Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Vanhugsað og varasamt frumvarp á Alþingi
Lesendarýni 29. apríl 2015

Vanhugsað og varasamt frumvarp á Alþingi

Höfundur: Ólafur R. Dýrmundsson
Á forsíðu síðasta Bændablaðs var greint frá því að landbúnaðar­ráðherra hafi kynnt laga­frumvarp í ríkisstjórninni  20. mars sl., sem muni á næstunni heimila innflutning á sæði úr norskum holdanautum. Reikna má með að það hafi nú þegar verið lagt fram og sé komið til atvinnuveganefndar Alþingis.  
 
Image caption goes here
Þar er væntanlega einnig til afgreiðslu  tillaga til þingsályktunar síðan í haust um innflutning nautasæðis til eflingar innlendri mjólkurframleiðslu.  Svo sem fram hefir komið áður í Bændablaðinu og víðar styður stjórn Landssambands kúabænda (LK) eindregið bæði þessi mál.
 
Innflutningsþörfin
 
Lengi hefur legið fyrir að endurnýja þurfi erfðaefni hinna erlendu holdanautakynja sem fyrir eru í landinu. En margt fleira en kynbætur þarf að koma til eigi  að auka nautakjötsframleiðsluna og mæta markaðskröfum,  svo sem bætt fóðrun og beit, snýkjudýravarnir á beitilandi,  betri aðbúnaður í högum og á húsi, auk eflingar ráðgjafar til bænda um nautakjötsframleiðslu.  Um þetta geta flestir verið sammála og best er að allt þetta fari saman.  Það sem aftur á móti er álitamál er sú aðferð sem beitt verður við innflutning nýs erfðaefnis, hvort sem um er að ræða sæði eða fósturvísa, enda ekki á dagskránni að flytja inn lífdýr.
 
Fyrri innflutningur
 
Að flestra dómi tókst innflutningur erfðaefnis nýrra holdanautakynja,  Aberdeen Angus og Limousin fyrir 20 árum, auk endurnýjunar á Galloway þá og fyrir 30 árum,  í einu orði sagt; vel. Einangrunarstöðin í Hrísey reyndist prýðilega og virðist mér að almenn sátt hafi verið um þá stefnu að flytja inn fósturvísa í gegn  um opinbera einangrunarstöð þar sem fyllstu sóttvarna væri gætt.   Hérlendir dýralæknar hafa mikla reynslu og þekkingu um þessi efni og hafa hingað til haft í heiðri þá smitgát sem nauðsynleg er hér á landi. Þar hefur Ísland reyndar algera sérstöðu, tiltölulega fáir búfjársjúkdómar, ónæmi skortir gegn ýmsum smitsjúkdómum sem eru t.d. þekktir í Noregi, og síðast en ekki síst er mikill stuðningur bænda við markvissar sóttvarnir og  góður skilningur flestra neytenda  á þessari sérstöðu. Þar við bætist þörf vandaðara sjúkdómavarna vegna verndunar landnámskynjanna sem teljast til þjóðargersema.  Þær fjölbreyttu erfðaauðlindir hafa íslenskir bændur og aðrir búfjáreigendur varðveitt um aldir og ríkisstjórn Íslands er bundin alþjóðlegum samningum um  viðhald og verndun þeirra allra um alla framtíð samkvæmt Ríó-sáttmálanum frá 1992.
 
Ný stefna – erlent sæði beint inn á íslensk kúabú
 
Í því frumvarpi til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra,  nr. 54/1990 , sem landbúnaðarráðherra leggur nú fram,  sennilega undir miklum þrýstingi frá stjórn LK,  á að heimila sæðingu holdakúa á venjulegum íslenskum kúabúum,  með innfluttu sæði.  Þarna á sem sagt að sleppa þeim veigamikla varnagla sem sérstök einangrunarstöð er, hvort sem hún er á eyju eða á fastalandinu. Þetta er því allt önnur aðferð við innflutning erlends erfðaefnis nautgripa en sú sem beitt hefur verið um áratuga skeið hér á landi með góðum árangri, eftir því sem best er vitað. Að  mínum dómi er verið að leggja grundvöll að veikari innflutningsvörnum sem gæti haft alvarlegar afleiðingar.  Þarna á greinilega að feta í fótspor svínaræktarinnar en ólíku er saman að jafna, svínahaldi í lokuðum og býsna vel einangruðum búum eða holdanautaframleiðslu, bæði innan dyra og utan, þar sem erfitt eða ógerlegt er að koma í veg fyrir snertingu eða samgang við annað búfé eða önnur dýr yfirleitt. Óhætt er að fullyrða að engin holdanautabú á Íslandi geta uppfyllt þær kröfur og gerðar eru á sérhæfðum einangrunarstöðvum.  Þá er ólíklegt að önnur kúabú geti svarað þeim kröfum, jafnvel þótt kýrnar séu hýstar allt árið, án beitar, sem nú er reyndar orðið ólöglegt.
 
