Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Fulltrúar allra aðildarfélaga Bændasamtakanna mættu til formannafundar á dögunum.
Fulltrúar allra aðildarfélaga Bændasamtakanna mættu til formannafundar á dögunum.
Mynd / TB
Skoðun 7. nóvember 2019

Markmiðið er að ná meiri slagkrafti

Höfundur: Guðrún S. Tryggvadóttir, formaður Bændasamtaka Íslands, gst@bondi.is

Formannafundur BÍ var haldinn 24.–25. október síðastliðinn. Fyrri daginn voru félagsmálin rædd en félagskerfisnefndin sem Búnaðarþing 2018 skipaði kynnti starf sitt og þær hugmyndir sem hún hefur unnið að síðustu mánuði. Talsverðar umræður sköpuðust um tillögurnar og voru fulltrúar félaganna hvattir til að fá kynningu fyrir félagsmenn sína og ræða sín viðhorf til hugmyndanna. Nefndin er tilbúin að fara og heimsækja bændur, kynna tillögur sínar í aðildarfélögunum og fá ábendingar. Þetta er að sjálfsögðu félagskerfið okkar allra sem er til umræðu og því afar mikilvægt að sem flestir komi að og taki þátt í vinnunni. Betur sjá augu en auga.

Við þurfum öflugt og skilvirkt félagskerfi

Tillaga félagskerfisnefndarinnar verður í vinnslu næstu mánuði en hún verður síðan tekin til afgreiðslu á Búnaðarþingi í mars. Mikilvægt er að sem flestir kynni sér vel þær hugmyndir og fái nefndina til að fara yfir málin heima í héraði. Markmiðið er að gera félagskerfið öflugra og skilvirkara til að við getum náð meiri slagkrafti í hagsmunabaráttu bænda. Af því veitir sannarlega ekki og þar verða menn að horfa á hagsmuni heildarinnar en ekki festast í þrengri hagsmunum. Bændur hafa hvorki tíma né efni á að standa sundraðir á þeim tímum sem nú eru uppi. Ég hvet alla til að setja sig inn í þessi mál og láta sig þau varða.

Til þess að vel takist til þurfum við að skipuleggja saman hvernig við viljum hafa hagsmunasamtök bænda til að þau verði sem sterkust og öflugust. Um það snýst málið.

Vaxandi þungi í loftslagsmálum

Umhverfis- og loftslagsmál voru umræðuefni síðari dagsins en umhverfisnefndin kynnti stöðu við gerð umhverfisstefnu landbúnaðarins. Markmiðið með henni er að setja fram heildstæða stefnu í landbúnaðarmálum þar sem sjálfbærni verður höfð að leiðarljósi og landbúnaðurinn setji sér skýra og markmiðasetta stefnu í umhverfismálum til næstu ára. Umhverfismálin eru bændum hugleikin og miklar og góðar umræður spunnust í kjölfar kynningarinnar. Nefndin stefnir á að senda drög til kynningar í aðildarfélögunum þannig að félagsmenn geti allir kynnt sér stefnuna og komið með ábendingar. Stefnt er að því að afgreiða nýja umhverfisstefnu á Búnaðarþingi í mars nk. Þetta er ekki síður mikilvægt fyrir landbúnaðinn og ég hvet félagsmenn sem þetta varðar til að taka þátt í umfjöllun í sínum aðildarfélögum þegar að henni kemur.

Náum samhljómi um það hvert við ætlum

Í umfjöllun um loftslagsmál og sér í lagi um  losun kolefnis ber skýrslum eða sérfræðingum ekki alltaf saman, sérstaklega hvað varðar losun frá landi. Hvernig landbúnaðurinn tekst á við áskoranir í loftslagsmálum hlýtur að þurfa að byggja á rannsóknum sem gefa sem skýrasta mynd af raunverulegri losun við íslenskar aðstæður. Við búum ekki yfir nægilega góðum gögnum í dag og um leið og við grípum til aðgerða þurfum við líka að bæta gögnin.  Með betri gögnum verður miklu sterkari grundvöllur fyrir stærri aðgerðum á þessu sviði, en það er algerlega nauðsynlegt að við náum betri samstöðu um hvar við erum til að geta orðið sammála um hvert við ætlum.

Endurskoðaður nautgripasamningur

Þann 25. október síðastliðinn var samkomulag um starfsskilyrði nautgriparæktar undirritað sem er fagnaðarefni. Samninganefndir bænda og ríkis hafa unnið að samkomulaginu frá því í apríl. Meginbreytingin er að viðskipti með greiðslumark verða heimiluð að nýju. Þau munu fara fram á markaði með jafnvægisverði sem er sama fyrirkomulag og gilti frá 2010–2016. Kynningarfundir hafa staðið yfir á haustfundum Landssambands kúabænda en næstkomandi mánudag verður boðið upp á rafrænan kynningarfund sem er lokakynning á samningunum en um hann má lesa nánar hér í blaðinu á bls. 24. Þar geta bændur komið með fyrirspurnir en mikilvægt er að menn kynni sér samninginn vel. Um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu er einnig fjallað hér í blaðinu en við hvetjum alla nautgripabændur til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Allir þeir sem eru í nautgriparækt og eru aðilar að BÍ og eða LK eiga atkvæðisrétt en atkvæðisgreiðsla verður rafræn og krefst rafrænna skilríkja. Kosið verður með sama kerfi og gert var um endurskoðaðan sauðfjársamning fyrr á þessu ári.

18 myndir:

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...