Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Öfgar og ofstæki
Mynd / Bbl
Skoðun 10. september 2021

Öfgar og ofstæki

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Hinn 25. september ganga Íslendingar að kjörborðinu og kjósa fulltrúa sína til setu á Alþingi. Þetta er hluti af því lýðræðiskerfi sem við höfum komið okkur upp. Miðað við framgang og vald sem samfélagsumræðan hefur verið að taka sér mætti ætla að slíkar kosningar séu tímaskekkja og hreinn óþarfi.

Lýðræði er vítt hugtak yfir þær stjórnmálastefnur sem byggja á þátttöku almennings í ákvörðunum er hann varðar. Þar er gengið út frá að valdið í tilteknu samfélagi manna eigi sér frumuppsprettu hjá fólkinu. Fyrr á öldum, allt fram að nútímanum, var fullveldi talið til óskoraðs guðdómlegs valds konunga á Vesturlöndum. Enn fela menn sig víða á bak við ósýnilegan guð sem réttlætingu fyrir settum reglum líkt og talíbanar hafa innleitt með sharialögum í Afganistan.

Franska byltingin á á árunum 1789–1795 markaði tímamót í mótun lýðræðis eins og við þekkjum það. Á Íslandi höfum við valið þá leið að velja okkar fulltrúa á fjögurra ára fresti til að fara með vald almennings og er það nefnt fulltrúalýðræði.

Ein birtingarmynd andstæðu við fulltrúalýðræðið er stjórnleysisstefna, eða „anarkismi“. Miðað við þróun umræðu á samfélagsmiðlum undanfarin ár og misseri og hverjir hafa sig þar mest í frammi mætti ætla að sambland stjórnleysisstefnu og öfgafullrar rétttrúnaðarhyggju njóti sívaxandi fylgis á Íslandi. Svo mikið virðist vald slíkra hópa orðið að lög sem sett hafa verið af lýðræðislega kjörnum fulltrúum þjóðarinnar eru að engu höfð. Það sem meira er, að farið er að reka og ráða fólk og stjórnir félaga á samfélagsmiðlum og kalla ævarandi fordæmingu yfir þá sem ekki bugta sig og beygja fyrir þessu nýja valdi. Þeir eru útskúfaðir úr mannlegu samfélagi og nánast réttdræpir líkt og þekktist í fordæmingarherferðum brennualdar þar sem fólk var brennt á báli oftast fyrir upplognar sakir og múgsefjun. Slíkt var tíðkað á Íslandi frá 1625 til 1690.

Í fordæmingarherferð á samfélagsmiðlum skortir yfirleitt ekkert á réttlætinguna frekar en við galdrabrennurnar forðum. Öllu er þessu svo pakkað inn í fallegar umbúðir og sagt gert í nafni göfugra málefna og mannréttinda af öllu tagi.

Það er dapurlegt að horfa og hlusta á fólk réttlæta þessar gjörðir og enn dapurlegra að hlusta á kjörna fulltrúa á Alþingi taka undir slíka umræðu. Þá spyr maður sig; hvert er okkar lýðræðiskerfi komið?

Það er því ekki skrítið að hugsandi fólki sé misboðið, eins og Guðmundi Oddssyni, fyrrverandi skólastjóra, í grein sem hann ritaði og birtist í Morgunblaðinu 8. september. Hann sagði þar m.a.:
„Stundum setur mann hljóðan þegar maður hlustar á hina svokölluðu áhrifavalda. Þeim virðist ekkert óviðkomandi og hika ekki við að tjá skoðanir sínar með slíkum ofstopa að furðu sætir. Flestir þessara áhrifavalda kenna sig við femínista og hafa ákveðið hvað sé rétt eða rangt í þjóðfélaginu. Það er engu líkara en flestir forfeður okkar hafi verið miklir ofbeldismenn og ruddar í þeirra augum.“

Hann vísar líka í umræður í Kastljósþætti þar sem „áhrifavaldur“ lýsti þeirri skoðun sinni að sá sem brotið hefði af sér gagnvart annarri persónu skyldi nánast bannfærður það sem hann ætti eftir ólifað. Gilti þá einu hver ætti í hlut. Guðmundur spyr hvort við séum virkilega komin á sama stað og talíbanarnir, þar sem dómharka og ofstæki ráða för.

„Ef þessir siðapostular sem nú tröllríða samfélagsmiðlum og fordæma allt og alla halda áfram sinni iðju, þá er full ástæða til að taka undir með skáldinu, sem sagði: „Ég á satt að segja ekkert einasta andskotans orð.“ 

Skylt efni: lýðræði

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...