Eru „varnarlínur“ Bændasamtaka Íslands að bresta?
 
Þann 9. júní 2011 voru birtar á prenti lágmarkskröfur Bændasamtaka Íslands (BÍ) í viðræðunum við Evrópusambandið, svo kallaðar „varnarlínur“ sem Haraldur Benediktsson, þáv. stjórnarformaður BÍ og núv. alþingismaður, fylgdi úr hlaði. Fyrsti kafli þeirra ber heitið „Réttur Íslands til að vernda heilsu manna, dýra og plantna“.   Eftir þessum „varnarlínum“ hefur verið unnið enda samþykktar af Búnaðarþingi, æðstu valdastofnun BÍ. Þær einkennast m.a. af fyllstu varkárni gegn þeirri hættu sem að íslenskum landbúnaði getur steðjað af smitsjúkdómum með innflutningi dýra og dýraafurða hvers konar, þar með erfðaefni og ófrystu kjöti, svo að dæmi séu tekin. Í „varnarlínunum“ er einnig tekið fullt tillit til  verndaraðgerða vegna varðveislu landnámskynjanna því að komi upp skæðir smitsjúkdómar gæti a.m.k. minnstu stofnunum verið ógnað. Slíkt gerðist t.d. á Bretlandseyjum þegar gin- og klaufaveikifaraldurinn gekk þar yfir um síðustu aldamót og einnig þegar kúariðan var þar í algleymingi. Að mínum dómi laskast „varnarlínurnar“ verulega ef framangreind lagabreyting verður samþykkt og einnig gæti  áðurnefnd þingsályktunartillaga um innflutning nautasæðis til eflingar innlendri mjólkurframleiðslu reynst mikið skaðræði. Þá er orðið stutt í að enn ein atlagan verði gerð að íslenska mjólkurkúakyninu.  Því er eðlilegt að spurt sé hvort „varnarlínur“  BÍ séu að bresta.  
 
Lítil umræða um veigamikil mál
 
Ég furða mig á því hve lítið ber á umræðum um þessi varasömu þingmál. Afstaða stjórnar LK er mjög skýr og hún hefur verið vel kynnt, m.a. í Bændablaðinu, en lítið heyrist frá öðrum. Aðferðir við innflutning erfðaefnis nautgripa geta ekki verið einkamál kúabænda.  Hví eru t.d. félög sauðfjárbænda og ungra bænda svo hljóð og hver skyldi afstaða stjórnar BÍ vera nú þegar frumvarpið og þingsályktunartillagan gætu hlotið samþykki Alþingis innan fáeinna vikna? Ég tel að hér séu á ferðinni stærri mál en margur hyggur og hvet bændur og aðra búfjáreigendur til að kynna sér þau.  Eitt er víst að fari svo að „varnarlínurnar“ verði laskaðar er hætt við að samningsstaðan gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og Evrópusambandinu (ESB) muni versna, jafnvel til muna. Þá leiðir af öðru að varnir gegn innflutningi á ófrystu kjöti og öðrum erlendum búfjárafurðum munu trúlega veikjast. Myndi þá vænkast hagur þeirra innflytjenda sem sækja nú mjög markvisst að ráðandi stöðu á íslenskum búvörumarkaði. Varla verður það til góðs fyrir  íslenskar sveitir og fæðuöryggi þjóðarinnar.
 
Ábyrg afstaða Dýralæknafélags Íslands
 
Norskir dýralæknar telja hverfandi litla áhættu stafa af sæðingum með sæði frá nautum í Noregi á íslenskum kúabúum. Eflaust eru góðar smitvarnir hjá fyrirtækinu GENO sem LK hefur oft vísað til. En miklu máli skiptir að í áhættumati þarlendra dýralækna er alls ekki tekið tillit til ýmissa sjúkdóma sem þekktir eru í Noregi en ekki á Íslandi. Staðan hér er miklu betri, ekki síst vegna þess að Noregur er mun opnari fyrir hinu frjálsa flæði vöru og þjónustu frá ESB en Ísland, einkum vegna legu landsins. Kúariða var nýlega greind í Noregi og skömmu fyrir síðustu aldamót var þar fyrst greint nýtt afbrigði riðuveiki í sauðfé, NOR 98, sem síðar barst hingað eftir ókunnum leiðum. Ég tel eðlilegra og í raun nauðsynlegt að byggja á áliti íslenskra dýralækna. 
 
