Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Öfgar án ábyrgðar
Skoðun 22. nóvember 2019

Öfgar án ábyrgðar

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Í upphafi skyldi endirinn skoða segir máltækið. Víst er að það á við fjölmörg mál í okkar samfélagi í dag. Ekki er þó alltaf víst að fólk átti sig á afleiðingum orða sinna og gjörða þegar anað er út í hamslausa umræðu hversdagsins.
 
Í dag gagnrýnum við réttilega margvíslegan sóðaskap í umgengni við náttúruna. Þau okkar sem orðin eru eldri en tvævetra hafa m.a. upplifað umtalsverðar sveiflur í veðurfari. Allt frá verulega köldu veðri með hafís og annarri óáran fyrir um 40 árum og yfir í verulega hlýnandi ástands á síðustu tveim til þrem áratugum. Um þetta þarf enginn að efast.  
 
Löngu áður en íslenskir fjölmiðlar fóru almennt að tala um hlýnun jarðar og gróðurhúsaáhrif reyndi Magnús Jónsson veðurfræðingur að benda íslenskum yfirvöldum á þá þróun án þess að fá miklar undirtektir. Nú er þessi sami maður úthrópaður „afneitunarsinni“, m.a. af þáttastjórnendum í Ríkissjónvarpinu.
 
Trausti Jónsson veðurfræðingur hefur varað fólk við fullyrðingaflaumi í umræðunni þar sem flækjustigið í loftslagsvísindunum sé afar mikið. Hækkun hita snúist ekki bara um losun manna á koltvísýringi. 
 
Þrátt fyrir orð sérfræðinga sem vilja að fólk stigi varlega til jarðar í umræðunni og skoði málin af yfirvegun, þá hefur hún verið spennt upp á ofsafengið plan. Maður verður því oft hvumsa yfir hamslausum sleggjudómum og gagnrýni frá fólki sem veður á súðum í netheimum. Það leyfir sér að hrauna yfir samborgara sína eins og verið sé að tala um skynlausar skepnur. Ónefnin eiga sér engin takmörk og öllum sem leyfa sér að gagnrýna orðræðuna, eða draga upp efasemdarmyndir af því sem um er rætt, eða koma með réttmætar ábendingar, er gjarnan líkt við verstu ómenni sögunnar. Kynt er undir umræðuna af djöfulmóð og jafnvel  með upphrópunum um að enginn verði morgundagurinn. – Gerir fólk sér virkilega ekki grein fyrir hvert þessi umræða er að leiða okkur?
 
Talað er um loftslagskvíða og kulnun vegna óstjórnlegs ótta sem skapast hefur af upphrópunum um að mannkynið sé hreinlega að farast á næstu 10 til 20 árum. Væri ekki rétta að slaka aðeins á og skoða mögulegar afleiðingar áður en lengra er haldið?  
 
Íslendingar glíma í dag við hrikalegan vanda vegna sjálfsvíga, ekki síst í hópi ungra drengja. Dánartíðni karlmanna á Íslandi vegna sjálfsvíga á árunum 2016– 2018 var yfir 46 á ári og kvenna um 5 til 6 á ári samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.  Er virkilega enginn sem áttar sig á hvað svona þráhyggju-heimsendaspár geta haft á sálir sem standa tæpt á andlega sviðinu? 
 
Hrópað er á aðgerðir í loftslagsmálum. Hvernig líta þær kröfur svo út í raunverulegu samhengi hlutanna?
Á árinu 2018 fór 83% þjóðarinnar til útlanda samkvæmt hagtölum. Það hafa þá verið nálægt 207.500 manns. Ferðalög þessa hóps jafngilti því að hver einasti Íslendingur færi að meðaltali 2,8 sinnum til útlanda, sem jafngildir um 700.000 utanlandsferðum. Þetta segir okkur líka að þeir sem höfðu efni á að ferðast fóru að meðaltali nærri fjórum sinnum (3,37 sinnum) til útlanda á síðasta ári, sem merkir að einhverjir fóru kannski einu sinni og þá aðrir miklu oftar. 
 
Þessar tölur segja okkur líka að um 17% þjóðarinnar, eða 42.500 einstaklingar, ferðuðust ekki til útlanda og fjölmargir þeirra höfðu hreinlega ekki efni á að ferðast nokkurn skapaðan hlut. Hverjir ætli hafi svo hæst á netmiðlum og heimti aðgerðir af öllu tagi til að bjarga heiminum? Varla eru það þeir sem ekki hafa efni á mat, húsnæði, tölvum eða utanlandsferðum. 
Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...