Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Húni ll HU-2 Höfðakaupstað
Lesendarýni 27. júní 2023

Húni ll HU-2 Höfðakaupstað

Höfundur: Árni Björn Árnason, fyrrverandi verkstjóri í slippnum og áhugamaður um skráningu báta og skipa - aba.is

Sextíu ár eru nú liðin frá því að eikarskipið Húni II HU-2 Höfðakaupstað vætti kjöl í fyrsta sinn.

Árni Björn Árnason.

Þessara merku tímamóta var minnst með afhjúpun líkans af bátnum við Iðnaðarsafnið á Akureyri og móttöku gesta á laugardag fyrir sjómannadag um borð í skipinu og síðan þrjár siglingar með gesti á sjómannadaginn.

Skipið var smíðað fyrir Húna hf. Höfðakaupstað en framámenn í því félagi voru Björn Pálsson, bóndi og alþingismaður frá Löngumýri, Austur Húnavatnssýslu og Hákon Magnússon, skipstjóri Höfðakaupstað. Húni II HU-2 var smíðaður í Skipasmíðastöð Kaupfélags Eyfirðinga á Akureyri árið 1963. Samkvæmt skráningu Siglingamálastofnunar Íslands þá er skipið 117,98 brúttólestir að stærð eða 27,78 metra langt, 6,36 metra breitt og djúprista 3,37 metrar. Mjög var vandað til smíði skipsins og mörg nýmæli litu þar dagsins ljós. Eikin í skipið kom frá Ameríku og nefndist hvíteik eða sumareik og ber viðurinn þessi heiti þegar hann eru felldur í fullum skrúða.

Ekkert var til sparað svo að skipið liti sem best út og var sérstaklega til innviða vandað. Í káetu voru þrír klefar, allir með handlaugum og gólf teppalögð en áður hafði slíkur íburður ekki þekkst um borð í fiskiskipi. Sama var að segja um lúkarinn, að hann skiptist í þrjá klefa með handlaugum og gólfteppum. Eldhúsi og borðsal var komið fyrir fremst í þilfarshúsi neðan brúar sem mjög var til vandað.

Mynd tekin í brú þegar Húni II var afhentur. Eiginkona Björns, Ólöf Guðmundsdóttir, Tryggvi Gunnarsson, Björn Pálsson og Hákon Magnússon. Mynd / Steini Pje

Nýmæli voru að framhluti brúar hallaði fram að ofan sem gaf meira rými fyrir siglingar- og fiskileitartæki auk betri yfirsýnar yfir þilfarið. Þessi framhluti var úr áli sem hnoðaðist við járnvinkla og bátapall af járni gerðan. Vel hefur verið vandað til við frágang þessarar samsetningar þar sem engin tæring er enn finnanleg í álinu eftir þessi sextíu ár. Við uppgjör skipsins var ekki deilt um Löngumýrar Skjónu en aftur á móti var deilt um eikina sem í skipið fór og endaði sú deila fyrir dómstólum. Björn uppástóð að eikin hafi verið svo við vöxt að stöðin hafi smíðað tvo báta úr afganginum.

Í sjálfu sér hefði það ekki átt að skipta Björn nokkru máli þó að tíu bátar hefðu verið smíðaðir úr þessum eikarafgangi, hafi hann þá einhver verið, því að eftir því sem best er vitað var skipið smíðað fyrir fast verð. Nær mun vera að Björn hafi þarna verið köllun sinni trúr og efnt til málareksturs út af uppgjörinu svona rétt til að krydda tilveruna. Þar sem Húni ll er nú stærsta eikarskip íslenska flotans er ekki úr vegi að skyggnast nánar í lífssiglingu hans.

Sigfús Ólafur Helgason, safnstjóri á Iðnaðarsafninu, við líkanið af Húna EA. Mynd / Þorgeir Baldursson

Frá Skagaströnd fór skipið til Hornafjarðar árið 1972 og fékk þar nafnið Haukafell SF-111 en Haukafell er fjall norðan Hafnar í Hornafirði. Björn á Löngumýri lagði mikla áherslu á að skipið fengi hið fyrsta nýtt nafn þar sem Húnanafnið hefði ekki fært eigendum þess neina gæfu.

