Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Vegstæði um þveran Hornafjörð − Rök með og móti
Lesendarýni 23. júlí 2015

Vegstæði um þveran Hornafjörð − Rök með og móti

Höfundur: Páll Imsland
Hornafjörður og hin strandlónin á Suðausturlandi, Skarðsfjörður, Papafjörður, Lónsfjörður, Álfta­fjörður og Hamarsfjörður, eru náttúrufyrirbæri sem eru einstök á heimsvísu. Hvergi annars staðar á ströndum heimsins finnast fyrirbæri af þessari gerð. 
 
Það sem er einstakt í þessu samhengi er eftirfarandi: Hér er um að ræða stór sjávarlón með ísöltu og jökulleirblönduðu vatni, með sjávarfallaósi og sjávarföllum, afgirt af malarrifjum frá úthafinu. Þessi lón eru í basaltumhverfi. Berggrunnur í undirlendi og eyjum er úr basalthraunlögum og setið sem á ferðinni er með straumunum er að langmestu leyti niðurmulið basalt af leir- og sandkornastærð. Basalt er á heimsvísu sjaldgæft nema á botnum úthafanna en þarna er það sem sagt í sjaldgæfu aðalhlutverki.
 
Lón þessi eru ekki bara einstök af sjálfum sér, þau standa einnig undir einstöku lífríki. Þau eru uppeldisstöðvar fyrir lúru og silungur gengur þar í miklu magni. Þau eru mikil fuglaparadís og bjóða upp á kjörlendi, sérstaklega fyrir vaðfugla og sundfugla. Þetta eru allt í senn fuglar sem flækjast, fara og koma árstíðabundið eða eiga sér fasta búsetu. 
 
Inn til landsins eru lónin umgirt af fjöllum sem ferli náttúrunnar hafa farið höndum um á magvíslegan hátt og mótað í form- og litfagra umgjörð, krýnda jöklum og líflegu skýjafari með logagylltu litaspili þegar vel lætur.
 
Í stuttu máli sagt er hér einstök náttúra og hún er vinsæl hjá fjölda fólks, bæði heimafólki sem dáir og nýtur síns umhverfis, og brottfluttum, sem lifa með minningum um þessa einstöku fegurð. Núorðið er þessi náttúra auk þess orðin vaxandi aðdáunarefni túrista úr öllum heimshornum og þar með söluvara.
Nú er fyrirhugað að leggja uppbyggðan nútímaþjóðveg þvert yfir Hornafjörð, úti á leirunum framan bæja í Nesjum. Það er orðin löng og ströng leið að þeirri ákvörðun og af þeim möguleikum sem til greina hafa komið hefur sú versta nú verið valin og er sögð eiga að koma til framkvæmdanna árið 2017. 
 
Sögur herma að valið á leiðinni liggi hjá sveitarstjórninni, en ekki Vegagerðinni. Þessi leið er afar slæm af vegagerðarástæðum, eins og getið verður síðar, svo ekki kemur á óvart þó hún sé ekki efst á lista Vegagerðarinnar. Hitt kemur á óvart að það skuli vera ráðamenn heima fyrir sem velja þá leið sem lélegust er og jafnframt spillir mestu frá umhverfislegum sjónarmiðum.
 
Ókostirnir sem ég hef séð á þessari vegarleið verða nú taldir upp og ræddir lítillega. Þeir eru gróft flokkaðir tíu talsins en kosturinn sem ég hef séð á leiðinni er hins vegar aðeins einn.
 
  1. 1. Hornafjörður yrði í raun eyðilagður sem það náttúrufyrirbæri sem hann er og lýst hefur verið að ofan. Þetta er spilling á náttúruminjum sem ættu í raun að vera á heimsminjaskrá yfir verndarsvæði. Hornafjörður er í örri og merkilegri náttúrufarslegri þróun og er höfuðsynd að spilla þessu fyrirbæri.
     
  2. 2. Sjónmengun og spilling útsýnis fylgir veginum. Ef byggður er upphækkaður nútímavegur á þessum stað skyggir hann á forgrunn þeirrar fögru jökla- og fjallasýnar sem er af láglendinu inn til landsins, t.d. frá Höfn. Þetta kemur bæði niður á heimamönnum og túristum, sem nú er leyft og reynt að veiða þarna í ótakmörkuðu magni og kvótalaust. Vatnaspegillinn mikli með jökla og litskrúðugan og formfagran fjallahring í bakrunni og grænar eyjar og brekkur sveitanna í forgrunni spillist. Í forgrunninn kemur grásvartur þröskuldur upphleypts vegar sem skyggir á græna forgrunninn og minnkar spegilinn til muna. 
     
