Við og sauðkindin
Mynd / smh
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Höfundur: Gunnar Einarsson, bóndi til 40 ára á Daðastöðum í Núpasveit.

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þurfti til að þrauka.

Gunnar Einarsson.

Það er algengt að kenna henni um að gróður hafi farið illa á Íslandi. Hún hjálpaði án efa til. Skógar voru brenndir til að búa til ræktunarland. Skógar voru höggnir til að byggja, til að hita hús, mat og til kolagerðar. Skógurinn og þær gróðurleifar, sem voru eftir voru síðan beittar allt árið. Það var vetrarbeitin sem var verst. Einkum vorbeitin þegar gróðurteinarnir voru það eina sem einhverja næringu höfðu. Skógurinn náði ekki að endurnýja sig.

Breyttir búskaparhættir

Það hafa orðið algjör umskipti í búskap. Í dag er kindum gefið frá byrjun desember, út maí. Kindunum eru beitt á tún bæði vor og haust. Beitartíminn í úthaga er aðeins brot af því sem hann var. Þar fyrir utan hefur kindum fækkað um nærri helming.

Sumarbeit

Ég hef farið um landið reglulega í marga áratugi. Það leynir sér ekki að gróðurfar er að batna. Á landi sem áður var stífbeitt er núna að koma upp kjarr. Það er helst að sjá hrossahaga, sem ekki er að fara fram. Það þýðir ekki að allt sé í góðu lagi. Það eru gríðarlega miklir möguleikar á að bæta landið, auka frjósemina og með því væri hægt að stórauka framleiðslu bæði á kinda- og nautakjöti.

Áhrif á landbúnað annars staðar

Víða í heiminum hefur landbúnaður farið illa með land og skilið það eftir sem rústir einar. Dæmin eru endalaus. Það þýðir ekki að það eigi að hætta landbúnaði. Það eru líka mörg dæmi um að landbúnaður bæti landið. Því miður er enn mikið um að landbúnaður sé að rýra land. Það er vel hægt að búa þannig með sauðkindur að búskapurinn bæti landið, bindi kolefni.

Það tapaðist ekki bara gróður heldur líka frjósemi

Því miður var það ekki bara gróður sem tapaðist heldur tapaðist líka frjósemi úr moldinni, þótt gróður héldist áfram. Frjósemi moldarinnar hefur mikil áhrif á hvað vex í henni. Kræki- og beitilyng vex ekki í frjósömum jarðvegi. Fyrst á eftir að skógur hverfur eru blómjurtir og gras ráðandi, en síðan tekur lyngmóinn smátt og smátt yfir. Þegar birkið og víðirinn taka aftur yfir móann, eykst frjósemin aftur, þá kemur grasið og blómjurtirnar og verða ráðandi. Þetta var mjög greinilega að gerast á Daðastöðum. Frjósamt land gefur af sér 5 til 10 sinnum meiri uppskeru.

Sýn á moldina

Á undanförnum árum hafa margir jarðvegsfræðingar verið að horfa meira á jarðveginn sem líffræðilega súpu, ekki efnasúpu eins var algengara hér áður. Það hefur verið mín reynsla að erfitt er að ná upp frjósemi með tilbúnum áburði. Skítur aftur á móti virkar allt öðruvísi og kemur líffræðilegum ferlum af stað.

Reynsla af ræktun móa

Við tókum nokkru sinnum mólendi til túnræktar. Ef við bárum vel á af skít, ítrekað, náðum við upp frjósemi, þannig að gras hélst þó ekki væri borið á. Við unnum líka móa, ræktuðum kál í tvö ár. Bárum síðan ekkert á. Moldin virðist hálf dauð. Það eina sem lifnar í þessum fyrrum móatúni er mosi, beitilyng og eitthvað af krækilyngi. Ein af ástæðunum fyrir uppblæstrinum var að frjósemin hrundi, þannig að gróður endurnýjast afar hægt og það myndast rof í landið. Móinn vex víða hér á landi, þar sem hann er ekki náttúrulegur gróður, heldur hrunið vistkerfi. Þegar lúpína fer yfir móann verður hann að frjósömu landi.

Hvernig metum við beitarþol?