Húni í slipp.

Mynd / Steini Pje

Í Hafnarfjarðarhöfn hafi kviknað í skipinu og þá komið til tals að sökkva því til að slökkva eldhafið. Einnig hafi síða þess skemmst verulega efir ásiglingu. Árið 1990 fékk Haukafellið einkennisstafina SF-40, Hornafirði.

Árið 1991 fór skipið á Skagaströnd og fékk þar nafnið Gauti HU-59 og var í eigu Hólaness hf. og Skagstrendings hf. Skipið stoppaði stutt á Skagaströnd því til Hornafjarðar var það aftur komið 1991 og hét þar í fyrstu Gauti SF-110 en fékk síðan á sama ári nafnið Sigurður Lárusson SF-110 og síðan Sigurður Lárusson SF-114.

Skipið var gert út sem fiskiskip í 30 ár og bar að landi yfir 32.000 tonn af sjávarfangi. Komið var að leiðarlokum þegar skipið var fellt af skipaskrá árið 1994 og ákvörðun tekin um að nota það í næstu áramótabrennu.

Þegar bálið blasti við skipinu komu hjónin Þorvaldur Hreinn Skaftason og Erna H. Sigurbjörnsdóttir því til bjargar. Hjónin breyttu því í farþegaskip með innréttingu á lest og lúkar. Skipið var endurskráð árið 1996 undir nafninu Húni II Höfðakaupstað HU, Skagaströnd: Undir þessu nafni var skipið gert út til hvalaskoðunar og sjóstangaveiða frá árinu 1997 til ársins 2004. Fyrstu fjögur árin fór skipið í 440 ferðir með um 20.000 farþega en þá fór að halla undan fæti og það falt hverjum þeim sem kaupa vildi.

Nokkrir menn á Akureyri stofnuðu þá félagsskapinn „Hollvinafélag Húna“ og hófu fjársöfnun til kaupa á skipinu. Ári seinna hafði tekist að fjármagna kaupin á skipinu og lögðu þar mest til Kaupfélag Eyfirðinga, Akureyri, Akureyrarbær og íslenska ríkið. Það var því árið 2005 sem skipið sigldi inn Eyjafjörðinn og lagðist að bryggju á Akureyri.

Skipið var afhent Iðnaðarsafninu á Akureyri til eignar sem fól „Hollvinum Húna“ það til varðveislu, umsjónar og reksturs.

Árið 2023 ber skipið nafnið Húni II EA-740 og er höfuðverkefni þess að sigla með grunnskólanema út á Eyjafjörðinn, draga þar fisk úr sjó, grilla hann og borða. Þá fá þau fræðslu um lífríki sjávar og um hollustu fisksins. Verkefnið heitir „Frá öngli í maga“.

Gert er ráð fyrir að skipið liggi um ókomin ár í Akureyrarhöfn til vitnis um handbrögð liðins tíma.

Skylt efni: Húni

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...

Kosningar
Lesendarýni 29. nóvember 2024

Kosningar

Kæru kjósendur. Það er ekkert mikilvægara en að nýta atkvæðisréttinn sem svo mik...

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata
Lesendarýni 29. nóvember 2024

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata

Það eru vissulega forréttindi að búa í sveit, ala upp börnin sín í faðmi náttúru...

Verum til vinstri – verndum náttúruna
Lesendarýni 28. nóvember 2024

Verum til vinstri – verndum náttúruna

Á meðan Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur staðið vörð um náttúruna og gæt...

Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu
Lesendarýni 28. nóvember 2024

Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu

Að vera bóndi getur verið félagslega einangrandi, sérstaklega ef aldrei er svigr...

Eignarhald bænda á jörðum tryggir hag þeirra best
Lesendarýni 27. nóvember 2024

Eignarhald bænda á jörðum tryggir hag þeirra best

Umræða um jarðir, jarðaviðskipti og kynslóðaskipti í landbúnaði er og á að vera ...

Landbúnaður í velsældarhagkerfi
Lesendarýni 27. nóvember 2024

Landbúnaður í velsældarhagkerfi

Landbúnaður í heiminum öllum stendur frammi fyrir umbyltingu vegna framfara í ræ...