Stofnanavæðing hálendisins stöðvuð
Þegar nálgaðist þinglok blasti við flestum að frumvarp umhverfisráðherra um stofnun þjóðgarðs á hálendi Íslands myndi daga uppi. Málið var illa unnið í ósátt við sveitarfélögin og flesta hagaðila og átti ekkert annað eftir en að daga uppi og deyja.
Á elleftu stundu ákváðu stjórnarflokkarnir þrír að halda málinu á lífi og leggja fram nýtt frumvarp á næsta kjörtímabili. Hálendisþjóðgarðurinn, eins og umhverfisráðherra sér hann fyrir sér, yrði að veruleika, bara á næsta kjörtímabili.
Meirihlutinn samþykkti að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar og að fela ráðherra að leggja fram nýtt frumvarp um sama efni.
Bindur næstu ríkisstjórn
Alla jafna bindur slík samþykkt ekki næstu ríkisstjórn, en ef hún verður samsett eins og sú sem nú situr, þá er illt í efni. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnarinnar stóð:
„Stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila.“
Þarna eru engir fyrirvarar settir af samstarfsflokkum VG í ríkisstjórn, þó að ýmsir framámenn stjórnarinnar hafi á seinni stigum viljað flagga fyrirvörum.
Samstaða eða sýndarsamráð
Brýnt er, þegar slíkt stórmál er til umfjöllunar að það sé gert í sem víðtækastri samstöðu í samfélaginu. Sér í lagi á það við þegar meira en þriðjungur landsins er tekinn undir þjóðgarð í ósátt við flest sveitarfélög sem land eiga á hinu fyrirhugaða svæði sem þjóðgarðurinn á að ná yfir. Sveitarstjórnir sem fara með skipulagsvald á svæðinu voru lítið með í ráðum og gegndu einungis því hlutverki að vera áheyrendur að ráðagerðum ríkisstjórnarinnar. Rétt er að minna á að fulltrúi Miðflokksins í þverpólitískum undirbúningshópi sem vann skýrslu, sem sögð er vera grundvöllur málsins, sagði sig frá þeirri vinnu á lokametrum hennar, m.a. vegna þess að honum þótti ekki tekið tillit til athugasemda hagaðila með forsvaranlegum hætti. Fjölmargir hafa lýst því samráði sem umhverfisráðherra viðhafði sem sýndarsamráði. Þegar hagaðilar lýsa sig sem fullbólusetta fyrir fagurgala um samráð og víðtæka sátt, þá hefur eitthvað misfarist í ferlinu.
Hvort viljum við færri eða fleiri á hálendið?
Bent hefur verið á að mörg efnisatriði málsins séu óljós, ekki nægjanlega vel unnin eða beinlínis ósamrýmanleg markmiðum frumvarpsins. Þannig virðist til dæmis ekki ljóst hvort markmið frumvarpsins sé að ferðamönnum á svæðinu fjölgi eða fækki.
Stóra stoppið í nýting orkuauðlinda
Stofnun hálendisþjóðgarðs, eins og ráðgert var, setur í fullkomið uppnám ýmsa hagkvæma orkunýtingarkosti á svæðinu. Á sama tíma og stjórnvöld, og raunar landsmenn allir, virðast áhugasöm um orkuskipti, þá eru það skilaboð í þveröfuga átt að þrengja jafn mikið að orkuvinnslu og flutningskerfi raforku og í stefndi. Umræður um nýtingu grænnar orku, sem óvíða eru í jafn miklum mæli og hérlendis verða afkáralegar í þessu samhengi.
Valdið fært frá kjörnum fulltrúum
Skipulag og stjórnsýsla alls svæðisins átti að færast frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum sveitarfélaganna til fulltrúa annarra sveitarfélaga, félagasamtaka og embættismanna. Það sama má segja um umsjón, rekstur og ákvarðanatöku sem flytja átti frá réttkjörnum fulltrúum til þessara aðila.