Þegar ég vann á Nýja-Sjálandi var notuð þar einföld og skilvirk leið til að meta beitina, sjónmat. Fulltrúi frá gróðureftirlitinu kom, keyrði um landið með bóndanum og gaf út hvort það mætti fjölga í bústofninum. Þetta væri góð aðferð hér á landi. Það eru nokkur atriði sem þarf að skoða. Til að taka dæmi um hvernig sjónmat virkar, hugsum við okkur beitiland, þar sem loðvíðir er greinilega í sókn. Þá er ekki ofbeit á því svæði. Það eru víða á landinu ógróin svæði innan um gróin. Það hafa verið gerðar athuganir á framförum gróðurs á melum á friðuðu og beittu landi, til dæmis á Hrunamannaafrétt. Gróðurþekjan jókst ekkert hraðar á friðuðu reitunum.

Algróið land þar sem eru engar framfarir, kjarrið er ekki í sókn, er ekki betur statt heldur en land, sem er bland af melum og móum þar sem gróður er í góðri framför.

Hvernig viljum við að landið verði?

Skógræktin hugsar áratugi fram í tímann, 80–100 ár. Það er eins með landbætur, þær skila fljótt einhverju en eftir 100 ár gæti beitarþolið hafa margfaldast. Við reyndum að hugsa bæði til lengri og skemmri tíma. Að landið yrði algróið með frjósamri mold. Kjarr og opið land á milli. Gras, blómjurtir og loðvíðir taki við af mosa og lyngi. Beitarþolið margfalt. Barrskógarreitir til timburframleiðslu. Þessum árangri ná menn með búskap, ekki án hans.

Landbúnaður og náttúruvernd

Ég get ómögulega séð að friðun skilaði betra landi til útivistar, en sauðfjárbúskapur.

Praktískar aðferðir við að gera landið upp

Fyrst, melar gróa að lokum að sjálfsdáðum, bæði á friðuðu og beittu landi, en það getur þurft að bíða lengi, allt of lengi. Landið grær oft þannig að fyrst kemur mosi, sem lyng kemur sér fyrir í. Ef móinn í hring er í góðu ástandi kemur fjalldrapinn og annað kjarr í kjölfarið. Þetta gerist svipað þegar borinn er á áburður með fræi. Þrátt fyrir að við berum á ítrekað hverfur grasið. Það gerir ekkert til ef annar gróður tekur við, en því miður gerist það ekki alltaf. Ef skítur er borinn á fara lífrænir ferlar í gang, sem tryggja miklu betri árangur. Langbesti árangurinn var samt með lúpínunni. Við tókum fyrir svæði og friðuðum þau. Sáðum lúpínu, helst með grasfræi. Þegar lúpínan var komin vel af stað fórum við að beita hana, fyrstu árin á haustin. Grasið í lúpínuökrunum verður eins og áborið. Með því að beita þessa akra fengum við mjög góða frjósemi, án nokkurs fóðurbætis og án þess að hafa súperhey. Landgræðsla með lúpínu skilaði hagnaði á mörgum jörðum. Við fengum lúpínufræ hjá Landgræðslunni og er ég sannfærður um að ræktun á lúpínu hafi verið þeirra þarfasta verk.

Ræktun lúpínu virkar meðal annars þannig að uppskera til beitar stóreykst. Þetta minnkar álagið á annað land og er áfangi á leiðinni að ná upp loðvíðinum.

Rofabörð

Við létum ryðja niður tugum kílómetra af rofabörðum og ræktuðum þau upp, fyrst á eigin vegum, en fengum síðan góða styrki frá Landbótasjóði. Það stoppar rof úr börðum að bera á þau, en landið grær oftast ekki vel saman nema að ryðja þeim niður með jarðýtu, sérstaklega ef þau eru há.

Ræktun rofabarða ætti að vera í forgrunni. Hver hefði ræktað þessi borð ef ekki hefði verið sauðfjárbúskapur?

Skógrækt og sauðkindin

Við vorum í samvinnu við Skógræktina um að rækta beitarskóga, barrskóga. Birkið er í mikilli sókn á Daðastöðum. Það er því miður enn í gangi sá misskilningur að skógar og sauðkindin eigi ekki samleið. Það er alveg öfugt, það þarf að búa þannig að skógar aukist, bæði barrskógar og þessi gamli góði. Það er best fyrir landið og sauðkindina.

Þetta er stuttur útdráttur úr lengri grein sem er á Facebook undir mínu nafni og Áhugafólk um landgræðslu.

Skylt efni: friðun

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...