auk þess er þetta að hluta til sitt hvort úrvalið, það sem er í boði að kaupa forræktað eða sem fræ. Svo er líka bara alltaf gaman að fara á vorin á milli garðplöntustöðva að skoða og kaupa nokkrar plöntur fyrir sumarið.

Óháð því hvað þér finnst skemmtilegast, siglum við núna hraðbyri inn í tíma hratt vaxandi birtu og sífellt lengri daga. Beinin í garðinum halda áfram að opinbera sig, allt þar til gróðurinn tekur til við að fela þau aftur. Notum tækifærið í garðinum eða sumarbústaðnum. Skoðum, punktum hjá okkur, pælum, skipuleggjum. Gröfum upp myndir frá síðasta sumri og skoðum samhliða núverandi ástandi. Hvað þarf að gera, eða hverju langar okkur að breyta? Njótum þess að koma okkur í gírinn fyrir komandi vor. Nú, ef minnið er ekki að standa sig og við höldum að við séum hreinlega farin að kalka, engar áhyggjur: kalk er sagt gott fyrir beinin svo þetta reddast allt á endanum!

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...