Þjóðlendur og þjóðgarðar
Benda má á að engin tilraun var gerð til að greina eða bera saman rekstur þjóðgarða annars vegar og þjóðlendna hins vegar, til að mynda hvaða vankantar eru í núverandi kerfi þjóðlendulaga, sem hugsanlega mætti sníða af til að ná fram mörgum af þeim markmiðum sem þjóðgarðinum var ætlað að ná fram. Stjórnfyrirkomulag þjóðlendna er einfalt og skilvirkt. Það stjórnfyrirkomulag sem lagt var til með hálendishugmyndinni var flókið og boðleiðir langar
Víðtækar heimildir ráðherra
Frumvarpið gerði ráð fyrir að færa ráðherra málaflokksins nánast alræðisvald. Þannig var gert ráð fyrir því í frumvarpinu að ráðherra geti ákveðið stækkun Hálendisþjóðgarðs og friðlýsingu landsvæða með reglugerð. Einnig er gert ráð fyrir að ráðherra gæti gert breytingar á stjórnunar- og verndaráætlun ef hann teldi áætlunina fara í bága við lögin eða reglugerð, sem hann reyndar setur sjálfur. Valddreifing var í skötulíki í frumvarpinu og margt fleira mætti týna til í þeim efnum.
Hefðbundin landnýting
Landsmenn hafa, mann fram af manni nýtt hálendið fyrir bústofn sinn til beitar, veiða og nú síðast til ferða- og náttúruupplifunar. Öræfin voru um aldir svipuð dulúð og leyndardómum. Að vissu leyti má segja að landsmenn allir hafi átt þá sameiginlegu hugmynd, hver fyrir sig, að eiga hlutdeild í landsvæðinu. Ekki hefur heldur tekist að sannfæra bændur um að ævaforn réttur þeirra til að nýta svæðið til beitar yrði tryggður. Þessum eignaréttindum þeirra yrði stefnt í hættu. Með frumvarpinu var verið að gera víðtækar breytingar í þá átt að hefðbundin landnýting sem landsmenn hafa átt rétt til frá örófi alda, svo sem búfjárbeit, fjallagrasatekja, fuglaveiði, hreindýraveiði og veiði í ám og vötnum, verði sett í sífellt meira mæli sett undir reglugerðarvald eins ráðherra. Betur er heima setið en af stað farið í þessu tilliti.
Við erum öll umhverfissinnar
Flestir eru sammála um að ganga vel um landið og vernda náttúruperlur. Staðreyndin er að ef fjárveitingar hætta skyndilega að vera fyrirstaða er fátt í núverandi fyrirkomulagi mála sem hindrar að markmiðsákvæðin frumvarpsins náist. Það er okkar mat að málum sé í meginatriðum best fyrir komið eins og nú er, þar sem bændur, vörslumenn landsins, gegna lykilhlutverki, þar sem rekstraraðilar sem hafa byggt upp starfsemi innan þjóðgarðslínunnar, eins og hún var lögð til, geta starfað við forsvaranlegt rekstrarumhverfi.
Sjálfstæðisflokkur og Framsókn skuldbundin
Í ljósi þess hvernig mál þróuðust við þinglok er ljóst við hverju fólk má búast ef Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og Vinstri-grænir halda ríkisstjórnarsamstarfi sínu áfram. Stofnanavæðing hálendisins. Hálendisþjóðgarður í þeirri mynd sem umhverfisráðherra hefur teiknað svo skýrlega upp. Þessir tveir flokkar hafa gefið upp boltann og munu ekki verða fyrirstaða í vegferð Vinstri-grænna að leggja þriðjung alls landsins undir þjóðgarð. Það stefnir því í sama graut í sömu skál, haldi núverandi stjórnarflokkar samstarfi sínu áfram.
Miðflokkurinn eina fyrirstaðan
Eina vörnin fyrir stofnanavæðingu hálendisins er Miðflokkurinn, sem allan tímann hefur staðið vörð um skipulagsvald og sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna og verið á móti alræðisvaldi miðstýringar.
Bergþór Ólason,
form. umhverfis- og samgöngunefndar
Karl Gauti Hjaltason,
nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd
Höfundar eru þingmenn Miðflokksins