  3. 3. Hækkandi vatnsstaða verður landmegin vegar og aukin setsöfnun því fylgjandi. Svæðið breytist í votlendi, mýrar og rot, eins og víða einkenna fjarðarbakkana beggja megin Fljótanna.
     
  4. 4. Nýir álar verða til fjarðarmegin vegar með tilheyrandi uppróti leirs og sands framan nýrra brúa. Vatninu verður beint í fáeina farvegi undir brýr og ræsi, sem eykur straum staðbundið og veldur rofi og auknu gruggi a.m.k. framan af.
     
  5. 5. Breyting verður á vistkerfum beggja megin vegar og meðfylgjandi eyðilegging á fuglaparadís og uppeldisstöðvum lúru. 
     
  6. 6. Minnkun og gjörbreyting á veiðisvæðum lúru- og silungsveiðimanna í almenningi Hornafjarðar. Þessi almenningur er lögverndaður með marga alda langa hefð að baki og merkilegur í menningarsögulegu samhengi ekki síður en atvinnusögulegu.
     
  7. 7. Minnkun verður á virkum vatnsgeymi Hornafjarðar og þar af leiðandi minna streymi um Hornafjarðarós með tilheyrandi þrengingum innan og utan óssins. Vegurinn með þröngum brúm og ræsum tefur fyrir bæði inn- og útfalli og dregur þannig úr heildarvatnsmagni sem streymir um vatnsgeyminn, Hornafjörð. 
     
  8. 8. Meiri hluti vatnsins landmegin vegar verður staðið vatn í miklu meiri mæli en nú er og endurnýjun minnkar með meðfylgjandi minnkandi ferskleika. 
     
  9. 9. Í vatnavöxtum á vorin og í asahlákum á vetrum getur svo mikið vatn streymt til fjarðarins að það verði fyllir. Fyllirinn verður einkum mikill ef saman fara úrfelli og leysing til fjalla og sterkar suðlægar áttir sem hamla á móti útstreymi og reka vatnið upp á landið. Slíkir fyllar hafa alltaf komið af og til og verða svo miklir að flóðið verður inn að eða inn fyrir núverandi brú á Hornafjarðarfljótum. Árnanes verður þá eyja umfloti á alla vegu og af þessu má sjá hversu mikill svona fyllir getur orðið. Eftir að búið verður að girða yfir fjörðinn með vegi á fyllir á bak við veginn enga útrás að gagni og geymirinn ofar vegar fyllist og þá flóir yfir veginn nema hann verði þeim mun hærri. Flæði yfir veginn hefst rof á honum, hann eyðileggst á köflum og ófært verður um hann.
     
  10. 10. Vegarstæði úti á leirunum framan við nes og tanga er lélegasta vegarstæðið af þeim sem í boði eru af þremur ástæðum:
     
A) Aðlögun að mjúku vatnssósa undirlagi vegarins, leir og sandi mun taka mörg ár og þó líklegar áratugi. Þessi fullnaðarþjöppun undirlagsins mun taka áratugi og vegurinn mun því árum saman verða í bylgjum, hvilftum og bungum.
 
B) Vegurinn  mun  liggja  undir ágjöf sjávar í stormveðrum með tilheyrandi salt- og leirmengun.
 
C) Vegurinn mun  einnig liggja undir ísingarágjöf á vetrum af þessum sökum með tilheyrandi hættu vegna hálku.
 
Rökin með vegagerðinni á þessari veglínu eru hins vegar aðeins ein, að því er ég best fæ séð, þ.e.a.s. stytting hringvegarins. Áætlaður vegur framan við Árnanes og Hafnarnes styttir vegarkaflann frá Hólmsá til Hafnar um 11,5 km miðað við núverandi vegarstæði. Næstu valmöguleikar norðar er uppi á þurrlendinu. Þetta eru leiðir 1, 4 og 5 á þeim kortum sem teiknuð hafa verið upp af möguleikunum. Þær eða eitthvert samspil af þeim leiðum styttir vegarkaflann frá Hólmsá til Hafnar um sömu kílómetratölu. Lengdarmunur þessara tveggja möguleika er sem sagt enginn. 
 
Það eru því engin rök fyrir því að velja þær leiðir síður en leiðina um þveran fjörðinn framan bæja. Hins vegar eru öll hin rökin sem mæla frekar með því.
 
Það er alvöruspurning hvort sveitarstjórnin ætlar að standa fast á þessu slæma vegarstæði og stuðla þannig samtímis að gölluðum samgöngubótum og eyðileggingu umhverfis sem er einstakt á heimsvísu og dáð og mikils metið af þúsundum og aftur þúsundum manna.
 
Páll Imsland 23. júní 2015

Skylt efni: Vegagerð | Hornafjörður

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...