Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Næsta verkefni
Skoðun 27. júní 2019

Næsta verkefni

Höfundur: Sigurður Eyþórsson

Alþingi hefur samþykkt lög sem heimila innflutning á ófrosnu kjöti og ógerilsneyddum eggjum  frá og með næstu áramótum. Deilur hafa staðið um þetta mál lengi, eða allt frá því að stjórnvöld sömdu um að innleiða matvælalöggjöf ESB fyrir meira en áratug.  Sú löggjöf var ekki hluti af EES-samningnum þegar hann var upphaflega gerður. 

Rökin að baki innleiðingunni voru að tryggja útflutningshagsmuni íslensks sjávarútvegs inn á EES-svæðið, sem vissulega eru gríðarlegir. Það hefur jafnframt þýtt að hagsmunir landbúnaðar hafa þá verið settir til hliðar á móti, eins og ofangreind niðurstaða sýnir.

Bændur hafa lagst gegn þessum breytingum, eins og oft hefur komið fram hér, en lögðu jafnframt mikla vinnu í að leita lausna. Þess gætti ekki síst í þeim takmörkunum sem urðu hluti af löggjöfinni þegar hún var samþykkt mótatkvæðalaust á Alþingi 2009.  Við tóku þá deilur fyrir innlendum og erlendum dómstólum sem nú hafa verið leiddar til lykta með samþykkt ofangreindra breytinga.  

 

Ákvæði um vernd búfjár- og lýðheilsu dæmd út af borðinu

 

Hér verður ekki deilt við dómarann en sárast við niðurstöðu þeirra er samt að ekkert hald væri í ákvæðum 13. greinar EES-samningsins sem heimila takmarkanir til að vernda búfjár- og lýðheilsu. Þau voru einfaldlega dæmd út af borðinu.  Það er sérstakt að í ljósi þess þá hafa nú ESB-ríkin betri heimildir til að verja sína hagsmuni á þessu sviði heldur en EES-ríkin.  Jafnræðið er ekki lengur fyrir hendi eins og fræðimenn hafa bent á.

Að þessu sögðu verður að halda til haga að samþykkt laganna fylgdi líka sérstök þingsályktun í 17 liðum.  Með henni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun í því skyni að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Þar er að finna ýmsar þýðingarmiklar aðgerðir sem verður að fylgja vel eftir en geta alveg falið í sér ýmis tækifæri til að efla innlenda landbúnaðarframleiðslu.

 

Vöktun á sýklalyfjaónæmum bakteríum

í matvælum mikilvæg

 

Af einstökum aðgerðum má sérstaklega nefna fyrirætlanir um að standa betur að vöktun á sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum og hamla því að matvælum þar sem þær greinast sé dreift á neytendamarkaði. Þetta er afar mikilvægt og setur Ísland í fremstu röð í baráttu gegn sýklalyfjaónæmi sem kallað hefur verið eitt stærsta heilbrigðisvandamál 21. aldarinnar.  

Þýðingarmikið er jafnframt að fá allar viðbótartryggingar sem hægt er vegna salmonellu og að dreifing á alifuglakjöti þar sem greinst hefur kampýlóbakter verði áfram bönnuð eins og gildir um innlenda framleiðslu.  Þetta er til að varðveita þá einstöku stöðu sem okkur hefur tekist að ná í baráttu gegn þessum tveimur sjúkdómum. Það var gert með markvissum aðgerðum sem unnar voru í samstarfi framleiðenda og stjórnvalda sem skiluðu árangri sem aðrar þjóðir öfunda okkur af.

Ráðherra á að skila skýrslu til Alþingis um framgang áætlunarinnar þann 1. nóvember næstkomandi. Þá er hægt að meta hvernig gengur, en auðvitað skiptir höfuðmáli að öllum aðgerðum verði fylgt vel og markvisst eftir, ekki síst þar sem tíminn fram að áramótum verður ekki lengi að líða. Bændur lögðu til að aðlögunartíminn yrði lengri til að aðgerðirnar væru lengra komnar þegar opnað yrði fyrir innflutninginn. Það gekk ekki eftir, þannig að nú er aðeins hálft ár til stefnu. Það er skammur tími og því skiptir enn meira máli að allar aðgerðir fari strax í gang.

 

Betri gögn

 

Hér í blaðinu og í síðasta blaði hefur verið fjallað um ný gögn varðandi losun kolefnis frá framræstu landi sem fram komu á ráðunautafundi Landbúnaðarháskólans og RML fyrir skömmu. Fagna ber að verið sé að vinna að því að bæta mat á þessari losun enda hefur margoft verið bent á að það sé ónákvæmt. Sú vinna þarf að halda áfram, en það má ekki gleyma því að loftslagsváin er ekki vandamál sem hægt er að kasta á milli eins og heitri kartöflu.  

Við erum öll hluti af vandanum og við þurfum öll að verða hluti af lausninni ef ekki á illa að fara. Það eru engar einfaldar lausnir til eða auðveldar ákvarðanir. Endurheimt votlendis þarf að vera hluti af lausninni ef Ísland ætlar sér að ná kolefnishlutleysi árið 2040 eins og stjórnvöld stefna að. En hún er engin heildarlausn sem hægt er að einblína á. Með því þurfa að fylgja orkuskipti, minni matarsóun, ábyrgari neysla, landgræðsla, skógrækt og hvað annað sem að gagni getur komið. Á sama tíma þurfum við að halda áfram að rannsaka þessi mál og bæta gögnin að baki.  Við munum rekast á fleiri skekkjur, en á sama tíma þarf aðgerðir. Þær geta ekki beðið.

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...