Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Höfundur: Halla Tómasdóttir, frumkvöðull og forsetaframbjóðandi.

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég á ferð minni um Vesturland og Vestfirði um páskana.

Þar sem við ókum um sveitir, firði og heiðar í vetrarfötunum sá ég fjölda tækifæra íslensks landbúnaðar og landsbyggðar ljóslifandi fyrir mér. Ég tel að forseti Íslands geti skipt bændur sem stétt miklu máli. Bændur yrkja landið og tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar eins vel og aðstæður á norðurslóðum leyfa. Það eru bændur sem halda landinu í byggð. Getum við ímyndað okkur landið án býla og bújarða?

Bændur viðhalda einnig sögu og menningu hvers héraðs. Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt, orti Tómas eftirminnilega! Hugsanlega má bæta við að landslag væri lítils virði ef allar sögur væru gleymdar og engar nýjar bættust við. Að ferðast með staðkunnugum um landið er ómetanlegt og ég var svo heppin að njóta þess um páskana.

Nú eru tímar mikilla breytinga og nauðsynlegt að kunna að nýta framfarir án þess að tapa um leið ómetanlegum verðmætum. Á nokkrum árum hefur orðið ljós nauðsyn þess að fara betur með landið og auðlindir þess. Nýta afurðir betur og draga úr mengun. Möguleikarnir eru ótal margir og við sjáum þegar vænlega vaxtarsprota víða um land. Bæði innanlandsmarkaður og erlendir markaðir opnast sífellt meira fyrir vörum sem aldar eru eða ræktaðar á sjálfbæran og umhverfislega ábyrgan hátt. Þangað eigum við að stefna með því að nýta nýjustu þekkingu og tækniframfarir. Þetta verður ekki gert í einu stökki, en það er mikilvægt að stilla áttavitann rétt.

Hvernig getur forseti Íslands hjálpað til? Búvörusamningar og skattlagning eru ekki á hans borði og ekki stýrir hann ríkisstjórninni þótt mikilvægt sé að hann nýti málskotsrétt embættisins ef gjá myndast milli þings og þjóðar. En hann getur talað máli íslensks landbúnaðar, vakið athygli á íslenskum afurðum og búskaparháttum, gengið á undan með góðu fordæmi og lyft íslenskum vörum upp í kastljósið. Notað íslenskar vörur alls staðar. Veitt íslenskum bændum tækifæri til að kynna sína nálgun og notfæra sér sviðsljósið á embættinu þegar kostur gefst. Stutt við nýliðun í stéttinni.

Ég hef verið svo lánsöm að fá að vinna með hópi alþjóðlegra leiðtoga síðustu sex árin, fólks sem beitir sér fyrir því að atvinnulíf og stjórnvöld beri ábyrgð á gerðum sínum og áhrifum á umhverfi og samfélög. Það er sannarlega tími til kominn og sem betur fer nær þessi boðskapur jafnt og þétt sterkari fótfestu.

Á þessum vettvangi hef ég kynnst mörgum framsýnustu leiðtogum heims í atvinnulífi og stjórnmálum og án undantekninga skynja ég ómælda trú á Íslandi og styrkleikum okkar þjóðar. Mig langar til að nýta þau tengsl til tækifæra í samvinnu við bændur.

Ég er alin upp í Kópavogi, en rætur mínar eru vestur á Ströndum og norður í Skagafirði og margar dýrmætustu minningar mínar koma frá sumrum í Skagafirði og fiskvinnslu austur á fjörðum. Eiginmaður minn, Björn, er alinn upp í Grindavík þar sem hann vann lengst af í fiski. Í dag er hann matarfrumkvöðull og kokkur sem telur íslenskt hráefni flestu framar. Hann á ættir að rekja á Suðurlandið og á Austfirði. Með samvinnu okkar má því segja að börnin okkar tvö séu ættuð meira og minna af landinu öllu. Landinu sem við viljum þjóna eins vel og við getum, nái ég kjöri hinn 1. júní 2024. Vonandi mun ég ná að hitta sem flesta bændur á næstu vikum og mánuðum í aðdraganda kosninganna og heyra betur hvað þau telja embætti forseta Íslands geta gert fyrir bændasamfélagið á Íslandi. Ég hlakka til að eiga samtal við sem allra flest.

Innflutningur á erlendu kúakyni til mjólkurframleiðslu
Lesendarýni 14. apríl 2025

Innflutningur á erlendu kúakyni til mjólkurframleiðslu

Í kjölfar umræðu um innflutning á erlendu kúakyni til mjólkurfram - leiðslu vill...

Táknmynd Íslands
Lesendarýni 2. apríl 2025

Táknmynd Íslands

Hver skyldi myndin vera sem kemur upp í huga flestra útlendinga þegar Ísland er ...

Hringrásargarðar á Íslandi
Lesendarýni 1. apríl 2025

Hringrásargarðar á Íslandi

Hugmyndin um hringrásargarða hefur rutt sér til rúms sem leið að vistvænni iðnþr...

Tilhæfulaus fyrirgangur
Lesendarýni 27. mars 2025

Tilhæfulaus fyrirgangur

Að undanförnu hefur mikill fyrirgangur verið vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjór...

Vandi bænda í ESB
Lesendarýni 25. mars 2025

Vandi bænda í ESB

Landbúnaður í Evrópusambandinu stendur frammi fyrir miklum áskorunum sem ógna bæ...

Myglufaraldur í húsum
Lesendarýni 19. mars 2025

Myglufaraldur í húsum

Fréttir berast reglulega um myglu í húsum, jafnvel svo útbreidda, að rífa þurfi ...

Hvað er Gvendardagur?
Lesendarýni 14. mars 2025

Hvað er Gvendardagur?

Á liðnum árum og áratugum hafa slæðst inn í dagatal okkar dagar sem bera hin ýms...

Tækifæri í kolefnisjöfnun
Lesendarýni 13. mars 2025

Tækifæri í kolefnisjöfnun

Undanfarin ár hefur verið nokkur umræða um kolefnisjöfnun sem loftslagsaðgerð. B...