Stofnum afleysingaþjónustu bænda
Íslenskur landbúnaður er fjölbreyttur og er stundaður um land allt. Almennt fara búin stækkandi og verða sérhæfðari þ.e. flestir bændur einbeita sér að einni eða fáum búgreinum.
Tæknivæðing hefur í mörgum tilfellum létt störfin á undanförnum árum, en engu að síður krefst umhirða búfjár nærveru mannsins árið um kring. Einyrkjafyrirkomulag er ríkjandi í landbúnaði þó oft sé annað fyrirkomulag til staðar s.s. fjölskyldur eða 2-3 kynslóðir í samstarfi. Engu að síður getur sú staða komið upp að vegna veikinda geti orðið brestur á að nægir starfskraftar séu aðgengilegir til að sinna nauðsynlegri umhirðu og nýtingu afurða. Heimsfaraldur vegna Covid-19 sjúkdómsins hefur minnt rækilega á að bændur þurfa á öryggisneti að halda þegar sjúkdómar koma í veg fyrir að þeir geti sinnt störfum sínum.
Bændur eiga oft erfitt með að taka sér leyfi frá störfum. Margt getur komið þar til, s.s. skortur á þjálfuðu fólki til að taka slík störf að sér. Búskapur með búfé er bindandi, honum þarf að sinna alla sjö daga vikunnar, árið um kring. Lágar tekjur geta einnig verið önnur ástæða þess að bændur treysta sér ekki til að kaupa vinnuafl í afleysingar. Afleiðingin getur orðið sú að bændur verða útkeyrðir af löngum vinnudegi árið um kring. Hvíld og tækifæri til að njóta samveru með sínum nánustu eru einmitt einn mikilvægur þáttur í að hlúa að eigin heilsu og gæta jafnvægis í lífinu. Góð heilsa bænda er einnig mikilvæg til að tryggja að störf séu vel unnin sem er stór þáttur í velferð búfjár.
Í ljósi þessa verður að sjá til þess að bændum standi til boða öryggisnet sem hefur þann tilgang að veita aðstoð við nauðsynleg störf þegar veikindi, slys eða önnur forföll ber að höndum. Sjúkra- og afleysingaþjónusta bænda er fyrirkomulag sem er vel þekkt bæði í Noregi og Finnlandi.
Fyrirmyndir frá Finnlandi og Noregi
Í Finnlandi er starfrækt afleysingaþjónusta fyrir bændur sem eru með búfé á vegum hins opinbera. Hún byggir á löggjöf og reglugerð um afleysingaþjónustu við bændur. Félags- og heilbrigðismálaráðuneyti Finnlands hefur yfirumsjón með verkefninu en dagleg umsjón er í höndum sérstakrar stofnunar, Félags- og tryggingastofnunar bænda, (Mela). Staðbundnar skrifstofur sem starfa fyrir eitt eða fleiri sveitarfélög sjá um verklega framkvæmd og ráða hæfilega fjölda fólks til að sinna störfunum. Til að geta átt aðgang að þjónustunni þarf bóndinn að hafa gilda tryggingu.
Sjúkra- og afleysingaþjónusta hefur verið hluti af norskum landbúnaði síðan 1991 þegar Norska landbúnaðarþjónustan (NLT) var stofnuð af bændum. Lögð er áhersla á að tryggja bændum góða og trygga afleysingaþjónustu þegar veikindi eða slys ber að höndum en einnig stendur þeim til boða að fá keypta afleysingaþjónustu þegar svo ber undir. Góð afleysing og velferðarþjónusta er í dag mikilvægur hluti af norskum landbúnaði og dýravelferð.
Fjármögnun afleysingaþjónustu bænda
Til að kostnaðarmeta verkefni sem þetta þyrfti að skilgreina þann hóp sem ætti rétt á afleysingu annars vegar, hve umfangsmikil þessi þjónusta ætti að vera og hve mikill hluti kostnaðarins á að vera borinn af notendum. Til að greiða leið verkefnis sem þessa má benda á að Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einyrkja, sem er í eigu ríkisins, er fjárhagslega sterkur sjóður. Eigið fé sjóðsins í árslok 2019 nam kr.1.102.139.632. Nánast engar útborganir eru úr sjóðnum. Stærsti hluti sjóðsins telst tilheyra bændum en auk þeirra greiða í sjóðinn sjálfstætt starfandi vörubifreiðastjórar og smábátasjómenn.
Fyrirmyndir eru til, aðgerða er þörf
Í Covid-19 faraldrinum var gert sérstakt samkomulag milli Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einyrkja, Vinnumálastofnunar og Bændasamtaka Íslands um nýtingu fjármagns úr sjóðnum til að fjármagna afleysingar vegna veikinda meðal bænda af völdum sjúkdómsins. Þar með er komið fordæmi fyrir þessu og vandséð af hverju ætti ekki að vera hægt, alla vega að undangengnum nauðsynlegum lagabreytingum. Með þessu væri leitað í fjármuni sem vissulega hafa komið frá atvinnugreininni með skattheimtu (tryggingagjaldi).
Framkvæmdin var síðan í höndum Bændasamtakanna. Hér er komin fyrirmynd að lausn á þessu verkefni þar sem fjármunir sem safnast hafa upp í gegnum tíðina finna farveg og koma bændum til góða. Engin þörf verður á að setja upp enn eina stofnunina, þekkingin á viðfangsefninu er þegar til staðar hjá samtökum bænda. Bændasamtök Íslands hafa áður leitað möguleika til að fara þessa leið. Stuðningur sem þessi ætti að teljast til sjálfsagðrar félagsþjónustu, þegar veikindi eiga í hlut auk þess að vera öryggisatriði. Við teljum að Alþingi eigi að beita sér fyrir nauðsynlegri lagasetningu til að af þessu megi verða og munum beita okkur fyrir því á þeim vettvangi.
Erna Bjarnadóttir hagfræðingur og Heiðbrá Ólafsdóttir bóndi.
Höfundar skipa 2. og 3. sæti á framboðslista Miðflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.