Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Sátt um sumt
Mynd / BBL
Skoðun 23. mars 2017

Sátt um sumt

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur verið með til umsagnar drög að frumvarpi til breytinga á búvörulögum sem raska mjög starfsskilyrðum mjólkuriðnaðarins.
 
Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar sem eru eðlilegar. Flestar þeirra eru einfaldlega lagfæringar eða leiðréttingar sem þarf að gera á þeim lögum sem samþykkt voru við afgreiðslu búvörusamninganna á Alþingi í september síðastliðnum. Um þær breytingar er full sátt og þær eru reyndar meirihluti frumvarpsins, eða átta greinar af tíu.
 
En þær tvær sem eftir standa er ekki hægt að fallast á. Það eru annars vegar ákvæði um heimildir til verðtilfærslu og hins vegar um heimildir til verkaskiptingar. Í frumvarpinu er ekki að finna fullnægjandi rökstuðning fyrir þessum breytingum. Þar er til dæmis hvergi vikið að því hvort búið sé að greina mögulegar afleiðingar þessara tillagna fyrir bændur eða neytendur. Það virðist því ekki hafa verið gert. Vísað er til þess af hendi ráðuneytisins að breytingarnar sem lagðar eru til séu sniðnar eftir fyrirkomulaginu í Noregi og Hollandi. Í vandaðri umsögn Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði um frumvarpsdrögin er gerð skýr grein fyrir því að svo er einmitt ekki. 
 
Frá því að fyrstu hagræðingaraðgerðir kúabænda hófust árið 1991 með þjóðarsáttarsamningunum hefur verið gerð hagræðingarkrafa á bændur og fyrirtæki þeirra í mjólkuriðnaði. Þær aðgerðir, þ.e. skipulagsbreytingar í mjólkurvinnslu, sem og fyrirkomulagi í sölu og dreifingu mjólkurvara, hafa skilað sér í kostnaðarlækkun með fækkun afurðastöðva og sérhæfingu þeirra. 
 
Í greinargerð með frumvarpi til breytinga á búvörulögum sem samþykkt var á Alþingi hinn 28. maí 2004 (lög nr. 85/2004) sagði meðal annars:
 
„Með breytingunum er verið að styrkja framangreindan grundvöll til hagræðingar og tryggja eðlilega að sú hagræðing njóti enn um sinn undanþágu frá gildissviði samkeppnislaga ef það er gert í þeim tilgangi að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða.“
 
Þessi hagræðing hefur skilað sér beint til neytenda og sannreynt hefur verið að þessi aðferð hefur haldið verði á mjólkurvörum niðri. 
 
Hagræðing hefur skilað sér í lægra verði 
 
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skilaði ­skýrslunni „Mjólkurframleiðsla á Íslandi – Staða og horfur“ til landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra árið 2013. Með skýrslunni var leitast við að greina uppbyggingu mjólkurframleiðslu hér á landi og þróun hennar síðustu árin á undan. Þar kom skýrt fram að opinberir styrkir til landbúnaðarframleiðslu hér á landi hafa lækkað sem hlutfall af landsframleiðslu á undanförnum árum. Þrátt fyrir þetta hefur náðst árangur í að ná niður verði á helstu mjólkurvörum og auka framleiðslu. Þar segir einnig að raunverð á nýmjólk, rjóma, skyri, jógúrt, smjöri og osti hafi verið lægra árið 2013 en 2003 og að þó svo verð á mjólkurvörum fari hækkandi hafi verðið ekki haldið í við þróun á vísitölu neysluverðs. Í skýrslunni segir einnig að hagkvæmni hafi aukist mikið í rekstri íslenskra kúabúa árin á undan og að meðalnyt á hverja íslenska kú hafi aukist um u.þ.b. 45% frá 1994–2012. Í skýrslunni var ekki sýnt fram á að annað fyrirkomulag myndi skila meiri ávinningi. Þessi hagræðing í mjólkurframleiðslu hefur því skilað sér í lægra verði til neytenda en lágmarksverð til bænda hefur jafnframt hækkað umfram almennt verðlag síðan 2003. Þannig hafa bæði bændur og neytendur haft ávinning af núverandi fyrirkomulagi sem grundvallast á því að mjólkuriðnaðurinn, sem ekki hefur frelsi til að verðleggja afurðirnar að vild, hefur getað unnið sameiginlega að því að ná hagræðingunni fram, á grundvelli m.a. undanþágu frá samkeppnislögum. 
 
Árið 2014 voru  tekin saman gögn í ­skýrslu („Árangri skilað til neytenda og bænda – Hagræðingaraðgerðir kúabænda 1991–2014“) á vegum Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði er sýnir jafnframt árangur af hagræðingunni. Á það skal einnig bent að verðlag mjólkurvara hefur bein áhrif á vísitölu neysluverðs og þar með hag almennings í landinu.
 
Vísum málinu til samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga
 
Endurskoðun á samkeppnisumhverfi mjólkuriðnaðarins heyrir undir málefni samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga, sem þegar hefur hafið störf og er ætlað að ljúka störfum fyrir lok árs 2018.
Samkvæmt afgreiðslu Alþingis á málinu átti þar að tryggja aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda. Öll þau sjónarmið eru til staðar í hópnum nema að afurðastöðvar fengu ekki að tilnefna fulltrúa í breyttri skipan hópsins. Í áliti meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis sagði meðal annars um þau málefni sem fjallað er um í frumvarpinu: 
 
„Mótað verði með hvaða hætti samkeppnislög gildi um mjólkuriðnað og skilgreint verði hvaða breytingar þurfi að koma til í söfnun og dreifingu mjólkurafurða til þess að svo megi verða án þess að glata þeim jöfnunarmarkmiðum sem felast í núverandi fyrirkomulagi. Einnig verði rýnt í starfsumhverfi afurðastöðva með tilliti til staðsetningar og mikilvægis fyrir þau byggðarlög sem þau starfa í. Meirihlutinn telur nauðsynlegt að við endurskoðunina verði af hálfu ríkisins sérstaklega kannað hvernig landbúnaðarstefnan geti enn frekar ýtt undir framleiðslu afurða beint frá býli og vöruþróun sem byggist á uppruna eða landfræðilegri sérstöðu. Jafnframt telur meirihlutinn rétt að örva og hvetja til frekari sóknar fjölbreyttari flóru fyrirtækja í frumvinnslu búvara og auk þess að huga að fyrirkomulagi og framtíð menntunar starfsmanna afurðastöðva í mjólkurfræði og kjötiðnaði.“
 
Bændur telja einu leiðina í þessu máli að þeim atriðum sem ágreiningur er um verði vísað til umfjöllunar samráðshópsins eins og löggjafinn hefur mælt fyrir um. Það er í samræmi við vilja Alþingis við afgreiðslu málsins auk þess sem það er skynsamlegt að allt starfsumhverfið verði skoðað í heild en ekki einstakir þættir þess. Niðurstaða þeirrar vinnu getur nýst við endurskoðun búvörusamnings í nautgriparækt árið 2019. Breytingarnar sem lagðar eru til eru það víðtækar að um þær getur engin sátt orðið nema sú leið verði farin. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði með breytingu sinni á skipan samráðshópsins áherslu á víðtæka sátt um málefni landbúnaðarins. Með þessu frumvarpi er ljóst að bara eigi að viðhafa sátt um sum viðfangsefni en önnur ekki.
Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...