Vottorðatrú er varasöm
 
Þótt ekki sé að öllu leyti saman að jafna minni ég á heilbrigðisvottorðið sem fylgdi Karakúlfénu frá Dýralæknastofnuninni í Halle í Þýskalandi 1933.  Ekki reyndist það pappírsins virði þegar á hólminn var komið. Reyndar er ég frekar vantrúaður á vottorð um slík efni og eftirlitsstofnanir eiga oft erfitt með að halda uppi nægilega góðu, lögbundnu eftirliti vegna fjárskorts og manneklu. Því treysti ég best þeim innlendu dýralæknum sem hafa bæði yfirgripsmikla þekkingu og áratuga reynslu til að byggja umsagnir og ákvarðanir á.   Það vekur því vonir um vitrænni umfjöllun um framangreind þingmál að fyrir liggur  skýr og afdráttarlaus umsögn frá Dýralæknafélag Íslands sem hlýtur að vega þyngst allra umsagna um fyrirhugaðar lagabreytingar.  Verði gengið framhjá áliti DÍ yrði það mikið áfall fyrir alla þá sem vilja sýna fyllstu varkárni við innflutning erlends erfðaefnis og þá munu sennilega slitna enn fleiri strengir í „varnarlínum“ BÍ. 
 
Fósturvísar í gegnum einangrunarstöð á Stóra-Ármóti?
 
Af framangreindri umsögn DÍ má ráða að affærasælast sé að flytja fremur inn fósturvísa en sæði. Í framangreindri þingsályktunartillögu, sem reyndar fjallar um mjólkurkýr,er vikið að því að Tilraunabúið á Stóra-Ármóti í Flóa geti komið við sögu innflutnings erlends erfðaefnis nautgripa. Þar sem ekki virðist raunhæft að endurreisa einangrunarstöð á eyju er eðlilegt að bændur velti því fyrir sér hvort það væri vænlegur kostur að koma upp viðurkenndri, opinberri einangrunarstöð í Stóra-Ármóti með fullkomnustu sóttvörnum líkt og voru í Hrísey á sínum tíma.   Þangað yrðu fluttir fósturvísar  og þar færu fyrstu ræktunarstigin fram líkt og gert var í Hrísey.  Staðsetningin er ákjósanleg, víðs fjarri Nautastöðinni á Hesti Í Borgarfirði og í næsta nágrenni við Matvælastofnun á Selfossi sem myndi auðvelda eftirlit. Um þetta gætiv sennilega náðst sæmileg sátt enda í samræmi við álit DÍ en í lok þess segir stutt og laggott: 
„Það er mat DÍ að þessi lagasetning sé verulega vanhugsuð“.  Undir það tek ég heilshugar.
 
Hvað gerist á Alþingi?
 
Nú má vænta þess að atvinnu­veganefnd Alþingis muni leggja alúð við framangreind þingmál því að þau gætu orðið mjög stefnumótandi  og  velt þungu hlassi í framtíðinni.   Vonandi verður hlustað vel á hin ýmsu sjónarmið  og hugsanlega verða gerðar viðunandi úrbætur. En það sem ræður þó úrslitum eru atkvæðagreiðslurnar við afgreiðslu í þinginu. Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra og dýralæknir er því miður búinn að leggja frumvarpið fram þótt félagar hans í DÍ hafi mælt gegn þessari lagasetningu, enda byggð á veikum grunni miðað við aðstæður hér á landi eins og áður var vikið að. Varla getur hann greitt atkvæði gegn eigin frumvarpi.
 
En hvað segja bændur nú, t.d. Haraldur Benediktsson alþingismaður, bóndi og búfræðingur, sem hefur staðið dyggilega vörð um framangreindar „varnarlínur“ það ég best veit?  Eða aðrir þingmenn í bændastétt? Hvað ætlið þið að gera áður en í óefni er komið? Viljið þið eða treystið þið ykkur til að tala fyrir viðunandi breytingum á lagatextanum,  sem landbúnaðarráðherra lagði fram, og fella hreinlega þingsályktunartillöguna? Það verður ekki bæði sleppt og haldið.
 
Dr. Ólafur R. Dýrmundsson
fv. landsráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, nú sjálfstætt starfandi  búvísindamaður og ráðgjafi um landbúnaðarmál
(oldyrm@gmail.com)
Flekkur kom úr langferð á jólaföstu
Lesendarýni 27. desember 2024

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu

Hér á bæ fæddist svartflekkóttur lambhrútur 14. maí 2021, fremur smár tvílembing...

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....